Miðvikudagur 30. ágúst 2006

242. tbl. 10. árg.

ÍSkotlandi hafa staðið yfir sýningar á leikriti sem nefnist Allegiance og er að nokkru leyti byggt á sannsögulegum atburðum. Hinn þekkti leikari, Mel Smith, fer í verkinu með hlutverk Winstons Churchills. Í því fólst meðal annars að reykja vindil á leiksviðinu, enda sást Churchill vart án vindils frá unga aldri og þar til hann lést á sjöunda áratugnum, kominn á tíræðisaldur. En þá kom babb í bátinn. Þó Winston Churchill hafi í lifanda lífi átt meira en lítinn þátt í að knésetja hin og þessi óargadýr, jafnvel hinn reyklausa Adolf Hitler, þá varð hann nú dauður að játa sig sigraðan fyrir borgaryfirvöldum í Edinborg. Þarna mátti ekki reykja og yfirvöld hótuðu að loka öllu saman ef leikarinn svo mikið sem púaði einn vindil. Mel Smith brást fyrst hinn versti við og lofaði engu um hvað hann myndi gera á sviðinu. Höfðu forsvarsmenn sýningarinnar miklar áhyggjur þar sem borgaryfirvöld ætluðu ekki að gefa þumlung – eða vindilstúf – eftir af rétttrúnaðinum. Þegar til kom lét Smith sér nægja að vera með vindilinn í munninum en kveikti ekki í, og létti forsvarsmönnum þá mjög. William Burdett Coutts, framkvæmdastjóri sýningarinnar, sagðist mjög feginn því afleiðingarnar hefðu orðið mjög alvarlegar. „I was told before his first performance on Monday by the council’s chief enforcement officer that if Mel had smoked on stage I would have been given a £1,000 fine and he would shut down the entire premises. It was an extremely serious situation because he said he would also never give me a licence again“, sagði Coutts í samtali við BBC. En vindillinn var ókveiktur, sýningin hélt áfram og rétttrúnaðurinn vann einn smásigurinn enn. Sigur sem Mel Smith sagði við fréttamenn að áðurnefndur kanslari Þýskalands hefði fagnað.

En svona gengur þetta nú fyrir sig núorðið. Hér á landi heldur rétttrúnaðurinn einnig áfram og er hart sótt að fólki sem vill reykja eða gera ýmislegt annað sem nútímanum þykir ekki fínt. Eins og að horfa á einkadans. Þar hafa borgar- og bæjaryfirvöld víða misnotað lögreglusamþykktir til að hindra löglega starfsemi sem þeim líkar ekki og dómstólar látið það meira en gott heita. Bókum og kvikmyndum er nú víða um hinn vestræna heim breytt til þess að eltast við rétttrúnað nútímans. James Bond reykir ekki lengur, vindlar hafa verið þurrkaðir úr Tomma og Jenna þáttum, í nýjum útgáfum af bókum Enid Blyton er nú tekið fram að strákar vinni heimilisstörf til jafns við stelpur, sjónvarpsstöðvar hafa verið sektaðar fyrir að breyta ekki fréttamyndum sínum svo að tóbaksauglýsingar sjáist þar ekki og þannig mætti áfram telja.

ÍÍgær ógilti áfrýjunarnefnd samkeppnismála tiltekinn úrskurð samkeppniseftirlitsins um samruna fyrirtækja. Ef marka má fréttir var ógildingin alls ekki sökum þess að áfrýjunarnefndin hefði verið ósammála eftirlitinu um að samruninn yrði „skaðlegur fyrir samkeppni“, heldur eingöngu út af einu formsatriði. Ætli starfsmenn samkeppnisstofnunar megi ekki á næstunni vænta þess að stjórnmálamenn og fjölmiðlar krefjist afsagnar þeirra?