Íbúðalánasjóður greinir frá því í nýjustu mánaðarskýrslu sinni að íbúðarhúsnæði sé mjög mikilvægur þáttur í lífi fólks. Ætli samsvarandi niðurstöður sé að finna í skýrslum annarra ríkisstofnana? Gefur manneldisráð út skýrslu þar sem stofnunin kemst að þeirri niðurstöðu að matur sé mikilvægur þáttur í lífi fólks? Eða Seðlabankinn, gefur hann út mánaðarskýrslu þar sem segir að svo virðist sem enn einn mánuðinn spili peningar verulega rullu hjá mörgum?
Maí færði Íbúðalánasjóði aðra opinberun: Vegna þess að íbúðarhúsnæði er fólki mikilvægt, þá er mikilvægt að fólk geti fengið lánað fyrir íbúðarhúsnæði.
Og enn aðra opinberun: Vegna þess að íbúðarhúsnæði er mikilvægt og íbúðalán eru mikilvæg þá er Íbúðalánasjóður mikilvægur því ef hans nyti ekki við þá yrði nefnilega markaðsbrestur.
Þeir sem skrifa mánaðarskýrslur Íbúðalánasjóðs trúa sem sagt því að það fé sem sjóðurinn lánar til íbúðakaupa sé geymt í skáp í kjallara Íbúðalánasjóðs og ef enginn væri íbúðalánasjóðurinn þá væri heldur enginn kjallarinn og ef enginn væri kjallarinn þá væri enginn skápurinn og ef enginn væri skápurinn þá væru heldur engir peningar.
Þess vegna höfum við Íbúðalánasjóð, altso svo það séu til peningar.
Út af þessum opinberunum sínum leggja svo mánaðarskýrsluhöfundar og segja að bankar og sparisjóðir sem boðið hafa íbúðalán undanfarna tuttugu mánuði séu núna að draga saman seglin svona eins og til að renna frekari stoðum undir kenninguna um markaðsbrestinn. Auk þess er klykkt út með að segja að þessir sömu bankar og sparisjóðir hafi flýtt sér um of og lánakjör þeirra hafi einkennst af skammtímahagsmunum.
Auðvitað eru bankar og sparisjóðir að draga saman seglin. Eftir tuttugu mánaða keppni hafa skilyrði versnað til útlána. Vextir hafa hækkað og fasteignaverð hækkar hægar. Þess vegna hafa bankarnir lækkað lánshlutfallið. Og eftir tuttugu mánaða keppni er líka fullreynt að einn keppendanna, Íbúðalánasjóður, verður alltaf undanþeginn lyfjaprófum. Meðan allir hinir verða að pissa í glas þá hleypur Íbúðalánasjóður áfram með ríkisábyrgðina í blóðinu.
Ef hægt er að tala um markaðsbrest í íbúðalánum þá er það Íbúðalánasjóðurinn sjálfur. Það keppir enginn til lengdar við þann sem þarf ekki að fara eftir reglunum.