Þriðjudagur 7. nóvember 2006

311. tbl. 10. árg.

E r eitthvað sem bendir til þess að stjórnmálaflokkum með jafnt hlutfall kynja á framboðslistum vegni betur en hinum? Það mætti ætla það af þeirri einu spurningu sem fréttamenn hafa lagt fyrir formenn flokkanna að loknum prófkjörum síðustu dagana: „Hvað með hlutfall kynjanna, nú eru aðeins x konur í y efstu sætunum ha….“

Í síðustu alþingiskosningum vann Sjálfstæðisflokkurinn varnarsigur í einu kjördæmi en tapaði annars staðar. Það var í norðvesturkjördæmi þar sem karlar sátu í efstu fimm sætunum og flokkurinn átti von á þremur þingmönnum. Að auki var illa staðið að prófkjöri flokksins í þessu kjördæmi, svo ekki sé meira sagt. Svo góð þótti samfylkingarmönnum þessi uppskrift að í prófkjöri þeirra um síðustu helgi var kvenkyns þingmaður flokksins í kjördæminu færður niður fyrir tvo karla sem ekki sitja á þingi nú. Í suðurkjördæmi var svo loks talið upp úr kjörkössunum í gærkvöldi eftir samfylkingarprófkjör helgarinnar. Þar röðuðu karlar sér í þrjú efstu sætin. Hver spáir því að þetta muni reynast Samfylkingunni dýrt?

Mikið var gert úr því fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar að jafnt hlutfall karla og kvenna sæti í 10 efstu sætum framboðslista Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn hlaut eina slökustu kosningu í sögu sinni í borginni.

Vafalaust má finna dæmi um hið gagnstæða; að flokki gangi vel með jafnt hlutfall kynja á framboðslistum. Og auðvitað verður ekkert sannað í þessum efnum enda kosningar aldrei endurteknar við sömu aðstæður þannig að hægt sé að bera það saman hvort sé vænlegra til árangurs jöfn kynjaskipting eða ójöfn.

Vefþjóðviljinn hefur þó meiri trú á kjósendum en svo að hann trúi því að stór hluti þeirra láti það hafa mikil áhrif á sig hvers kyns frambjóðendur eru.