Í gær kynnti félagsmálaráðherra ákvörðun sína um skiptingu 54 milljóna króna úr svo kölluðum Starfsmenntasjóði, sem er einn af þeim farvegum sem stjórnmálamenn hafa komið sér upp til að taka fé af skattgreiðendum og setja í „gott málefni“. Félagsmálaráðherra tók sem sérstakt dæmi um gott málefni sem fengi styrk úr sjóðnum verkefni Fræðsluráðs Hótel og matvælagreina „sérstök Matargerð“. „Markmið verkefnisins er að hanna og semja námsefni fyrir sérfæði sem ætlað verður til kennslu í framhaldsskólum og á endurmenntunarnámskeiðum,“ sagði félagsmálaráðherra, væntanlega stoltur. Og hann hefur líklega ekki verið síður stoltur þegar hann taldi upp öll hin góðu málefnin sem skattgreiðendur fengu að styrkja, en meðal þeirra voru styrkur svo rafiðnaðarmenn gætu búið sig undir ljósleiðaravæðingu, sem auðvitað er sjálfsagt að skattgreiðendur borgi fyrir. Annar styrkur var til að viðhalda og þróa íslenskt handverk. „Ef vel tekst til getur þetta skapað störf ekki síst í dreifbýlinu og stutt við uppbyggingu ferðaþjónustu,“ segir félagsmálaráðherra og þá er vitaskuld sjálfsagt að farið sé í vasa skattgreiðenda.
Því fer fjarri að þau verkefni sem hér að ofan eru nefnd séu meðal þeirra verstu eða dýrustu sem hið opinbera ákveður að láta skattgreiðendur taka þátt í, svo er alls ekki. Þetta eru bara venjuleg dæmi um þá takmörkuðu virðingu sem borin er fyrir fé almennings á vettvangi stjórnmálanna og um leið áminning um að nauðsynlegt er að takmarka það sem er á sviði stjórnmálanna. Eitt af því sem hefði til dæmis mjög gjarnan mátt vera utan sviðs stjórnmálanna eru reiðhús, en það eru hús sem sumir áhugamenn um hesta og útreiðar – eða öllu heldur innreiðar – vilja láta byggja yfir þetta áhugamál sitt.
Fyrir nokkrum dögum auglýsti landbúnaðarráðuneytið „forsendur úthlutunarnefndar og reglur um úthlutun styrkja til byggingar reiðhúsa“ þar sem því er lýst hvernig umsóknir um styrki til að byggja reiðhallir, reiðskemmur eða reiðskála skulu vera, hvað sé til þess fallið að styrkja umsóknir og hversu háum styrkjum umsækjendur geti búist við til bygginganna. Einstakir styrkir geta numið allt að 30 milljónum króna og verða skattgreiðendur ekki spurðir álits á því hvort þeir vilji greiða þá fjárhæð með bros á vör svo að einhvers staðar megi reisa enn eitt reiðhúsið.