Mánudagur 15. maí 2006

135. tbl. 10. árg.

Ó hætt virðist að slá því föstu að Dagur B. Eggertsson hafi vaxið af verkum sínum í kosningabaráttunni. Að minnsta kosti verður ekki annað ráðið af myndunum sem Samfylkingin er farin að senda út af honum á síðustu dögum baráttunnar. Þar sem að Stefán Jón Hafstein hefur hingað til þótt vera í lengra lagi, þá benda nýjustu myndir Samfylkingarinnar til þess að annað hvort Stefán Jón skroppið all verulega saman, eða þá að Dagur er farinn að skríða á þriðja metrann. Líklegra af því tvennu er þá skyndilegur vöxtur Dags því að á honum hefur einnig orðið sú breyting á síðustu klukkustundum að hann sést nú ekki án hálsbindis, sem er flík sem hinn mæti stjórnmálamaður mun ekki hafa sett upp fyrr. En tveimur vikum fyrir kosningar, þegar skoðanakannanir hafa lengi sýnt dvínandi gengi Samfylkingarinnar, þá gerast þau undur að Dagur lengist að mun og bindi vefst um háls honum. Sennilega hefur bindið fokið þangað, því ekki er Samfylkingin gefin fyrir sýndarmennsku og ímyndarsmíði.

Fleiri auglýsingar birtast þessa daga. Sjónvarpsstöðvar geta vart komið dagskrá sinni til skila lengur, svo mikið rúm fer í auglýsingar Landsbankans þar sem minnt er á nýhafið Íslandsmót í knattspyrnu og með þeirri athugasemd að umræddur viðskiptabanki „elski“ fótbolta. Og í auglýsingunni leika þingmenn og ráðherrar eins og ekkert sé sjálfsagðara.