H vernig er hægt að klúðra sinni eigin afsögn?
Sennilega er það áhugaverðasta spurningin eftir axarsköft síðustu daga, þar sem svo virðist sem enginn viðkomandi sé með fullu viti. Eftir meira en áratug af samstöðu í ríkisstjórn sem náð hefur ótal stjórnmálamarkmiðum í framkvæmd, þingmenn stjórnarinnar hinir samvinnufúsustu með örfáum undantekningum, aðkallandi vandamál ekki meiri en gerist og gengur – þá rennur forsætisráðherra, sem hafði lagt talsvert á sig að komast í þann stól, á afturendann og fer að muldra í trúnaði við einhverja menn um flótta sinn. Muldur sem lekur svo út hraðar en nokkur ræður við.
Og afsögnin var hugsuð til þess að koma á stað fléttu sem myndi enda með því að tiltekinn maður, sem margir samflokksmenn forsætisráðherrans hafa mikla trú á, settist í formannsstól og tæki að leiða flokkinn í gegnum öldusjó sem menn töldu sér búinn. En svo reynast viðtökur þannig að ekki tekst að munstra þennan mann í starfið fyrirhafnarlaust. En þá er eins og forsætisráðherrann muni ekki lengur hver var tilgangur afsagnarinnar og segist samt ætla að hætta. Svo rifjast það upp fyrir honum og þá bætir hann því við að hann verði áfram formaður og þingmaður. En hættir sem ráðherra. Eftir stendur þá annar ríkisstjórnarflokkurinn með formann sinn utan stjórnar! Hver fer þá fyrir Framsóknarflokknum í ríkisstjórn? Er það formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson alþingismaður? Eða varaformaður Framsóknarflokksins, Guðni Ágústsson ráðherra, sem nýtur slíks trausts að formaður Framsóknarflokksins bindur afsögn sína skilyrðum um að Guðni verði ekki formaður?
Látum nú vera að formaður Framsóknarflokksins ákveði að hætta í stjórnmálum. Hann hlýtur vitaskuld að hafa sama rétt til þess og aðrir. En hvers vegna í ósköpunum ætlar maðurinn ekki að láta af ráðherradómi og formennsku á sama tíma? Þegar lögmætar ástæður eins og slys koma ekki til, þá hlýtur það að vera skylda flokksformanns að fara fyrir sínum flokki svo lengi sem hann gegnir formannsembættinu. Enginn láði Steingrími Sigfússyni að taka sér frí frá þingmennsku eftir umferðarslys í vetur. Það eru engar slíkar ástæður sem Halldór Ásgrímsson ber fyrir sig. Hann ætlar bara að bjóða fólki upp á það að hvorki formaður né neinn annar óskoraður leiðtogi annars stjórnarflokksins sitji í ríkisstjórn. Halldór Ásgrímsson á tvo kosti. Ef hann ákveður að láta af ráðherraembætti sínu áður en flokksþing Framsóknarflokksins fer fram, þá á hann að láta þegar í stað af formennsku og sjá þannig til að formaður flokksins fari fyrir honum í ríkisstjórn. Ef hann vill hins vegar ljúka formannssetu á flokksþingi, þá gerir hann auðvitað skyldu sína og situr sem ráðherra fram að því. Miðað við fréttir gærdagsins ætlar Halldór að taka fyrri kostinn og láta af forsætisráðherraembætti innan skamms. Allt í góðu, en þá á líka einhver annar maður að taka við sem formaður Framsóknarflokksins. Það er hins vegar ekkert að því að Halldór sitji áfram á þingi út kjörtímabil sitt.
Það er svo tilhlökkunarefni að stjórnarforysta komist í styrkari hendur. Þegar meira að segja afsögnin verður að veseni, þá er sennilega tími kominn til að leyfa öðrum að spreyta sig.