Í síðustu viku bárust athyglisverðar fréttir af ársfundi Vestnorræna ráðsins, sem er samstarfsvettvangur þinga Færeyja, Grænlands og Íslands. Fundurinn hvatti ríkisstjórnir þessara landa til þess að semja um aðild Grænlands að Hoyvíkursamningnum, sem Færeyingar og Íslendingar hafa gert um fríverslun milli landanna. Í útvarpsfréttum kom það fram hjá Halldóri Blöndal, sem er formaður sendinefndar Íslands hjá ráðinu, að rætt hefði verið um að Noregur gæti hugsanlega í framtíðinni átt aðild að samningunum.
Þetta eru merkilegar fréttir fyrir þær sakir, að nái áformin um útvíkkun samningsins með Grænlandi fram að ganga, svo ekki sé nú talað um með Noregi, þá stækkar heimamarkaður Færeyja, Grænlands og Íslands verulega. Flutningur vöru, þjónustu, fólks og fyrirtækja á svæðinu myndi einfaldast verulega, og til yrði vestnorrænt efnahagssvæði.
„Það er umhugsunarvert fyrir þá, sem sífellt boða ágæti aðildar Íslands að ESB, að ef Ísland ætti aðild að tollabandalaginu, þá hefði landið ekki getað gert Hoyvíkursamninginn um einföldun og opnun viðskipta og flutnings fólks og fyrirtækja milli Íslands og Færeyja.“ |
Hoyvíkursamningurinn er að mörgu leyti athyglisverður. Hann er víðtækasti fríverslunarsamningur sem Ísland hefur gert og er líklega eini fríverslunarsamningur, sem nær til landbúnaðarvara, sem Ísland á aðild að. Fyrir utan að leggja bann við mismunun af ýmsu tagi nær hann til frjálsrar farar fólks og búseturéttar, vöru- og þjónustuviðskipta, samkeppni, fjármagnsflutninga og vöruviðskipta. En merkilegastur er hann fyrir einfaldleik sinn. Hann veitir ákaflega mikið frelsi í samskiptum borgara og fyrirtækja landanna. Ólíkt mörgum samningum þá verður ekki um að ræða risavaxna yfirbyggingu nákvæms eftirlits- og úrskurðarkerfis. Ekki er heldur gert ráð fyrir því, að halda verði öllum öðrum úti, og ekki megi gera aðra samninga nema í samráði. Hugsunin er því nokkuð öðruvísi en hjá Evrópusambandinu.
Hugsanlega áttu einhverjir þá draumsýn einhvern tímann, að ESB yrði boðberi frjálsra viðskipta. En ljóst er að margir helstu hvatamenn og forystumenn þess hafa átt sér þann draum æðstan að það myndi þróast í að verða sambandsríki Evrópu. Ljóst er að verði sá draumur að veruleika, þá verður það ekki sambandsríki af frjálslyndara taginu.
Í stað þess að stuðla að frjálsum viðskiptum, hefur ESB þróast út í það að vera samband ríkja, sem leyft hafa frjáls viðskipti og flutning vöru og þjónustu á ákveðnum sviðum, en útilokað mörg ríki heimsins til hins sama innan vébanda sinna. ESB hefur gert samninga við ríki sem eru því þóknanleg og veitt þeim mismunandi aðgang að mörkuðum sínum. ESB hindrar því í raun frelsi í alheimsviðskiptum. Fáránleiki ESB hefur jafnframt komið í ljós í stöðlunaráráttu þess og forsjárhyggju. Það sjónarmið hefur orðið ofan á hjá ESB að neytendur hafi almennt ekki til þess burði að taka ákvörðun um það á markaði hvað henti þeim best. ESB á auðvitað til svar við því, staðla. Endalausir staðlar eru settir um allan þremilinn og eru þekkt dæmin um lengd stilka lauka og lengd og lögun agúrka. Auðvitað er mikilvægt að samræma löggjöf svo að framkvæma megi fríverslunarsamninga. En það þarf varla að finna upp staðla um það hvað heita megi gúrka eða laukur.
ESB er hindrun í vegi frjálsra viðskipta. Í fyrsta lagi með því að útiloka ótal mörg lönd frá aðgangi að markaði sínum með gífurlega háum tollamúr. ESB er markaður ríkra elíturíkja, ríkja sem ESB þóknast að semja við um tollfrjálsan aðgang að mismörgum sviðum. Ýmis svið eru oft undanskilin, eins og til dæmis landbúnaðarvörur, sem hefur auðvitað mikil áhrif. ESB dregur jafnframt úr frjálsum viðskiptum með óbeinum hindrunum, eins og því að setja staðla um alla mögulega og ómögulega hluti.
Með Hoyvíkursamningnum stækkar heimamarkaður Íslands mikið. Samningurinn virðist einfaldur ódýr í framkvæmd. Verði Grænland, svo ekki sé talað um Noregur, aðilar að samningum, stækkar heimamarkaður landsins enn frekar. Hann veitir borgurum og fyrirtækjum aðildarlands sömu réttindi og heimamenn og innlend fyrirtæki í hinu aðildarlandinu hafa, en það hefur í för með sér að nánast jafneinfalt verður fyrir borgara og fyrirtæki aðildarríkjanna að eiga viðskipti milli landanna eins og innanlands. Reikna má með að viðskipti milli landanna muni aukast gífurlega til hagsbóta fyrir alla borgarana.
Það þarf ekki endilega gífurlega stofnanauppbyggingu til þess að ná árangri við gerð fríverslunarsamninga.
Það er umhugsunarvert fyrir þá, sem sífellt boða ágæti aðildar Íslands að ESB, að ef Ísland ætti aðild að tollabandalaginu, þá hefði landið ekki getað gert Hoyvíkursamninginn um einföldun og opnun viðskipta og flutnings fólks og fyrirtækja milli Íslands og Færeyja.