Á myndinni sést hvernig reynt er að fjarlægja ígræðsluna úr eyra vitnis Morgunblaðsins í loftslagsmálum. Geimverur höfðu grætt hlutinn í vitnið þegar það var numið brott. |
Eitt af því sem margir virðast taka sem sjálfsögðum hlut eru loftslagsbreytingar af mannavöldum. Margir eru svo sannfærðir um að það sé viðurkennd staðreynd, að hátterni manna valdi stórfelldum breytingum á loftslagi og veðráttu, að þeir halda að það geti ekki verið aðrir en þá fáeinir óupplýstir öfgamenn sem ekki skrifa athugasemdalaust undir kenningarnar. Þegar kemur að pólitískum deilum um önnur efni, þá notfæra sumir sér þessa trú margra til þess að reyna að gera andstæðinga sína ótrúverðuga. „Þessi þarna, hann viðurkennir ekki einu sinni formálalaust að menn valdi loftslagsbreytingum, þið sjáið nú hvernig hann er“, er sagt til sannindamerkis um hvaðeina. Sem dæmi um þetta má nefna grein í Lesbók Morgunblaðsins 15. júní síðastliðinn þar sem sagt var að „hópur íslenskra harðlínumanna“ ásamt Vefþjóðviljanum tæki ekki mark á fréttum um hættur loftslagshlýnunar og legði „umhverfisvernd að jöfnu við sósíalisma“.
Hið rétta er að fáir íslenskir miðlar hafa sinnt fréttum af breytingum á loftslagi jarðar af meira kappi en Vefþjóðviljinn. Fréttir af þessum málum eru hins vegar oft mjög yfirborðskenndar og fjölmiðlum hættir mjög til þess að slá verstu spám vísindamanna upp án allra fyrirvara. Fjölmiðlamönnum þykir mörgum lítið varið í að segja fréttir nema þær séu krassandi og líklega þykir mörgum lesandanum og áhorfandanum heldur ekkert gaman að fréttum um að allt sé í stakasta lagi í veröldinni. Vefþjóðviljinn hefur því leyft sér að segja frá ýmsum hliðum loftslagsumræðunnar sem alla jafna rata ekki í fyrirsagnir fjölmiðla. Loftslagsmálin eru mjög flókið vísindalegt álitaefni og það versta sem getur gerst þegar slík mál eru til umfjöllunar er að til verði „vísindaleg samstaða“ eða „almælt sannindi“ sem enginn má efast um án þess að þurfa að sitja undir einkunnum eins og þeim sem Lesbók Morgunblaðsins gefur mönnum sem reyna að ræða þessi mál. Vefþjóðviljinn hefur því reynt að kynna þá óvissu sem ríkir um þessi mál, hvaða fyrirvara vísindamenn setja við spár sínar, hvaða aðrir þættir en athafnir mannsins geta haft áhrif á loftslagið, hvaða gallar eru á Kyoto samningnum og hvernig hann getur leitt til aukins útblásturs gróðurhúsalofttegunda, hvernig mörg Evrópuríki sem skammast út í Bandaríkin fyrir að skrifa ekki undir Kyoto samninginn munu sjálf svíkja hann, hvort hugsanleg hlýnun muni einnig hafa jákvæð áhrif og síðast en ekki síst hvort það séu ef til vill mikilvægari verkefni sem bíða mannkyns en að takast á við hugsanlegar afleiðingar loftslagsbreytinga.
En þetta undarlega óþol gagnvart þeim sem vilja ræða loftslagsmálin án þess að beygja sig algerlega fyrir hinum „almæltu sannindum“ er ekki aðeins bundið við Lesbók Morgunblaðsins. Reykjavíkurbréf blaðsins hafa um árabil verið mjög eindregin að þessu leyti og nýlega voru allir þeir sem efast um gildi ævintýramyndar Al Gore um loftslagsmálin bara sagðir vera í pólitík. Þessi stefna hefur gengið svo langt að Morgunblaðið kallaði höfunda bókarinnar The Coming Global Superstorm til vitnis um loftslagsmálin og sagði frá skrifum þeirra með mikilli velþóknun í Reykjavíkurbréfi. Annar höfundann, Whitley Strieber að nafni, heldur því fram að hann hafi verið numinn brott af geimverum en geimverurnar hafi skilað sér aftur eftir að hafa grætt lítinn hlut í líkama sinn. Vitni Morgunblaðsins í loftslagsmálum segir að læknar hafi reynt að fjarlægja hlutinn með skurðaðgerð en hluturinn jafnan runnið undan hnífnum. Hinn höfundur bókarinnar sem Morgunblaðið vitnar til um loftslagsmál hefur að vísu ekki fengið far með geimverunum en hann hefur séð um útvarpsþátt um yfirskilvitlega atburði og fljúgandi furðuhluti.
Það má svo kannski ljúka þessari umfjöllum um fréttir af loftslagsmálum með einu dæmi af vinnubrögðum íslenskra fjölmiðla úr bókinni Fjölmiðlum 2005:
Meint gróðurhúsaáhrif af mannavöldum eru líklega mesta stuð sem fjölmiðlar komast í. Nýjasta dæmið eru orðaskipti Sigmundur Ernis Rúnarssonar fréttastjóra og Sigurðar Ragnarsson veðurfræðings í fréttum Stöðvar 2 á mánudaginn var. Þeir ræddu um fellibylinn Katrínu, sem lagði New Orleans í rúst, og Sigmundur spurði: „Eigum við von á fleiri svona hamförum vegna gróðurhúsaáhrifa?“ Sigurður svaraði: „Klárlega, klárlega. Og við erum að sjá þær víða.“ Fáránlegt. En um leið frábært dæmi um hvernig fréttamenn taka afstöðu í umdeildum málum eins og ekkert sé og reka áróður fyrir því að önnur hliðin sé sú eina sem mark er takandi á. Þetta sem þeir Sigmundur og Sigurður gáfu sér er síður en svo óumdeilt , eins og flestir vita sjálfsagt. Í nýjasta tölublaði hins þekkta vísindatímarits Discover er viðtal við William Gray, sem er einn kunnasti og virtasti fellibyljasérfræðingur heims. Gray, sem er 75 ára, segist nú orðið verja mestum tíma sínum við að rannsaka “þessa kenningu um hlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum, sem ég held að sé stórlega ýkt. Blaðamaður Discover spyr hvort Gray trúi því ekki að gróðurhúsaáhrif af mannavöldum séu orsök veðurfarsbreytinga. „Nei. Og ef svo er eru áhrifin svo lítil að þau skipta engu máli.“ Er þetta ekki umdeild afstaða meðal sérfræðinga í fellibyljum? – spyr blaðamaður. „Næstum allir kollegar mínir sem hafa sem hafa 40-50 ára reynslu eru gríðarlega vantrúaðir á þessa gróðurhúsakenningu [„skeptical as hell“]. En við erum ekki spurðir“ Enn er spurt: Verður ekki gróðurhúsaáhrifum kennt um aukna tíðni fellibylja? Gray bendir á að fellibyljum hafi fjölgað á Atlantshafi undanfarin 10 ár eða svo, en á sama tíma hafi þeim fækkað annars staðar. Þetta komi ekki heim og saman við kenningarnar. Auk þess hafi fellibyljum fækkað snarlega á seinni hluta síðustu aldar, þegar útblástur gróðurhúsalofttegunda jókst. Gray hefur skýringu á því hvers vegna margir vísindamenn eru á öðru máli. „Það hafa svo margir hagsmuna að gæta; allar þessar umfangsmiklu rannsóknir eru í húfi. Hugmyndin er að hræða almenning og safna þannig fé til þess að geta haldið áfram að rannsaka. Eftir lok Kalda stríðsins þurftum við nýjan óvin til þess að réttlæta vísindastarf. Hvað er heppilegra sem sameiginlegur óvinur mannkyns en gróðurhúsalofttegundir?“ Gray segist að lokum halda að skoðanir sínar séu ein aðalástæðan fyrir því að hann hætti skyndilega að fá rannsóknarstyrki þegar Al Gore tók við stjórn umhverfismála í Clintonstjórninni. |
Það er mikilvægt að halda slíkum dæmum til haga. Kenningin um loftslagsbreytingar af mannavöldum er hreint ekki óumdeild meðal vísindamanna. Mikill fjöldi vísindamanna efast mjög um hana. Þeir sem ganga út frá henni sem staðreynd geta auðvitað gert það í eigin nafni, en þegar þeir taka að ásaka aðra um öfga og upplýsingaskort fyrir eitt að skrifa ekki undir, þá eru þeir komnir út á hálan ís.
Sem þeir hljóta að telja ótryggan stað. Er ísinn ekki að bráðna?