E inn helsti blaðamaður Fréttablaðsins og fréttaritstjóri þess var í gær ráðinn ritstjóri Blaðsins. Sjónvarpsfréttastofa útgáfufélags Fréttablaðsins analýseraði atburðinn með eftirfarandi hætti og af algeru hlutleysi: „Ljóst er að samkeppni á fríblaðsmarkaðnum mun harðna mjög með komu Sigurjóns á Blaðið, sem er að hluta til í eigu Morgunblaðsins. Sigurjón er bróðir Gunnars Smára Egilssonar, forstjóra Dagsbrúnar en Dagsbrún er eigandi 365 fjölmiðla.“
Það er sem sagt „ljóst“ að mati fréttastofu 365 fjölmiðla að samkeppni muni aukast við að bróðir forstjóra fjölmiðlasamsteypunnar ritstýri blaði helsta samkeppnisaðilans til þessa. Líklega er eina leiðin til að auka samkeppnina á dagblaðamarkaði enn frekar að forstjórinn taki sjálfur við ritstjórn Morgunblaðsins.
Í miðri umræðunni um frestun opinberra framkvæmda – sem allir hlutaðeigandi berjast nú við að sverja af sér – berast fréttir af því að tilboð í áætlunarflug hafi verið opnuð í gær. Tilboðin ganga út á að flugfélög bjóðast til að fljúga tilteknar flugleiðir gegn greiðslu frá ríkinu. Þar er um að ræða flug til Sauðárkróks, Hornafjarðar, Bíldudals, Gjögurs, Grímseyjar og fleiri áfangastaða á landsbyggðinni.
Nú er að sumu leyti skiljanlegt að einhverjir íbúar landsins vilji láta aðra íbúa þess greiða fyrir sig hluta af ferðakostnaði sínum heim og að heiman. Það breytir því þó ekki að vandséð er hvernig hægt er að réttlæta það að taka fé af einum manni og afhenda öðrum til að hann geti ferðast með ódýrari eða þægilegri hætti en ella. En vandinn er ef til vill sá að þeir sem taka ákvarðanir um að taka fé af einum til að gefa öðrum eru sjaldnast beðnir um að réttlæta aðgerðir sínar. Fjölmiðlamönnum virðist þykja sjálfsagt að stjórnmálamenn gangi fram með þessum hætti. Ef ætlunin er að skera niður – þá sjaldan það gerist – fer gamanið hins vegar að kárna. Þá fá stjórnmálamenn yfir sig spurningar ábúðarfullra fréttamanna um öll þau vandamál sem sögð eru skapast af því að hægja á sókninni í vasa skattgreiðenda. Þannig væri vafalaust gengið hart á samgönguráðherra ef hann mundi ákveða að hætta að niðurgreiða innanlandsflug, en það mun enginn fréttamaður sauma fast að honum fyrir að halda niðurgreiðslunum áfram.