R íkisendurskoðun telur engin rök mæla með því að fela einkaaðilum fremur en ríkinu gerð og rekstur Sundabrautar, að því er fram kom á vef Morgunblaðsins um daginn. Ástæðan mun vera sú að óvissa og kostnaður verksins séu lítil miðað við kosti þess. Nú má út af fyrir sig ræða þessar röksemdir í þaula, en hér skal látið nægja að benda á að vissulega er mikil áhætta fólgin í öllum slíkum verkum, bæði hvað snertir kostnað og mögulegar tekjur, að minnsta kosti ef tekjur reiknast sem hlutfall af umferð en eru ekki einfaldlega teknar úr ríkissjóði án tillits til notkunar vegarins. En mergurinn málsins er einmitt sá að æskilegt er að vegalagning ráðist af væntanlegri notkun vega en ekki einhverjum öðrum og sérkennilegri sjónarmiðum, svo sem einhverri hreppapólitík eins og oft er.
Sú hugsun er skrýtin að allir sem fara úr einu þéttbýli í annað verði jafnan að ferðast á vegum ríkisins. Það er sérkennilegt að ekki sé boðið upp á þann kost að einkaaðilar leggi einfaldlega vegi og rukki vegfarendur fyrir notkunina í stað þess að einhverjir allt aðrir séu látnir borga. Hvernig má það vera að sjálfsagt þyki að þeir sem nota tiltekinn veg greiði ekki endilega neitt meira fyrir notkunina en hinir sem aldrei fara um veginn?
En það þarf líklega ekkert að koma á óvart að Ríkisendurskoðun telji sjálfsagt að Vegagerð ríkisins sjái frekar um vegalagningu en að einkafyrirtæki taki það að sér. Ætli það væri ekki frekar saga til næsta bæjar ef Ríkisendurskoðun teldi að ríkið ætti að hætta starfsemi sinni á þeim sviðum þar sem einkaaðilar geta vel tekið við? Vera kann – en um það er vitaskuld ekkert hægt að fullyrða – að starfsmenn Ríkisendurskoðunar hafi velt því fyrir sér þegar þeir tóku saman skýrsluna um Sundabraut, að ef einkaaðilar þykja ekki síðri vegagerðarmenn en Vegagerð ríkisins, að þá þyki þeir ef til vill ekki síðri endurskoðendur en Ríkisendurskoðun. Og vissulega er það svo að engin sérstök þörf er á að ríkið reki sérstaka endurskoðunarskrifstofu sem sér um skýrslugerð og alls kyns úttektir í samkeppni við einkaaðila. Ekkert bendir til að starfsmenn Ríkisendurskoðunar séu betur til þess fallnir en starfsmenn einkafyrirtækja að endurskoða, skrifa skýrslur, gera úttektir eða annað sem stofnunin sinnir. Það væri þess vegna ráð, um leið og einkaaðilum yrði leyft að leggja Sundabraut á eigin kostnað og veitt heimild til að rukka vegfarendur fyrir notkunina, að Ríkisendurskoðun yrði lögð niður og einkaaðilum falin þau verkefni stofnunarinnar sem nauðsynlegt er talið að vinna.