Þ ó þess sjáist ekki ýkja áberandi merki þá mun kosningabarátta vegna sveitarstjórnarkosningar nú vera hafin víða um land. Einn þáttur slíkrar baráttu eru hinir alþekktu fjárkúgunarfundir, þangað sem skelfingu losnir stjórnmálamenn streyma til þess að lofa útgjöldum á annarra kostnað. Dæmi um slíkan fund var auglýst í nýlegu Vesturbæjarblaði undir fyrirsögninni „Þema kosningafundar KR er „Framtíðin okkar““. Í fréttinni, sem auðvitað hefur verið send sem herútboð frá KR, segir meðal annars að „full ástæða“ sé til að hvetja „alla“ til að mæta og taka þátt í umræðum og „fræðast um hugmyndir frambjóðenda um framtíð KR“. Og ekki þarf að efa að allir flokkar hafa sent fulltrúa sem hefur gert sitt besta til að sannfæra viðstadda að raunverulegur tilgangur framboðs hans sé að æfingasvæði KR stækki enn. Allt hitt í stefnuskránni sé hugsað til að draga athyglina frá þessu lykilatriði. Áheyrendur hafa svo setið og reiknað út hvaða framboð sé í raun líklegast að skila KR mestu herfangi úr borgarsjóði.
Enginn þarf að láta sér detta í hug að KR-ingar séu betri eða verri en aðrir að þessu leyti, þó þetta dæmi hafi verið valið. Hagsmunahópar eru á útopnu að herja á stjórnmálamenn og fá út úr þeim annarra manna fé. Fréttabréf ýmissa félagasamtaka senda nú öllum framboðum spurningalista: hvað ætlið þið að gera fyrir okkur? – og alltaf virðast stjórnmálamennirnir nógu hræddir til að svara. Kosningabaráttan virðist líka ganga út á að stuða sem fæsta; gjaldfrjálst hér, beingreiðslur þar, borga borga borga – og ekki orð um að skuldir borgarinnar hafi margfaldast og það þrátt fyrir sífelldar skattahækkanir á liðnum árum.
„Það eru skylduaðildarfélögin. Þar mætti sérstaklega nefna Samtök iðnaðarins en iðnfyrirtækjum er gert skylt að greiða til þeirra offjár á hverju ári, fé sem stjórnendurnir nota svo til að halda úti gríðarlegri skrifstofu sem vinnur frá morgni til kvölds að því að koma Íslandi inn í Evrópusambandið.“ |
Ef vel ætti að vera, þá myndu stjórnmálaflokkarnir neita að mæta á fjárkúgunarfundi hagsmunahópanna. Neita að svara spurningalistum frá skotfélaginu um það hvað þeirra flokkur ætlaði að gera fyrir skyttur á næstu fjórum árum. Þessir fundir og þessir listar, sem ætlað er að koma eingöngu fyrir þau augu sem eru áhugasömust um tiltekin málefni eru eingöngu til þess fallin að gera væntanlegum borgaryfirvöldum erfitt að fara af ábyrgð með borgarsjóð. Hugsunin er líka sú hjá hagsmunahópunum að fá stjórnmálamennina til að binda hendur sínar, en sú aðferð verður sífellt vinsælli hjá þeim sem hafa slæman málstað. Fá stjórnmálamenn til að “skuldbinda ríkið eða sveitarfélög, helst með einhverjum samningi við einkaaðila, og reyna þannig að hindra að skynsemi komist framar að málinu. Og gegn þessu verða sæmilegir menn að berjast.
Skipulagðir hagsmunahópar geta verið alveg svakalegt böl, þó þeir reynist drjúgir fyrir sína menn. Íþróttafélög geta reynst sérstaklega skæð því margir stjórnmálamenn skjálfa á beinunum yfir ímynduðum áhrifum þeirra í prófkjörum. Hvaða skoðun sem menn hafa nú á því hvort og þá hvar flugvöllur eigi að vera í borginni, þá gæti verið forvitnilegt að velta því fyrir sér að sumir stjórnmálamenn tala á hverjum degi um það að það þurfi endilega að losna við Reykjavíkurflugvöll til að fá meira land undir íbúðir, en sjái sama tíma ekkert að því að auka „æfingaaðstöðu“ ótal íþróttafélaga. Engum stjórnmálamanni dettur í hug að segja að þetta eða hitt félagið eigi bara að loka velli – eða flytja hann á Löngusker eða Hólmsheiði – en flugvöllur höfuðborgarinnar, hann má fara hvert sem er enda hefur hann ekkert félagatal og enga úthringistöð í prófkjöri. Lóðaskortur kemur aldrei til tals þegar minnst er á æfingavelli. Það eru engin “spennandi tækifæri sem bíða eftir því að KR, Fjölnir og Víkingur verði flutt á Löngusker.
Nú er auðvitað ekkert við því að segja að fólk bindist samtökum um framgang hugðarefna sinna. Það eru hins vegar stjórnmálamennirnir sem eiga að reyna að vera uppréttir og segja hagsmunahópunum að hafa sig hæga. En þá kemur lýðræðið til sögunnar, eða öllu heldur sú reynsla þess að fámennur skipulagður hópur, með eitt skýrt áhugamál, getur haft miklu meiri áhrif en dreifður hópur þó miklu stærri sé, ef sá hefur aðeins almenna hagsmuni að leiðarljósi. Hinn fámenni skipulagði hópur talar aftur og aftur um sama málið, á fund eftir fund með ráðamönnum, og á endanum hitta þeir á stjórnmálamenn sem eru annað hvort veikir fyrir málefninu eða ímynda sér að þar sem „málið hafi verið rætt lengi“ þá þurfi einhvern veginn að „ljúka málinu“ og það verði þá aðeins gert með því að hinir sípotandi menn fái sitt fram. Og það eru þá útgjaldamennirnir sem verða ofan á. Ekki hafa hinir með sér samtök um sparnaðinn. Það eru stofnuð félög um tiltekin jarðgöng en ekki félög gegn nákvæmlega þeim göngum, og svo framvegis. Og sú staðreynd fær hrædda stjórnmálamenn til að ofmeta stuðning við frekjukröfur en vanmeta vanþóknun hins almenna manns á öllu saman.
Svo eru hins vegar hagsmunafélög sem eru mun óviðfelldnari en þau sem fólk stofnar af fúsum og frjálsum vilja um baráttumál sín. Það eru skylduaðildarfélögin. Þar mætti sérstaklega nefna Samtök iðnaðarins en iðnfyrirtækjum er gert skylt að greiða til þeirra offjár á hverju ári, fé sem stjórnendurnir nota svo til að halda úti gríðarlegri skrifstofu sem vinnur frá morgni til kvölds að því að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Og svo benda kannanir til þess að drjúgur hluti félagsmanna í samtökunum sé andvígur þeirri stefnu! Það er alþingi til skammar að viðhalda iðnaðarmálagjaldi svonefndu, gjaldi sem í raun er ekki annað en skylda á þá sem reka iðnað til að fjármagna pólitíska baráttu sem þeim kann að vera á móti skapi.
En svo eru þeir sem lengi starfa, hver í sínu horni, án þess að sjá ástæðu til þess að bindast samtökum til að herja á aðra eða verjast einhverjum öðrum. Á þessu ári eru til dæmis þrjátíu ár liðin frá stofnun Svínaræktarsambands Íslands, en eins og kunnugt er hefur svínarækt verið stunduð á landinu nær óslitið frá landnámi. Í fróðlegri bók, Sögu svínaræktar á Íslandi, eru þannig færð rök að því að á fyrstu árum Íslandsbyggðar hafi svínakjöt verið ein helsta fæða landsmanna og það verið vegna meiri frjósemi svína en annarra húsdýra. Þegar veður kólnaði – því veðurfar breytist iðulega af náttúrulegum orsökum – og kornrækt minnkaði, þá hafi dregið úr svínarækt og í lok 16. aldar hafi henni verið hætt. Um hálfri þriðju öld síðar hafi menn tekið þráðinn upp að nýju. Og það þarf ekki þessa fróðlegu bók til að átta sig á því að svínarækt hefur lengi verið drjúg búbót Íslendingum. Um það vitna örnefni víða um land. Mætti sem dæmi nefna að í hinni fróðlegu Sögu Sauðárkróks segir Kristmundur Bjarnason frá því að Sauðárkrókur hafi verið „í þjóðbraut frá fyrstu tíð. Þar er aðalhöfn héraðsins. Um hann er farið þegar haldið er út á Skaga eða til Skagastrandar. Svínakelduvað hefur heitið að fornu á Gönguskarðsá skammt fyrir neðan brúna, sem nú er. Sunnan vegarins er svonefnd Svínakelda og litlu ofar Svínakelduhvammur, nú oft nefndur Brúarhvammur. Séu þessi örnefni frá landnámstíð, eru þau ein til frásagnar um einn þátt búnaðarsögu frumbyggjanna, svínaræktina.“ En þess er samt að geta, að svínaræktin var ekki stunduð um allt land, enda segir til dæmis Guðni Jónsson þveröfuga sögu í Stokkseyringasögu sinni, en hann bendir á að þess sjáist “enginn vottur, t.d. í örnefnum, að geitur og svín, sem í fornöld voru algeng víða um land, hafi nokkurn tíma verið hluti af bústofni Stokkseyringa. En þegar horft er til þess að svínarækt hefur sennilega verið stunduð á Íslandi í um átta hundruð ár, en ræktarsambandið er ekki nema þrjátíu ára gamalt, þá sést vel að menn þurfa ekki alltaf samtök og félög til að starfa með blóma.
E n yfir í allt aðra sálma. Í dag á afmæli forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Vef-Þjóðviljinn óskar honum allra heilla á þessum merkisdegi