Sumir halda að lendingin á tunglinu hafi verið sviðsett í Arizona og sumir trúa að jörðin sé flöt. Hópur áttatíu og fimm íhaldssamra evangelískra presta, sem teljast stuðningsmenn Bush og Cheney, tilkynnti nýlega að hann hefði breytt um afstöðu gagnvart hlýnun jarðar. |
– Al Gore í viðtali á SkyNews um efasemdarmenn um áhrif mannsins á hlýnun jarðar. |
A l Gore fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna ræddi við Adam Boulton á Sky fréttastöðinni í fyrrakvöld. Gore frumsýndi í sumar kvikmynd sem byggð er á glærufyrirlestri hans um gróðurhúsaáhrifin. Myndin ber nafnið „An Inconvenient Truth – A Global Warning“ og vefur tileinkaður myndinni ber ekki síður skuggalegt heiti eða Climatecrisis.net. Gore var tíðrætt um sannleikann í viðtalinu á Sky en hann og fleiri telja það nú helstu rökin í þessari umræðu allri að um málið sé „consensus“ eða algjör samstaða. Efasemdarmenn, sem meðal annars hafa gert þessa sjónvarpsauglýsingu, afgreiddi Gore með þeim orðum að enn væru til menn sem tryðu því að jörðin væri flöt. Þetta er merkilegt dæmi sem Gore velur sér því það er hætt við að jörðin væri enn bæði marflöt og miðpunktur heimsins ef Copernicus, Galileo og Bruno hefðu látið „consensus“ stýra afstöðu sinni til málsins. Það ætti ekki síst við ef þeir hefðu látið hóp presta hafa hafa sitt fram.
En Gore hefur verið í fleiri viðtölum í sumar vegna kvikmyndar sinnar. Hann sagði í viðtali við ABC sjónvarpsstöðina að „umræðunni í vísindasamfélaginu væri lokið“. Niðurstöðurnar, hinn algilda sannleik, munu íslenskir kvikmyndahúsagestir geta séð innan tíðar þegar kvikmyndin berst hingað til lands en íslensku vinstri flokkarnir eiga nú í undirbúningskapphlaupi vegna komu hennar hingað því þeir ætla þeir að slá sér upp á þessari nýjustu afurð bandarískrar kvikmyndagerðar.
Richard S. Lindzen prófessor í lofthjúpsfræðum við MIT háskólann í Bandaríkjunum lagði út af þessum orðum Gores í grein í The Wall Street Journal fyrr í sumar. Grein sína nefnir Lindzen „There Is No ‘Consensus’ On Global Warming“. Lindzen er ekki jafn sannfærður og Gore um að umræðunni sé lokið og raunar má segja að grein hans sýni í sjálfu sér að svo er ekki. Þegar Gore var spurður að því í viðtalinu við ABC hvers vegna yfirborð sjávar hefði hækkað mun minna en hann gefur í skyn á dramatískan hátt í kvikmynd sinni sagði hann að vísindamenn „hefðu ekki enn gert reiknilíkön sem sýndu veruleikann með mikilli nákvæmni“ og sumt „viti vísindamenn einfaldlega ekki“. Lindzen spurði í grein sinni hvort þessir vísindamenn hefðu þá ekki fengið aðgang að hinni „algjöru samstöðu“.
Lindzen segir að nálgun Gores á viðfangsefninu beri þess sterk einkenni að hann líti algerlega framhjá þeirri staðreynd að jörðin og loftslag hennar eru breytileg og taki sífelldum breytingum án aðstoðar. „Að halda því fram að menn eigi að óttast allar breytingar er afleitt. Það er þó hjóm eitt miðað við að halda þessu fram til þess að nýta sér óttann“, segir Lindzen.
Lindzen rifjaði einnig upp að tímaritið Newsweek fjallaði um hlýnun andrúmsloft jarðar í grein árið 1988 og hélt því þá fram að vísindamenn væru allir á einu máli. Tímaritið hefur svo með reglulegu millibili fjallað um þessi mál og jafnan sagt að nú séu allir vísindamenn loks orðnir sammála um ástandið.