Helgarsprokið 20. ágúst 2006

232. tbl. 10. árg.

F yrir um það bil fimm árum sendi einhver dæmisögu um skattalækkanir í lesendadálk Chicago Tribune. Dæmisagan hefur ferðast nokkuð víða og er svohljóðandi í sæmilega hroðvirknislegri endursögn:

Tíu menn hafa þann sið að borða reglulega saman á ónefndu veitingahúsi. Reikningurinn hljóðar alltaf upp á 100 þúsund krónur. Hins vegar er hann greiddur með svipuðum hætti og fólk borgar skattana sína. Á veitingahúsinu skiptist því reikningurinn ekki upp í tíuþúsund kall á hvern og einn, heldur með eftirfarandi hætti:

#1 borgar ekkert,
#2 borgar ekkert,
#3 borgar ekkert,
#4 borgar ekkert,
#5 borgar eitt þúsund krónur,
#6 borgar þrjú þúsund krónur,
#7 borgar sjö þúsund krónur,
#8 borgar tólf þúsund krónur,
#9 borgar átján þúsund krónur og loks;
#10 borgar restina, sem eru heilar 59 þúsund krónur.

Þeir fyrstu fjórir eru þeir tekjulægstu í hópnum og sá tíundi sá efnaðasti.

Eigandi veitingahússins tekur sig hins vegar til einn daginn og lækkar verðið á reikningnum, úr 100 þúsund í 80 þúsund, sem væri jafngildi skattalækkunar, svona yfir heilt þjóðfélag.

Þetta breytir ögn hvernig staðið er að greiðslu reikningsins:

#1 borgar áfram ekkert,
#2 borgar áfram ekkert,
#3 borgar áfram ekkert,
#4 borgar áfram ekkert,
#5 borgaði áður eitt þúsund krónur, en borgar nú ekkert (sparar 1 þúsund krónur)
#6 borgaði þrjú þúsund krónur, en borgar nú 2 þúsund (sparar 1 þúsund krónur)
#7 borgaði sjö þúsund krónur, en borgar nú 5 þúsund (sparar 2 þúsund krónur)
#8 borgaði tólf þúsund krónur, en borgar nú 9 þúsund (sparar 3 þúsund krónur)
#9 borgaði átján þúsund krónur, en borgar nú 14 þúsund (sparar 4 þúsund krónur) og loks;
#10 borgaði restina, sem var 59 þúsund krónur, en er nú 50 þúsund (sparar 9 þúsund krónur.)

Með öðrum orðum borga allir, sem á annað borð drógu upp veski, minna en áður. Hjá þeim sem ekkert borga er staðan óbreytt, nema nú eru þeir fimm en ekki fjórir, sem ekkert borga.

Þrátt fyrir það er menn mishressir með þetta allt saman. Sá sjötti kvartar yfir því að hafa einungis sparað sér þúsundkall á meðan sá tíundi er að spara sér heilar níu þúsund krónur. „Hvert er réttlætið í því að sá tíundi fái níu sinnum meiri sparnað úr þessu en ég“, spyr sá sjötti? Sá sjöundi, sem er í svipaðri sömu stöðu og sá sjötti, tekur heilshugar undir þetta. Sá áttundi og níundi flytja líka lærðar ræður um þessa ömurlegu ósanngirni. Þegar fyrstu fjórir benda loks á að þeir hafi nú barasta ekkert fengið út úr þessu og það sé augljóst að kerfið snuðar þá fátæku og púkkar upp á hina ríku, þá ráðast þeir, allir sem einn, á þann tíunda og sýndu honum hvar Davíð keypti ölið.

Næst þegar hópurinn hittist á veitingahúsinu, vantar tíunda manninn. Hinir níu fá sér nú samt sæti og borða eins og venjulega. Þegar reikningurinn berst uppgötva þeir, að þeir eru töluvert langt frá því að að hafa efni á að borga hann.

Í hnotskurn; þegar litið er á krónutölurnar, þá fá þeir mest til baka í skattalækkunum, sem borga mesta skatta hvort eð er. Séu hlutirnir slitnir út úr samhengi, líkt og þessir níu gerðu sig seka um, þá kann svo að fara að sá tíundi, sem borgar langmest, láti sig einfaldlega vanta við borðið næst. Það eru næg önnur borð – og aðrir veitingastaðir – sem myndu taka við honum hvenær sem er.

Í hvert sinn sem skattalækkanir eða álagningarseðla ber á góma, trompast allir vinstri menn, líkt og það komi hinum tekjulágu á einhvern hátt vel að skattar séu ekki lækkaðir eða ráðist sé sérstaklega á þá sem hafa mestu tekjurnar. Svo er vitaskuld ekki. Vinstri menn, sem og reyndar miðju- og hægrimenn, ættu að láta það vera að eyða orku sinni í þá sem eru með góð laun, enda erfitt að sjá hver vandinn er eiginlega.

Þeim væri mun nær að spá í hvað gera megi til að styrkja stöðu þeirra sem hafa lægstu launin, það er að segja athuga hvað gera má til að auka kaupmátt þeirra. Það hefur að minnsta kosti engin áhrif til hins betra fyrir þá tekjulágu, að ráðast með offorsi á þá sem hafa góð laun.

Ein leiðin til að auka kaupmátt hinna tekjulágu – og í raun allra – er að lækka skatta. Lækkun tekjuskattsins hefur mismikil áhrif á skattgreiðendur, en sömuleiðis er hægt að færa virðisaukaskattinn neðar, mun neðar. Alltént er það miklu verðugra verkefni að reyna að jafna prósentuhlutfall mismunandi skattstofna með því að lækka þá sem eru hæstir, frekar en að ráðast í það glapræði að hækka þá sem eru lægstir.

Þetta er hins vegar meinloka allra vinstri manna. Þeir virðast aldrei geta komið auga á að aðra leið en að a) hækka skatta, jafnframt því að b) búa til nýja skatta, sömuleiðis að c) auka alls kyns jaðarskatta og loks þetta sígilda; d) auka lántökur ríkissjóðs. Það er í raun alveg magnað, því allir vinstrimenn landsins hafa horft upp á það nú í vel rúman áratug, að skattar hafa lækkað, kaupmáttur aukist og skuldir ríkissjóðs hraðminnkað með gríðarlegri tekjuaukningu þessa sama ríkissjóðs. Þetta hefur allt gerst fyrir framan augun á þeim. En það eins og eitthvað í heilabúi þeirra geti ekki meðtekið þetta. Auknar tekjur með lækkun skatta…? nei, nei, þetta bara gengur ekki upp frekar ferhyrndur hringur.