F
Eftir samkomulag ASÍ og ríkisstjórnar um skattahækkanir og aukin ríkisútgjöld hafa efnahagshorfur versnað mjög. |
yrir nokkrum vikum taldi Seðlabanki Íslands að hann gæti náð verðbólgumarkmiðum sínum á næsta ári. Í gær hækkaði bankinn vexti hins vegar hressilega og spáir því nú í Peningamálum sínum að verðbólgan verði meiri og haldist lengur há en gert var ráð fyrir í spá bankans frá því í maí. Seðlabankinn segir nú að verðbólgumarkmið hans náist vart fyrr en við lok spátímabilsins. Verðbólgan í lok þessa árs og í byrjun þess næsta verður í tveggja stafa tölu að mati Seðlabankans.
Horfurnar hafa með öðrum orðum versnað mjög á síðustu vikum. Það sem helst hefur gerst frá því í maí er að ASÍ og ríkisstjórnin gripu til samræmdra aðgerða til að „liðka fyrir kjarasamningum“ sem betur hefðu aldrei verið gerðir. Aðgerðingar voru þær helstar að draga skattalækkanir til baka og auka ríkisútgjöld til mála sem eru ASÍ hugleikin, eins og barna- og vaxtabóta og fræðslustarfs á vegum ASÍ. Rúsínan í pylsuendanum var svo kölluð „aðhald í ríkisfjármálum“ sem virðist helst felast í því að fresta útboðum um nokkra mánuði. Ríkisstjórnin var alveg á nálum við að útskýra, undirstrika, árétta og endurtaka að aðeins væri verið að fresta nokkrum útboðum í smástund en alls ekki hætta við neitt. Ríkisstjórnin sagði hins vegar ekkert slíkt um skattana sem hún hætti við að lækka. Sú ákvörðun virðist varanleg enda eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins og ungliðahreyfingin flokksins í sumarfríi frá hugsjónum sínum.
Niðurstaðan er því sú að eftir skattahækkanir, aukin ríkisútgjöld og hinar ótrúverðugu frestanir útboða hefur útlitið í efnahagsmálum versnað mjög að mati Seðlabankans. Ríkisstjórnin og ASÍ fá falleinkunn með nýjustu Peningamálum Seðlabankans. Er nokkuð annað hægt að segja?
Vandinn er að ríkisstjórnin virðist engar raunverulegar tilraunir ætla að gera sparnaðar og aðhalds í ríkisfjármálum. Þó veltur hagur landsmanna mjög á því að hin glórulausa aukning ríkisútgjalda undanfarin ár verði stöðvuð. Ríkisútgjöldin hafa aukist um tæpa 100 milljarða króna frá árinu 1998. Ríkisútgjöldin fóru úr 230 milljörðum 1998 í 324 milljarða í fyrra, báðar tölur á verðlagi ársins 2005. Ríkissjóður er 41% dýrari í rekstri nú en árið 1998. Engu að síður ætlar ríkisstjórnin ekki aðeins að auka útgjöld til barna- og vaxtabóta, að ógleymdum glænýjum tekjutengdum atvinnuleysisbótum, heldur ætlar hún að hækka skatta til að auka eyðslufé ríkissjóðs. Hvað halda menn að verði um það fé sem ríkið nær þannig í aukalega með því að hætta við skattalækkanir?
Hvað ætli stjórnmálamönnunum detti helst í hug á kosningaárinu sem er framundan?