Mánudagur 20. mars 2006

79. tbl. 10. árg.

Það er enginn hægðarleikur að fullyrða með vissu um það hvernig menn tryggi öryggi lands síns best. Íslensk stjórnvöld hafa sem kunnugt er verið afar lengi þeirrar skoðunar að ekki komi til greina að Ísland verði eitt landa Vestur-Evrópu skilið eftir án loftvarna. Á því geta menn auðvitað haft sína skoðun og það má til dæmis finna háværan hóp sem virðist álíta að öryggi Íslands verði því meira sem minna er gert til að vernda það. Aðrir telja að vel megi verja landið þó það verði ekki gert gegn hugsanlegum árásum úr lofti. Bandaríkjamenn, sem Íslendingar hafa undanfarna áratugi einkum treyst á, hafa nú sem kunnugt er sagt að þeir hafi annað við sinn búnað að gera en hafa hann hér til verndar óvinum sem ekki hafi enn gefið sig fram og megi benda á með hrolli. Við því hafa Íslendingar allt fram í síðustu viku sagt, að það breyti engu þó ferðum herflugvéla frá ríkjum utan Nato hafi fækkað hér á undanförnum árum; án raunverulegra loftvarna sé landið ekki varið og ef þau skilaboð verði send út til heimsbyggðarinnar að hér bjóði Nato-ríki upp á óvarða lofthelgi þá sé búið að setja Ísland í stöðu sem sé einstök meðal vestrænna ríkja. Íslensk stjórnvöld hafa því sagt einarðlega, að hætti Bandaríkin að sjá Íslandi fyrir loftvörnum – eins og þeim sem sjálfstæðu ríki sé vitaskuld heimilt – að þá muni af Íslands hálfu ekki látið eins og varnarsamningur ríkjanna sé lengur sá sem hann var.

Skýringin á stefnu íslenskra stjórnvalda hefur einfaldlega verið viljinn til að tryggja eðlilegar varnir í landinu. Það er svo annað mál og sjálfstæð spurning hvaða viðbúnaður er nauðsynlegur til þess að öryggið sé eðlilega tryggt. Kannski er engin hætta í því fólgin að vera eina loftvarnalausaland Evrópu. Hver veit? Hitt er svo annað mál að ekki einu sinni friðsöm lönd eins og Svíþjóð og Noregur láta sér koma til hugar að vera án loftvarna. Kannski geta þau bent á tiltekna óvini með nafni og símanúmeri.