Eins og skiljanlegt er, þá reyna stjórnarandstæðingar eins og þeir geta að viðhalda einhverri neikvæðri umræðu um virkjanaframkvæmdirnar á Austurlandi. Aðalatriði málsins voru auðvitað rædd fram og aftur áður en niðurstaða fékkst og ákvarðanir voru teknar, en það dregur auðvitað ekki úr mönnum að halda áfram að endurtaka sömu þulurnar ár eftir ár, eins og þeir eiga vitaskuld fullan rétt á. Fréttamenn eltast enn við hvers kyns „mótmæli“ sem efnt er til og þykja þau víst öll jafn fréttnæm. Og ef upp koma ný atriði, jafnvel smáatriði, þykjast þeir aldeilis hafa komist í feitt. Síðasta dæmið er ein skýrslan enn, sem nú er deilt um hvort þingmenn hafi vitað af eða ekki – rétt eins og nokkrum manni detti í hug að atkvæði um virkjunina hefðu fallið á einhvern annan hátt jafnvel þó þingmenn hefðu fengið skýrsluna lesna upp fyrir sig frá orði til orðs og þar á eftir morsaða á ennið á sér í svefni. Hvernig er það, ætlar Samfylkingin kannski að reyna að telja mönnum trú um, að meginþorri þingmanna hennar hefði hætt við að styðja Kárahnjúkavirkjun ef hann hefði bara séð eina skýrsluna enn? Svo lengi sem skýrslan er ekki frá Gallup hefur hún engin áhrif á stefnu Samfylkingarinnar. Þegar skoðanakannanir höfðu leitt í ljós yfirgnæfandi stuðning við virkjanaframkvæmdir greiddi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir atkvæði í borgarstjórn með ábyrgð á lánum sem Landsvirkjun varð að taka vegna Kárahnjúkavirkjunar, með þeim orðum að hún vildi ekki „bregða fæti fyrir“ virkjunina. Halda menn að það hefði breyst ef hún hefði bara lesið skýrslu Gríms jarðeðlisfræðings?
En þessi krafa um „allar upplýsingar“ er vinsæl í sambandi við Kárahnjúkavirkjun. Og það eru ýmsir sem telja að margt eigi að teljast til leyndarmála. Á dögunum slógu bæði NFS og Morgunblaðið upp viðtölum við konu nokkra, Desiree Derrick Tullos að nafni, og kynntu hana sem hinn mesta sérfræðing í virkjanamálum, þó síðan hafi komið í ljós að í þeirri kynningu var margt ofsagt. En „sérfræðingurinn“ hafði margt að segja sem kallaði á viðbrögð, bæði stuðningsmanna og andstæðinga virkjanaframkvæmdanna. Í fjölmiðlapistli sínum í Viðskiptablaðinu síðastliðinn föstudag segir Ólafur Teitur Guðnason meðal annars um þau viðbrögð:
Af hinum vængnum skrifaði til dæmis Dofri Hermannsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, pistil um málið á vef sinn þetta sama kvöld undir fyrirsögninni: „Kárahnjúkavirkjun – hvað er það sem fólk má ekki vita?“ Dofri segir þarna frá hinu merkilega viðtali við Tullos, í því hafi falist „vel þegnar athugasemdir óháðs aðila“ sem séu „mikið áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga“. Landsvirkjun beiti hins vegar „kunnuglegum undanbrögðum“ og reyni að „láta líta út fyrir að [Tullos] sé bara einhver stelpukjáni“. Sjálfur leggur hann svofellt mat á málið: „Það lá svo mikið á að fara í þesar framkvæmdir að það var ekki gefinn tími til rannsókna. [… Það] stóð aldrei til að fara eftir niðurstöðum rannsókna þótt þær bentu til þess að framkvæmdin væri óafsakanleg.“ Daginn eftir grípur Dofri enn til varna fyrir Tullos, segir að Landsvirkjun leggi „allt kapp á að gera [hana] tortryggilega,“ sem að vísu komi tæpast á óvart vegna þess að: „[Þ]ví miður er það að verða viðtekin venja hjá Landsvirkjun að drepa málum á dreif, fara með hálfsannleika eða jafnvel segja beinlínis ósatt þegar fyrirtækið fær á sig gagnrýni.“ … Þriðja daginn skrifar Dofri enn um málefni Kárahnjúkavirkjunar, að þessu sinni undir fyrirsögninni: „Keflaðir vísindamenn.“ Þar gagnrýnir hann að vísindamanni nokkrum hefur verið bannað að tjá sig um framkvæmdina. |
En hver ætli að hafi nú tekið viðtal NFS við Desiree Derrick Tullos? Ólafur Teitur svarar því í pistli sínum:
Það kom hvergi fram í frétt Láru Ómarsdóttur um sjónarmið Desiree Derrick Tullos, og var ekki heldur tekið fram þegar viðtalið var sýnt í heild í Íslandi í dag, að sá sem tók viðtalið var ekki Lára Ómarsdóttir heldur Dofri Hermannsson. |
Og þá er ekki allt búið. Ólafur Teitur heldur áfram:
Þegar mér var bent á að Dofri hefði tekið viðtalið leitaði ég fyrst eftir staðfestingu á því hjá Láru Ómarsdóttur, sem gerði fréttina. Ég spurði hana hver hefði tekið viðtalið. Hún sagðist þá ekki geta sagt mér það, því hún héldi að það væri leyndarmál! Ég spurði hvort það hefði verið Dofri, en aftur neitaði Lára að svara. Sagðist ekki vera viss um að hún mætti segja mér það og vísaði á Róbert Marshall. Í frétt Láru, pistlum Dofra og ummælum Tullos kemur alls staðar fram, að ein helsta gagnrýnin á framkvæmdina sé ófullnægjandi upplýsingar um hana. Dofri segir enn fremur, og Lára hefur það líka eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, að mikilvægri skýrslu hafi verið haldið leyndri. Það er því með nokkrum ólíkindum að þegar hringt er og spurt hver hafi tekið þetta blessaða viðtal, og hvort rétt sé að það hafi veri Dofri, þá segist fréttamaðurinn ekki geta upplýst það! Þetta er sami fréttamaðurinn og gerir fréttir um að skýrslum sé haldið leyndum. Og sá sem hann vill vernda með því að þegja er sá hinn sami og spyr: „Kárahnjúkavirkjun – hvað er það sem fólk má ekki vita?“ Og skrifar pistla um „keflaða vísindamenn“. Það er alveg hreint kostulegt að komast að því, að eitt af því sem við megum ekki vita um Kárahnjúkavirkjun er hver gerir fréttirnar um hana. Þegar spurt er að því verða fyrir svörum keflaðir fréttamenn. |
Vikulegir fjölmiðlapistlar Ólafs Teits Guðnasonar eru ein albesta lesning sem boðið er upp á í íslenskum fjölmiðlum og nær eina aðhaldið sem íslenskir fjölmiðlar fá. Bækur Ólafs Teits, Fjölmiðlar 2004 og Fjölmiðlar 2005 fást báðar í bóksölu Andríkis og er full ástæða til þess að mæla með þeim báðum. Þeir sem lesa þær, horfa upp frá því með öðrum augum á íslenska – og raunar erlenda – fjölmiðla.