Þriðjudagur 28. febrúar 2006

59. tbl. 10. árg.

Evrópusambandið var að ákveða að styrkja heimastjórn palestínumanna um hundruð milljóna. Það er gert þrátt fyrir að hryðjuverkasamtök hafi nú nýlega náð völdum yfir stjórninni. Samtök sem styðja og hvetja til ofbeldis og viðurkenna ekki tilverurétt Ísraels. Og heimastjórnin fær gríðarlegan fjárstyrk frá þeim í Brussel.

Það er nú eitthvað annað en eitt ríki mátti þola fyrir nokkrum árum. Þá hafði fengið þar aðild að ríkisstjórn stjórnmálaflokkur sem átti orðhvatan forystumann sem ekki mun hafa verið sérlega áhugasamur um aukinn straum innflytjenda til lands síns. Þá var nú engin miskunn í Brussel heldur refsiaðgerðir og þvinganir. Enda átti þar auðvitað í hlut hryðjuverkaríkið Austurríki. Og það er auðvitað miklu mikilvægara að taka á Jörg Heider heldur en þessum Hamas-strákum sem búa við erfiðar aðstæður já og aðra menningu sem við Vesturlandabúar verðum að skilja.

Svíar! Nú hefur verið greint frá því að þeir hafi tekið feil, náungarnir sem myrtu Olof Palme. Þeir hafi ætlað að myrða einhvern gaur sem þeir hafi átt í útistöðum við út af fíkniefnamálum en ekki verið manngleggri en þetta. Það er sem sagt ekki bara rannsóknin á morðinu og síðan réttarhöldin yfir manninum sem nú er sagður hafa verið morðinginn en var auðvitað sýknaður, sem var eins og það var. Meira að segja morðið var klúður líka!

En þetta er nú eiginlega aukaatriði hjá öðru. Er ekki einhvern veginn hægt að fá íslenska fréttamenn til að hætta að nota frasann „morðið á Palme hefur hvílt sem mara á sænsku þjóðinni“? Það er eins og ekki sé til sú ljósvakafréttastofa sem nokkurn tíma á síðustu árum hafi getað hugkvæmst leið til að minnast á Palme án þess að bæta þessum frasa við.