Laugardagur 26. ágúst 2006

238. tbl. 10. árg.

R íkisreikningur fyrir árið 2005 var birtur í fyrradag og var að ýmsu leyti nokkuð ánægjuleg tíðindi. Útgjöld ríkisins jukust að vísu um 4%, og er þá horft framhjá sölu Símans sem skekkir allan samanburð og verður ekki endurtekin ef að Vefþjóðviljinn metur stöðuna rétt. Gjöldin lækkuðu hins vegar annað árið í röð sem hlutfall af landsframleiðslu og fóru úr 32,8% árið 2004 í 31% í fyrra. Þessi þróun er æskileg og mikilvægt að hún haldi áfram. Önnur þróun er síður æskileg en þar er um að ræða vöxt tekna ríkissjóðs. Tekjur ríkissjóðs, ef horft er framhjá sölu Símans, jukust um 18% milli ára og námu nær 350 milljörðum króna í fyrra. Sem hlutfall af landsframleiðslu hækkuðu tekjurnar úr 33% í 36%.

Sumir telja ef til vill að þessi þróun tekna ríkisins sé jákvæð, en það er fjarri lagi. Ríkissjóður ætti að heimta eins fáar krónur af borgurunum og nokkur kostur er. Þannig er vafasamur ávinningur af því að ríkissjóður skuli hafa verið rekinn með gífurlegum afgangi í fyrra, þó að það hafi vissulega líka sína kosti. Einn kostur er sá að nú ættu allir að sjá, líka vinstri menn sem reyna allar hæpnar röksemdir til að mæla með háum sköttum, að ekkert er því til fyrirstöðu að lækka skatta svo um munar. Ríkið hafði í fyrra allt of miklar tekjur og líkur eru á að það endurtaki sig í ár. Nauðsynlegt er hins vegar að koma í veg fyrir að þetta verði að reglu, því að þá verður stutt í að útgjöldin aukist að sama skapi. Eina leiðin til að halda aftur af útgjöldum ríkisins til lengri tíma litið er nefnilega að halda aftur af tekjunum. Og eina leiðin til að gera það – ef menn vilja ekki treysta á efnahagskreppu til að draga úr innkomunni – er að lækka skatta duglega.

Ekkert hefur þó heyrst af hugmyndum ríkisstjórnarinnar um áframhaldandi skattahækkanir, þvert á móti þá sveik hún nýlega gefið loforð um 4% lækkun tekjuskattshlutfallsins og ákvað að skattgreiðendum nægðu þrátt fyrir loforðið aðeins 3%. Þetta eru þó svik sem ekki þurfa að verða að veruleika, því að enn er hægt að hætta við að leggja í haust fram frumvarp um hækkun skatta. En haustið og veturinn eru reyndar talsvert áhyggjuefni þegar kemur að ríkisfjármálum, ekki síst þegar jafn vel árar og nú og kassar skattheimtumanna fyllast sem aldrei fyrr. Ástæðan er vitaskuld sú að næsta vor eru alþingiskosningar og þrýstingur á fjármálaráðherra, bæði frá hagsmunahópum og óstöðugum þingmönnum, verður því mikill. Það verður fróðlegt að sjá hvort að fjármálaráðherra og ríkisstjórnin standast þá prófraun. Vefþjóðviljinn hyggst ekki leggja allt undir að svo fari, en vonar það besta.