Mánudagur 2. október 2006

275. tbl. 10. árg.

Í Staksteinum Morgunblaðsins í gær var fjallað um ræðu Rudy Giuliani á 100 ára afmæli Símans síðastliðinn föstudag. Giuliani sagði í fyrirlestri sínum að forsenda þess að vera leiðtogi væri að hafa hugsjónir og þora að fylgja þeim eftir. Giuliani nefndi sérstaklega hvernig mönnum eins og Ronald Reagan og Martin Luther King hefði tekist að breyta heiminum með því að fylgja eftir hugmyndum sem á sínum tíma þóttu óraunhæfar. Eins og segir í frásögn Morgunblaðsins: „Fyrst og fremst yrði leiðtogi að hafa skýr markmið. Leiðtogi væri skipstjórinn, sem ávallt þyrfti að vita hvert ætti að stefna. Margir féllu í þá gryfju að fara að haga sér í samræmi við skoðanakannanir en slíkir menn væru ekki leiðtogar heldur leikarar.”

Morgunblaðið leggur svo útaf þessum orðum með eftirfarandi hætti: „Almenningsálitið er hvikult og lítið á því að byggja, þegar til lengri tíma er litið. Vonandi gefa markaðsstjórarnir orðum Giuliani gaum. Hann hefur sýnt í verki að hann er flestum fremri á því sviði og þeir geta því margt af honum lært.” Vefþjóðviljinn telur miklu mikilvægara að stjórnmálamenn hafi þetta í huga en einhverjir markaðsstjórar. Því ef þeir láta undan síendurteknum hræðsluáróðri Staksteina, til að mynda síðasta fimmtudag, og snúa baki við hugsjónum sínum og ganga miðjumoðinu á hönd, munu þeir aldrei verða leiðtogar heldur einungis leikarar.