Þriðjudagur 21. mars 2006

80. tbl. 10. árg.

Það segir meira en mörg orð um trúverðugleika forystu Samfylkingarinnar að daginn sem varnarliðið tekur síðustu vél heim uppgötvar forystan að hún hefur enga utanríkisstefnu. Á fundi í Þjóðmenningarhúsinu á sunnudaginn kynnti forysta Samfylkingarinnar að Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi sendiherra mundi stýra leitarhópi sem falið hefði verið að finna stefnu Samfylkingarinnar í utanríkismálum. Leitin mun fara fram undir kallmerkinu „Sjálfstæð utanríkisstefna“.

Þegar skoðanakannanir benda til stuðnings við það vill Samfylkingin, einn íslenskra stjórnmálaflokka, að Íslendingar gangi í Evrópusambandið. Hún hefur jafnan miklar áhyggjur af því að Íslendingar passi ekki í „norræna velferðarmódelið“ og flytur þingsályktunartillögu í hvert sinn sem merki sjást um að Íslendingar séu öðruvísi en jafnaðarmenn á Norðurlöndunum. Þá heitir það alltaf að „Íslendingar standi Norðurlandaþjóðunum langt að baki“. Samfylkingin telur einnig að lýðræðisþjóðir þurfi sérstakt samþykki Kínverja í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að steypa brjáluðum einræðisherrum af stóli.

Stjórnmálaflokkur sem vill að Ísland afsali sér fullveldi til ESB, vill afrita skandínavískt velferðarkerfi á þjóðfélagið og telur að Sameinuðu þjóðirnar eigi að taka ákvörðun um það sem upp á vantar í lífinu hann hlýtur að velja stefnu sinni kjörorðin „Sjálfstæð utanríkisstefna“. Það er óhjákvæmilegt. Ekki síst þegar það liggur fyrir að forysta flokksins hefur sýnt það sjálfstæði að fela fyrrum sendiherra frá Helsinki að semja stefnuna fremur en að gera það sjálf. Án þessara kjörorða er ekki víst að allir fatti djókinn.

En eftir að Íslendingar hafa tekið upp allar reglugerðir og tilskipanir ESB, flutt löggjafann til Brussel, heimfært norræna velferðarmódelið óbreytt og legið á já-takkanum á allsherjarþinginu þá vill Samfylkingin auðvitað aukinn veg hins almenna Íslendings í  „samræðustjórnmálum“ og „þátttökulýðræði“.