Helgarsprokið 30. júlí 2006

211. tbl. 10. árg.

F rjáls markaður er góð hugmynd. Á þessu er tönnlast daginn út og inn á síðum þessa blaðs. Stundum eins og það sé þrjúþúsundfjögurhundruðnítugastiogsjötti lestur framhaldssögunnar og stundum, þegar vel tekst til, eins og það sé spánný frétt. Það er ekki hægt að draga neina fjöður yfir það, Vefþjóðviljinn reynir enn af fremsta megni að vera eins ólíkur Þjóðviljanum heitnum og mögulegt er og þarf satt best að segja ekkert að rembast við það.

„Frjáls markaður er góð hugmynd vegna þess að í þeirri hugmynd felst virðing fyrir öðru fólki og kjarninn í þeirri virðingu er viðurkenning á því að annað fólk sé einmitt það: annað fólk.“

Þó að þeirri skoðun hafi verið haldið á lofti frá upphafi útgáfunnar að frjáls markaður væri góð hugmynd þá hefur því aldrei verið haldið fram á þessum síðum að allar hugmyndir á frjálsum markaði væru góðar. Þvert á móti, þá hefur hér verið amast við mörgum hugmyndum sem hafa bæði orðið til og að veruleika á frjálsum markaði. En þrátt fyrir alla smekkleysuna, vitleysuna og helberu leiðindin sem verða til á frjálsum markaði þá breytir það því ekki að hugmyndin er góð. Það er heldur ekki eins og það verði ekki til neinar góðar hugmyndir á frjálsum markaði og sumar þeirra verða jafnvel að veruleika. Unnendur smekkleysunnar, vitleysunnar og leiðindanna virðast bara stundum betur settir, eins og þeir séu sérstakt eftirlæti þessa frjálsa markaðar, eins og þeim sé bara hreinlega betur sinnt.

Þar er komið að kjarna málsins, á frjálsum markaði er fólki gert til geðs og það sem er einum til geðs kann að vera öðrum til ógeðs. Þótt sitthvað sem til verður á frjálsum markaði sé Vefþjóðviljanum þvert um geð þá skal því samt haldið statt og stöðugt fram að frjáls markaður sé góð hugmynd. Í þessu er engin mótsögn, það leiðir ekki af sjálfu sér að gagnrýni á afurðir frjáls markaðar sé um leið gagnrýni á frjálsan markað og kemur þar einkum tvennt til. Frjáls markaður er góð hugmynd vegna þess að í þeirri hugmynd felst virðing fyrir öðru fólki og kjarninn í þeirri virðingu er viðurkenning á því að annað fólk sé einmitt það: annað fólk. Og svo hitt að frjáls markaður er góð hugmynd vegna þess að fólki getur skjátlast. Einmitt þess vegna er látið við það sitja að viðra skoðanir á þessum síðum. Eitt er að hafa skoðun og mæla fyrir henni, annað að þröngva öðrum með valdi til að hafa þessa sömu skoðun eða beygja líf sitt undir hana.

Þessi misskilningur, að það að halda fram skoðun sé um leið krafa um að hún verði leidd í lög er í ætt við annan vinsælan misskilning. Sá misskilningur er eitthvað á þá leið að sé því haldið fram að fullorðnu fólki eigi til dæmis að vera frjálst að neyta eiturlyfja eða stunda vændi, þá sé um leið verið að hvetja til þess sérstaklega að fólk almennt stundi eiturlyfjaneyslu eða vændi af íþrótt. Hvort afbrigði misskilningsins sem er, er svo víðkunn rökvilla að líklegast er að í mörgum tilvikum hafi misskilningurinn ekki orðið til alveg óvart.

Misskilningurinn reynist reyndar furðu drjúgt mælskubragð þótt ódýrt sé. Þar er kannski komin ein skýring þess hve útbreiddur hann er. Önnur skýring gæti verið sú að sumum sé bara alveg fyrirmunað að greina sjálfa sig frá öðrum. Falli þeim sjálfum eitthvað í geð þá hljóti það sama að gilda um alla aðra og sé þeim eitthvað á móti skapi þá hljóti það um leið að vera alheimslögmál. Somerset Maugham lýsti því í Fjötrum að þó allir fengju fullvissu fyrir því í uppvextinum að þeir stæðu einir í eigin kroppi og væru ekki hluti af öðrum þá auðnaðist ekki öllum að greina með sama hætti persónuleika sinn frá öðrum. Lýsing Maughams er reyndar svo sannfærandi og hliðstæður hennar í lífinu svo margar að stundum er erfitt að verjast þessum grun. Þriðja skýringin gæti svo verið sú einhverjum þyki hreinlega svo sjálfsagt að beygja aðra gegn vilja þeirra undir sínar skoðanir að að hinum sama hvarfli ekki að það viðhorf sé ekki algilt þó algengt sé.

Hér verður því haldið áfram að gagnrýna, verja og lofa hitt og þetta sem sprettur úr frjálsum markaði alveg án þess að þeirri gagnrýni, vörn eða lofi fylgi ósýnilegar neðanmálsgreinar sem krefjist þess að öllum almenningi verði það bannað eða hann til þess skyldaður með lögum.