E ins og fram hefur komið var frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingu á tóbaksvarnarlögum samþykkt á Alþingi á föstudaginn, á næstsíðasta degi þingsins. Stóra breytingin, sem varð á lögunum með samþykkt frumvarpsins, er að frá miðju næsta ári verða reykingar með öllu óheimilar á veitinga- og skemmtistöðum. Með þessu hefur pólitísk rétthugsun og forræðishyggja unnið enn einn sigurinn á Alþingi Íslendinga.
„Vefþjóðviljinn metur það svo, að þeir þingmenn sem greiddu atkvæði gegn tjáningarfrelsinu á föstudaginn skuldi kjósendum í landinu skýringar á afstöðu sinni.“ |
Stuðningsmenn frumvarpsins rökstuddu hið fortakslausa bann með þeim rökum, að það væri nauðsynlegt til að vernda starfsmenn veitinga- og skemmtistaða fyrir skaðlegum áhrifum tóbaksreyks. Við fyrstu umræðu um málið fyrr í vetur lögðust þrír þingmenn gegn því, þeir Sigurður Kári Kristjánsson, Birgir Ármannsson og Björgvin G. Sigurðsson. Fram kom í máli þeirra að þeir teldu að alltof langt væri gengið í frumvarpinu í skerðingu athafnafrelsis og eignarréttar og að ekki hefði verið sýnt fram á að fortakslaust bann af þessu tagi væri nauðsynlegt til að vernda starfsfólk að þessu leyti. Þrátt fyrir þessi rök var málið afgreitt úr heilbrigðis- og trygginganefnd þingsins nær óbreytt, skömmu fyrir þinglok, og var meðal þeirra mála, sem lögð var áhersla á að klára nú á lokadögum þingsins.
Við aðra umræðu um málið á föstudaginn komu fram sömu sjónarmið og í fyrstu umræðu og í atkvæðagreiðslum að umræðunni lokinni fengu þingmenn tækifæri til að sýna afstöðu sína til frelsis og sjálfsákvörðunarréttar borgaranna í atkvæðagreiðslum um tvær breytingartillögur. Þannig lagði Birgir Ármannsson fram tillögu um að veitinga- og skemmtistöðum yrði heimilað að bjóða upp á sérstök reykherbergi eða afmörkuð, lokuð rými, þar sem gestir gætu reykt án þess að trufla aðra. Á þessum svæðum væri óheimilt að afgreiða eða bera fram veitingar, þannig að ekki yrði lagt á starfsmenn að vinna í reykmettuðu rými. Lagði Birgir áherslu á að með þessari leið, sem farin hefur verið í ýmsum löndum, t.d. Svíþjóð, væri verið að sætta sjónarmið í málinu í anda meðalhófs. Þannig mætti með þessum hætti tryggja hagsmuni starfsmanna staðanna án þess að ganga lengra í takmörkunum reykinga en nauðsynlegt væri. Meðflutningsmenn Birgis að tillögunni voru þeir Sigurður Kári Kristjánsson, Bjarni Benediktsson og Björgvin G. Sigurðsson. Svo fór að tillagan var felld með 29 atkvæðum gegn 12, en þeir sem studdu þessa leið voru, auk flutningsmannanna Birgis, Bjarna og Björgvins (Sigurður Kári var erlendis): Birkir Jón Jónsson, Framsóknarflokki, sjálfstæðismennirnir Guðjón Guðmundsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Pétur H. Blöndal, samfylkingarmennirnir Jón Gunnarsson og Lúðvík Bergvinsson og loks allir þingmenn Frjálslynda flokksins, þeir Guðjón A. Kristjánsson, Magnús Þór Hafsteinsson og Sigurjón Þórðarson. Stuðningsmenn frjálslyndra sjónarmiða hljóta að veita því athygli hvaða þingmenn voru í þessum hópi og jafnframt hverjir greiddu atkvæði með forræðishyggjunni í málinu, en rétt er að geta þess að meðal fjarstaddra þingmanna á föstudaginn er sennilega að finna fleiri en einn og fleiri en tvo frjálshuga einstaklinga. Fjarstaddir verða því að njóta vafans.
Þingmenn fengu líka á föstudaginn annað tækifæri til að sýna afstöðu sína til einstaklingsfrelsis, en það var í atkvæðagreiðslu um breytingartillögu Péturs H. Blöndals við tóbaksvarnarlögin. Pétur lagði til að úr lögunum yrði fellt ákvæði þar sem er að finna fortakslaust bann við því að nefna nafn einstakra tóbakstegunda í fjölmiðlaumfjöllun, en því hefur oftar en einu sinni verið haldið fram hér í Vefþjóðviljanum að þetta bann brjóti ótvírætt í bága við tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Nú bjuggust flestir við að stuðningsmenn tjáningarfrelsis á þingi væru eitthvað fleiri en stuðningsmenn fyrri tillögunnar, en svo var ekki. Tillaga Péturs fékk einungis átta atkvæði, en þeir sem studdu hana voru, auk flutningsmanns: Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Björgvin G. Sigurðsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Jón Gunnarsson, Lúðvík Bergvinsson og Mörður Árnason, sem í þessu máli bættist óvænt í hóp áhugamanna um einstaklingsfrelsi. Vefþjóðviljinn metur það svo, að þeir þingmenn sem greiddu atkvæði gegn tjáningarfrelsinu á föstudaginn skuldi kjósendum í landinu skýringar á afstöðu sinni. Þeir sem voru fjarverandi við atkvæðagreiðslurnar þurfa líka að hafa dálítið góðar fjarvistarsannanir. Ýmsir voru auðvitað í útlöndum eins og gengur, og er ekki hægt að skamma þá fyrir að láta sig vanta við atkvæðagreiðslurnar, en spurningin hlýtur að vera hverjir voru á kaffistofu þingsins, salerninu eða í símanum, einmitt á þeim augnablikum þegar reyndi á afstöðu þeirra til grundvallarfrelsis borgaranna.