Föstudagur 22. september 2006

265. tbl. 10. árg.

Þ ess hefur áður verið getið, að áhugamenn um íslensk stjórnmál og menningu eigi kost á virkilega áhugaverðu tímariti um þau málefni. Í gær kom út hausthefti Þjóðmála og ekki er það lakara en hin fyrri. Tvær af greinum heftisins hafa þegar vakið verulega athygli, einkum grein prófessors Þórs Whiteheads um íslensk öryggismál síðustu áratugi. Í grein Þórs kemur fram að íslensk yfirvöld hafa reynt að sinna þeirri skyldu sinni undanfarna áratugi að verja innra öryggi ríkisins og það þjóðskipulag sem hér hefur verið. Vitaskuld hefur verið full þörf á því hér eins og annars staðar, þó af íslenski umræðu megi stundum ætla að önnur lögmál gildi á Íslandi en víðast annars staðar. Um það segir Þór meðal annars í hinni stórfróðlegu grein, sem birt er á 30 síðum í Þjóðmálum

Umræða um íslenska þjóðaröryggisstofnun eða leyniþjónustu hófst hér, eins og kunnugt er, vegna skýrslu, sem öryggissérfræðingar frá Evrópusambandinu sömdu fyrir dómsmálaráðuneytið. Því miður virðist þessi skýrsla hafa orðið að dæmigerðu íslensku bitbeini, þar sem andstæðingar dómsmálaráðherrans reyna að koma á hann höggi fyrir að vilja setja hér upp með löglegum hætti stofnun, sem flestum þykir jafn sjálfsögð og umferðarlögregla eða slökkvilið í öðrum ríkjum Evrópu. Látið er í veðri vaka, að íslenska ríkið hafi, eitt Evrópuríkja, ætíð verið blessunarlega laust við að þurfa að sinna innra öryggi sínu þangað til Björn Bjarnason fann upp þann vanda.

Eins og hin geysifróðlega og læsilega grein Þórs sýnir, þá eru öryggismál alvarlegri hlutur en oft mætti ætla af flissinu sem jafnan kemur þegar einhver reynir að ræða öryggismál af viti á Íslandi. Andstaðan við að settar verði reglur um það hvernig ríkið gætir innra öryggis síns, afneitunin á því að hvert einasta ríki gerir og verður að gera ráðstafanir til þess að verja þjóðskipulag sitt, kemst í nýtt ljós við lestur greinar Þórs.

Önnur grein Þjóðmála sem vakið hefur athygli er frásögn prófessors Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar af gögnum sem hann hefur fundið í sænskum skjalasöfnum og sýna að íslenskir menntamenn beittu sér gegn því að Gunnar Gunnarsson rithöfundur fengi bókmenntaverðlaun Nóbels, sem hann stóð mjög nærri. Svo nærri að sænska Nóbelsnefndin hafði samþykkt að leggja það til.

Margt fleira fróðlegt og áhugavert efni er í Þjóðmálum eins og jafnan áður. Bjarni Harðarson blaðamaður fjallar um Draumaland Andra Snæs Magnasonar og er fjarri því að vera eins hrifinn og margir þeir sem hafa látið eins og þar sé komið stórvirki og snilldarhugsun. Tryggvi P. Friðriksson listaverkasali skrifar um íslenska myndlist og það sem þar er hampað en fáir vilja sjá og þannig mætti lengi telja. Þjóðmál eru sem fyrr troðin áhugaverðu efni sem full ástæða er til að benda áhugamönnum um stjórnmál og menningu á.

Þjóðmál fást í bóksölu Andríkis, áskrift kostar 3.500 kr. um hver fjögur hefti en einnig er hægt að kaupa stakt hefti í lausasölu og kostar hvert kr. 1.250. Í öllum tilfellum er heimsending innanlands innifalin.