I ndverjinn Barun Mitra ritar grein í nýjasta hefti PERC Reports um örlög tígursins. Hann segir að nú þrjátíu árum eftir að „Project Tiger“ einu frægasta náttúruverndarátaki sögunnar hafi verið hleypt af stokkunum séu aðeins 5.000 til 6.000 villt tígrisdýr eftir í heiminum og þar af um helmingur á Indlandi. Indverjar hafi eytt miklum fjármunum og sett ströng lög til verndar tígrinum en allt komi fyrir ekki. Honum fækki látlaust. Í Kína séu örfá dýr eftir enda hafi verið litið á þau sem algera plágu í stjórnartíð Maós og menn hvattir til að drepa þau.
Árum saman hafa náttúruverndarsinnar litið á eftirspurnina eftir ýmsum líkamspörtum tígursins, hvort sem hún er til lækninga, til að elta tísku eða vegna veiða, sem helstu ástæðu þess að villtum tígrum fækkar óðum. Náttúruverndarsinnar líta svo á að menn og villt dýr geti ekki átt samleið og hafa því lagt á það áherslu að einangra dýrin á náttúruverndarsvæðum, krafist banns við veiðum og viðskiptum og reynt að koma í veg fyrir að maðurinn spilli verndarsvæðunum.
Ráðstefna um verslun með dýr í útrýmingarhættu (CITES) hóf að takmarka viðskipti með ýmis dýr og plöntur árið 1975. „Project Tiger“, sem hófst árið 1972 hafi reynt að koma á algjöru banni við veiðum og verslun á tígrisdýrum. Því til viðbótar voru stofnuð níu verndarsvæði tígrisdýra og þeim hefur nú fjölgað í 27. |
Mitra segir að þessar aðferðir hafi brugðist en engu að síður haldi náttúruverndarsamtök í hinum svonefnda frjálsa heimi áfram að krefjast harðari aðgerða til verndunar tígrinum og heimti jafnvel að Indlandsher fái það verkefni að standa vörð um dýrin. Löndin sem þessi samtök starfa í eiga það sameiginlegt að þar hafa aldrei verið tígrisdýr. Minnir þessi lýsing á fundi Alþjóða hvalveiðiráðsins þar sem sitja fulltrúar lands hafa ekkert að gera með nýtingu hvala og sitja þar í þeim tilgangi einum að heimta að aðrir verndi hvalinn og taki á sig allan kostnaðinn af því.
Worldwide Fund for Nature og fleiri verndarsamtök villtra tegunda og samtök til verndunar tígrinum reyna að hagnast á því hve tígurinn er í hávegum hafður í ríkari löndum. Í raun er afhroð tígursins bæði tekjulind þessara samtaka og hjálpar þeim að öðlast viðurkenningu. |