Fimmtudagur 6. júlí 2006

187. tbl. 10. árg.

Frá því segir í Blaðinu í gær að í yngri útgáfum af verkum hins vinsæla rithöfundar, Enid Blyton, beri svo við að breytingar séu gerðar á textanum frá því hún skildi við hann. Allt sé það gert í anda rétttrúnaðar nútímans, blökkustúlka sé nú hvít, þess sé gætt að strákar í sögunum sinni eldhússtörfum og þannig mætti áfram telja. Virðist af frásögninni sem bækur Blyton séu nú endurskrifaðar á einhverjum álíka stað og hinni nýju og herbergjalausu ritstjórn Morgunblaðsins, sem verður eitt svakalegasta musteri pólitísks rétttrúnaðar áður en langt um líður. En með þessu er nútímanum rétt lýst. Það er sífellt verið að eltast við rétttrúnaðinn og má næstum einu gilda hvert er litið.

Hvaða furðulega tilviljun halda menn kannski að ráði því að þrjátíu manna framboðslistar stærstu flokka í Reykjavík séu skipaðir alveg nákvæmlega fimmtán konum og fimmtán körlum? Og sumir flokkar séu meira að segja farnir að breyta prófkjörsniðurstöðum til þess að ná „réttum“ hlutföllum. Hvaða afl stendur fyrir sífelldum sjónvarpssendingum frá kvennaknattspyrnu? Af hverju ætli Sjálfstæðisflokkurinn hafi undirritað auglýsingar sínar í vor sem „sjálfstæðisfólk“? Af hverju ætli vinstri grænir séu farnir að kalla sig vinstri græn? Og fyrst það er nefnt, má þá spyrja: vinstri græn hvað? Nú er „stuðningsmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs“ heldur óþjált tegundarheiti og skiljanlegt að stuðningsmennirnir séu til styttingar kallaðir „vinstrigrænir“. En til hvaða hvorugkynsorðs vísa þessi „vinstri græn“? Ef átt er við „fólk“ eins og nú er vinsælt, af hverju er þá ekki bara sagt „vinstrigrænt“?

En svona er tíðin. James Bond er hættur að reykja. Nýlega voru frönsk dagblöð sektuð fyrir að birta mynd af kappakstursmanni án þess að breyta myndunum með því að eyða tóbaksauglýsingum af búningi hans. Dagmæður eru hættar störfum en við teknir dagforeldrar. Af því að það eru komnir þrír karlmenn í stéttina eða eitthvað. Meira að segja saklaust dægurlag, sungið einu sinni á ári, fær ekki að vera í friði. Svo eru nú nafnbreytingarnar á fyrirtækjum og stofnunum. Þær eru nú svo sem ekki alltaf komnar til út af pólitískum rétttrúnaði en geta verið leiðinlegar allt að einu. Stýrimannaskólinn mátti ekki heita stýrimannaskóli lengur því þar er fleira kennt og þess vegna heitir hann nú því heillandi nafni Fjöltækniskólinn. Sennilega á eftir að koma að því að Kvennaskólinn í Reykjavík fær ekki að heita það lengur. Ætli það strandi ekki bara á því að þá vanti í staðinn orð sem er nógu flatt án þess að vera Ungmenna- nokkuð, því það minnir á þjóðlega ungmennahreyfingu sem er auðvitað gamaldags, og ekki Unglinga-neitt, því það minnir á unglingafangelsi og það er harðneskja og þar með slæmt. Þegar orðið finnst þá verður Kvennaskólanum breytt. Þar eru nefnilega ekki lengur eingöngu konur – eins og það væri nú sjarmerandi.

Morgunblaðið hefur nú tilkynnt að á næstu misserum verði sérstaklega hugað að því að fjölga konum í áhrifastöðum á blaðinu. Það eru skemmtileg skilaboð, bæði til þeirra kvenna sem verða hækkaðar í tign á næstu árum – því þá þarf enginn að velkjast í vafa um raunverulega ástæðu frama þeirra – sem og þeirra karlmanna sem enn starfa á blaðinu.