Fimmtudagur 31. ágúst 2006

243. tbl. 10. árg.

R annsóknastofnun um samfélags- og efnahagsmál hélt í byrjun vikunnar ráðstefnu um þróun eignarréttar í sjávarútvegi en um þessar mundir eru 15 ár síðan kvótakerfið var fest í sessi í útgerð við Ísland. Fyrir aldarfjórðungi voru framseljanlegar varanlegar aflaheimildir, eins og íslenska kvótakerfið, nær óþekktar en nú ná þær til 10 til 15% fiskveiða heimsins.

Við setningu ráðstefnunnar flutti Halldór Ásgrímsson fyrrverandi sjávarútvegsráðherra ávarp þar sem hann sagði meðal annars að kvótakerfið væri lykilatriði í þeim efnahagslega uppgangi sem Íslendingar hefðu notið undanfarinn áratug. Halldór vakti jafnframt athygli á því að þótt sjávarútvegur sé afar mikilvæg atvinnugrein fyrir Íslendinga séu litlar takmarkanir á innflutningi sjávarafurða til landsins en þjóðum hættir mjög til þess að vernda helstu atvinnugreinar sínar fyrir erlendri samkeppni. Þessi frjálsi innflutningur á fiski virðist ekki hafa komið að sök, jafnvel þótt sjávarútvegur í mörgum öðrum löndum sé niðurgreiddur af opinberu fé. Þetta hlýtur að vera umhugsunarefni þeim sem halda því fram að Íslendingar eigi að „verja“ landbúnað sinn með innflutningshöftum og niðurgreiðslum vegna þess að aðrar þjóðir geri það. Íslenskur sjávarútvegur nýtur ekki slíkrar verndar og stendur betur en útgerð í þeim löndun sem beita öllum verndarráðunum.

Við upphaf ráðstefnunnar vakti Ragnar Árnason prófessor einnig athygli á því sjónarmiði að útgerðarmenn taki við fiskrannsóknum og ákvörðun um heildarafla af ríkinu. Eins og menn þekkja þá hafa stjórnvöld oft farið nokkuð fram úr ráðleggingum fiskifræðinga Hafrannsóknarstofnunarinnar um heildarafla. Það er eðlilegt eða öllu heldur skiljanlegt að stjórnmálamenn taki tillit til skammtímasjónarmiða við þessa ákvörðun enda jafnan stutt í næstu kosningar og meiri veiði getur jú bætt hag landsmanna til skamms tíma. Eigendur veiðiréttarins, kvótans, standa hins vegar frammi fyrir því að slík skammtímasjónarmið og ofveiði leiða til lægra verðs á kvóta. Ofveiði og minnkandi fiskistofnar skerða eignina sem felst í veiðiréttinum. Það er því rökrétt að fiskrannsóknir og ákvörðun um heilarafla verði fært til þeirra sem hafa mestan hag af því að efla fiskistofnana til langs tíma. Þetta gæti þar að auki sparað skattgreiðendum um 4 milljarða króna á ári.