Í dag tekur nýr maður við starfi borgarstjóra í Reykjavík og nýr meirihluti sest að völdum. Óhætt er að segja að það sé nokkurt fagnaðarefni, því þó að stefnuskrár meirihlutaflokkanna nýju hafi við síðustu borgarstjórnarkosningar verið svona og svona, þá hljóta líkur að vera á því að nýi meirihlutinn standi betur að málum en R-listinn gerði. Vissulega þarf ekki sérlega mikið til, því R-listanum fórst einstaklega illa úr hendi að stýra borginni og breytir litlu hvar borið er niður. Þrátt fyrir að meginhluta af valdatíma R-listans hafi almennt góðæri ríkt í landinu með verulegum launahækkunum almennings og þar með vaxandi skatttekjum borgarinnar og minnkandi þörf fyrir félagslega aðstoð, tókst borgaryfirvöldum að safna og safna skuldum og það meira að segja þrátt fyrir að hafa hækkað útsvarið í hæstu leyfileg mörk og þrátt fyrir að hafa sótt sér aukapening í vasa borgarbúa með uppfinningu sinni, holræsagjaldinu. Í samfelldu góðæri hækka borgaryfirvöld bæði skatta og skuldir og er það vissulega merkilegur árangur. Og þá ekki síður þegar á hann er horft í samanburði við ríkið sjálft sem hefur lækkað skatta og greitt opinberar skuldir niður.
Á síðasta ári skrifaði Magnús Þór Gylfason grein í tímaritið Þjóðmál þar sem hann fór yfir afrekaskrá R-listans. Um fjármál borgarinnar sagði Magnús meðal annars:
Hreinar skuldir Reykjavíkurborgar hafa vaxið gríðarlega undir stjórn R-listans eða úr 4 milljörðum króna við lok árs 1993 í 65 milljarða við lok þessa árs samkvæmt nýjustu áætlunum. Samkvæmt áætlunum stefna skuldir Reykjavíkurborgar í að verða 77 milljarðar við lok árs 2008. R-listinn hefur svarað því til að skuldir borgarsjóðs eða A-hluta, séu nú lægri en þær voru árið 1994. Þetta bókhaldslega atriði er rétt en það skýrist af því að fjárhagsstaða borgarsjóðs hefur í tíð R-listans verið fegruð með ýmsum millifærslum og hærri arðgreiðslum úr sjóðum Orkuveitu Reykjavíkur, sem hefur verið skuldsett á móti. Árið 1997 var stofnað sérstakt fyrirtæki utan um rekstur félagslegra leiguíbúða, Félagsbústaðir ehf., og þannig voru skuldir vegna þeirra færðar úr A-hluta yfir í B-hluta. Við stofnun Orkuveitu Reykjavíkur árið 1999 voru greiddir um 4 milljarðar í borgarsjóð sem lækkaði skuldirnar um samsvarandi fjárhæð. Heildarskuldir borgarsjóðs hafa nú hækkað á hverju ári frá árinu 2001 þrátt fyrir áætlanir og spár um að þær eigi að lækka. Hafa ber í huga að þessi skuldaaukning hefur orðið í mesta góðæri Íslandssögunnar. Síðasta kjörtímabilið áður en R-listinn tók við árið 1994 jukust skuldir Reykjavíkurborgar vegna efnahagskreppu á þeim tíma, ráðist var í átaksverkefni vegna atvinnuleysis og skatttekjur borgarinnar drógust saman milli áranna 1992 og 1993. Samt sem áður voru skuldir Reykjavíkurborgar aðeins 4 milljarðar við lok árs 1993 þrátt fyrir fjárfestingar við Nesjavallavirkjun, byggingu Ráðhúss og Perlunnar. |
Margt fleira kemur fram í grein Magnúsar Þórs og ástæða er til að halda til haga, þrátt fyrir að R-listinn sé loks farinn veg allrar veraldar. Það er full ástæða til þess að fólk muni hvernig vinstristjórn reynist í borgarstjórn, ekki síst þegar stærra og stærra hlutfall kjósenda við alþingiskosningar hefur ekki reynslu af fyrirbærinu og getur jafnvel farið með tímanum að trúa því að komið geti til mála að reyna vinstristjórn í landsmálum. Í Þjóðmála-grein sinni – en umrætt 1. hefti Þjóðmála fæst vitanlega í Bóksölu Andríkis – segir Magnús Þór Gylfason meðal annars og mætti vel vera hinsta kveðja til R-listans:
„Samkvæmt ársreikningum fyrir árið 2004 var Reykjavíkurborg eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem tókst ekki að skila jákvæðri rekstrarniðurstöðu svokallaðs A-hluta. Borgarsjóður var rekinn með tapi sem nemur rúmum 27 þúsund krónum á hvern íbúa (fyrir fjármunatekjur og fjármagnsgjöld) en önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sýndu hagnað upp á allt að 67 þúsund krónur á hvern íbúa.“
„Ráðist var í ævintýralegan fjarskiptarekstur á vegum Orkuveitu Reykjavíkur sem aldrei skilaði hagnaði. Samanlögð framlög til fyrirtækja eins og Línu.nets, Tetra-Íslands og Rafmagnslínu nema rúmum 4,6 milljörðum króna á árunum 1999 til 2004 en upphaflega átti aðeins að leggja 200 milljónir króna í reksturinn, gera félagið að almenningshlutafélagi og setja á markað ekki síðar en árið 2001. Í ársbyrjun 2005 var farið fram á að gerð yrði úttekt á rekstri fjarskiptafyrirtækja Orkuveitunnar frá árinu 1998 og mat lagt á arðsemi fjárfestinganna. Fulltrúar R-listans treystu sér ekki í þá úttekt.“ „Eitt helsta kosningaloforð R-listans var að fullnægja eftirspurn eftir leikskólavistun. Ef satt væri sem R-listinn heldur fram að Reykjavíkurborg sé fyrsta flokks þjónustuborg fyrir börn og fjölskyldur ætti fjölskyldu- og barnafólk að flykkjast til borgarinnar í leit að betri þjónustu. Svo er ekki. Enn og aftur er hægt að líta yfir farinn veg og skoða þróunina yfir hið langa tímabil sem R-listinn hefur verið við völd. Á tímabilinu 1994 til 2004 hefur börnum að sex ára aldri fækkað um 582 í Reykjavík en á sama tímabili hefur þeim fjölgað um 546 í Kópavogi. Vegna þessa hefur Reykjavíkurborg getað sparað sér byggingu nokkurra leikskóla en þessi fækkun hefur hins vegar ekki gert R-listanum enn kleift að tæma biðlista eftir leikskólaplássum í borginni þrátt fyrir loforð þess efnis fyrir hverjar kosningar.“ „[Á] tímabilinu 1994 til 2004 hefur fólksfjölgun í Reykjavík ekki haldið í við landsmeðaltal. Árið 1994 voru Reykvíkingar 38,80 % Íslendinga en árið 2004 hafði hlutfall þeirra lækkað í 38,77 %. Þetta gerist á sama tíma og fólk flykkist til höfuðborgarsvæðisins.“ „Árið 1994 voru Reykvíkingar 67 % af íbúum höfuðborgarsvæðisins en en hlutfallið var komið niður í 62 % árið 2004.“ „Á árunum 1995 til 2003 var að meðaltali úthlutað lóðum fyrir um 380 íbúðir árlega. Á jafnlöngu tímabili árin 1983 til 1991 þegar sjálfstæðismenn fóru með stjórn borgarinnar var að meðaltali úthlutað lóðum fyrir um 470 íbúðir árlega. Á tímabilinu 1995 til 2002 voru að meðaltali rúmlega 500 íbúðir fullgerðar í Reykjavík. Á jafnmörgum árum í meirihlutatíð sjálfstæðismanna, árin 1987 til 1994, voru fullgerðar íbúðir í borginni að meðaltali tæplega 700 árlega, eða 40 % fleiri“. |
R-listinn ákvað að bjóða ekki fram við síðustu kosningar.