H virfilbyljir eru oft í fréttum vegna þeirrar eyðileggingar sem þeir valda víða um heim og fréttunum fylgir gjarnan staðhæfing um að þetta ofsaveður sé algengara nú en áður var vegna hækkandi hitastigs jarðar. Í grein í nýju tölublaði vísindatímaritsins Science er fjallað um rannsóknir á mælingum á hvirfilbyljum sem sýna að staðhæfingar af þessu tagi er í besta falli erfitt að standa við. Rannsakendurnir eru Christopher W. Landsea hjá Bandarísku fellibyljamiðstöðinni og þrír aðrir sérfræðingar í þessum efnum, frá Bandaríkjunum, Frakklandi og Ástralíu. Í stuttu máli er niðurstaða þeirra sú, að með breyttri og bættri tækni og mælingum mælist nú mun fleiri ofsafengnir fellibyljir en áður, þ.e. þeir sem eru af gerðinni 4 eða 5 eins og það er kallað.
Í nýrri grein í Science eru færð rök fyrir því að líklega sé skýringarinnar á því að fellibyljir mælist sterkari nú en áður frekar að leita í bættri tækni en meiri vindhraða. |
Nokkur dæmi um mælingaskekkjur eru nefnd í greininni í Science, til dæmis af fellibylnum Hugo á Atlantshafi árið 1989 sem hafi verið mældur með tveimur aðferðum, eldri og nýrri. Niðurstöðurnar hafi verið afar ólíkar, annars vegar 59 m/s og hins vegar 72 m/s. Að sögn höfundanna var þess háttar vanmat líklega „afar algengt á áttunda og níunda áratugnum“. Gögn um fellibylji séu af tæknilegum ástæðum líkleg til að hafa innbyggðar skekkjur sem sýni sterkari fellibylji eftir því sem nær dregur í tíma.
Höfundarnir sýna líka nokkrar myndir af hvirfilbyljum í Norður-Indlandshafi frá árunum 1977 til 1989 sem hafi verið metnir af gerðinni 3, en hafi líklega í raun verið af gerðinni 4 eða 5. Þá hafi styrkur Bangladesh-hvirfilbylsins árið 1970, sem sé sá hvirfilbylur í sögunni sem hafi valdið mestu manntjóni, en 300-500.000 manns hafi farist af hans völdum, ekki einu sinni verið metinn. Höfundarnir segja að ef stormar af þessu tagi væru teknir með í gögnum yfir ofsafengna hitabeltis hvirfilbylji yrði fjöldi þeirra á áttunda og níunda áratugnum sambærilegur við það sem hann hefur verið á síðustu fimmtán árum. Og þeir halda áfram og segja að þessi dæmi séu líklega ekki einstakar undantekningar, því að mikill fjöldi sambærilegra dæma sé til annars staðar í heiminum. „Gögn yfir hitabeltis hvirfilbylji frá því fyrir 1990 fyrir öll svæði eru full af mikilli óvissu, eyðum og skekkjum. Greining á þróun styrks ofsafenginna hitabeltis hvirfilbylja er óáreiðanleg vegna breyttra aðferða sem hefur leitt til þess að skráðir hafa verið öflugri hitabeltis hvirfilbyljir en áður. Þetta vekur upp mjög alvarlegar spurningar um tengingu við hlýnun jarðar,“ segir í greininni í Science.