Í vikunni skilaði Stýrihópur um framtíðarstefnumótun um hlutverk og aðkomu stjórnvalda að íbúðalánamarkaðnum lokaáliti. Í hópnum áttu sæti sviðstjóri hjá Íbúðalánasjóði og aðstoðarmenn þeirra tveggja ráðherra sem helst hafa borið ábyrgð á starfsemi Íbúðalánasjóðs, starfsmaður hópsins var lögmaður sem vinnur fyrir Íbúðalánasjóð. Einhverjum kann að þykja þetta kynlega samsetning á stýrihópi. Hefði ekki verið nær að fá einhverja utanaðkomandi sérfræðinga til að leggja mat á hvort þörf sé fyrir aðkomu ríkisins að íbúðalánamarkaði, en það var sumsé ekki hlutverk stýrihópsins eins og sjá má á nafngift hans.
Þetta er nokkurt nýmæli að embættismönnum sé falið að setja í nefndum sem leggja mat ágæti þeirra eigin stofnana. Það má til dæmis spyrja sig hvort að líklegt væri að Skömmtunarskrifstofa ríkisins hefði nokkurn tímann verið aflögð ef nefnd hefði verið skipuð um starfsemi hennar með þessum hætti.
„Starfsemi Íbúðalánasjóðs er óvenju skaðleg ríkisafskipti, í fyrsta lagi vegna þess að sjóðurinn hefur verið þensluvaldandi á sama tíma og aðrar stofnanir ríkisins hafa verið að draga saman seglin. En í öðru lagi vegna þess að þar er ríkisstofnun í beinni samkeppni við einkaaðila.“ |
Líkast til hefði einhverjum fréttamönnum þótt fróðlegt að spyrja ráðherrann, Árna Magnússon, þess þegar hann skipaði nefndina í lok febrúar á þessu ári, hvers vegna ekki voru skipaðir neinir utanaðkomandi sérfræðingar, en ekki gefist tóm til þess áður en hann hætti störfum. Það var heldur ekki seinna vænna að stýrihópurinn skilaði af sér „niðurstöðu“ því aðstoðarmennirnir báðir í hópnum eru hættir störfum og lögmaðurinn kominn í prófkjör hjá Samfylkingunni. Sviðstjóri Íbúðalánasjóðs er því í raun sá eini sem eftir situr og niðurstaðan nokkuð í samræmi við það.
Starfsemi Íbúðalánasjóðs er óvenju skaðleg ríkisafskipti, í fyrsta lagi vegna þess að sjóðurinn hefur verið þensluvaldandi á sama tíma og aðrar stofnanir ríkisins hafa verið að draga saman seglin. En í öðru lagi vegna þess að þar er ríkisstofnun í beinni samkeppni við einkaaðila. Seinni ástæðan er miklu mun alvarlegri til lengri tíma litið en sú fyrri. Íbúðalánasjóður ólíkt öðrum lánveitendum nýtur ábyrgðar ríkisins á skuldbindingum sínum og ólíkt öðrum sem njóta slíkrar ábyrgðar gerir Íbúðalánasjóður það endurgjaldslaust. Íbúðlánasjóður greiðir ekki skatta, ólíkt keppinautum sínum og er ekki felldur undir reglur um eiginfjárkvaðir.
Þetta leiddi til þess að árum saman tókst Íbúðalánasjóði að halda einokunaraðstöðu með aðstöðumun sínum. Það er fráleitt að ætla að honum hafi tekist að bjóða almenningi betri kjör en fengist hefðu í samkeppnisumhverfi, það sést best á því að þegar bankarnir hófu samkeppni við sjóðinn neyddist hann til að lækka vexti til samræmis við það sem aðrir buðu. Það er freistandi að ætla með því að hafa alla lánsfjármögnun á einni hendi náist mest hagkvæmni og líkast til væri það rétt í stöðnuðum heimi þar sem engar framfarir ættu sér stað og engum dytti nokkurn tíma í hug neinar nýjar vörur og þjónusta að nýjar leiðir til að bjóða þá vöru og þjónustu sem fyrir er. En ekkert er jafn fjarri veruleikanum, mikilvægi samkeppninnar er ekki endilega fólgið í því að bjóða sömu vöru og þjónustu og aðrir aðeins ódýrar, heldur að finna nýjar leiðir til að mæta sömu þörfum á hagkvæmari hátt.
Því hefur verið haldið fram að nauðsynlegt sé að halda í Íbúðalánasjóð til að tryggja að allir, sama hvar þeir eru búsettir, njóti sömu kjara við lánveitingar. Erfitt er að átta sig nákvæmlega á hvar átt er við með þessari kröfu. Ef átt er við að allir eigi að fá sömu upphæð að láni, þá á þessi krafa ekki lengur við eftir að skömmtun lánsfjár lauk þegar bankarnir hófu að keppa við Íbúðalánasjóð. Verð fasteigna er vitanlega mismunandi eftir staðsetningum og því veitt mis há lán. Ef í þessu felst ótti við að bankar og aðrir muni ekki veita lán eða mjög lágt lánshlutfall á stöðum sem séu mjög afskekktir og fasteignamarkaður óvirkur, það má í fyrsta lagi spyrja sig hvort að fólki sé einhver greiði gerður með að ríkið veiti því lán fyrir slíkum fasteignum, sem augljóslega eru mjög áhættusöm fjárfesting. En ef við gefum okkur að bankar séu óþarflegar varfærnir í þessum efnum og að rétt sé ríkið grípi inn í, að þá bæri vitanlega að gera það með sértækum aðgerðum en ekki láta niðurgreiða sjóð sem er í samkeppni um allt land.
Það er jafn fráleitt að halda því fram að hugsanlegur markaðsbrestur afskekktustu byggða landsins réttlæti Íbúðalánasjóð og að halda því fram að vegna þess að stöku fasteignasali reynist ekki traustsins verður ætti ríkið að fara að reka fasteignasölu sem væri niðurgreidd, greiddi enga skatta og væri í samkeppni við aðra fasteignasala eða vegna þess að stöku byggingaaðili gengur ekki nægjanlega vel frá verkum sínum að þá ætti ríkið að reka og niðurgreiða verktaka.