Mánudagur 27. febrúar 2006

58. tbl. 10. árg.

Eins og rætt var hér um helgina, þá er Stefán Ólafsson prófessor við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, kominn í stríð við stjórnvöld út af skattamálum og beitir þar ýmsum brögðum. Hitt er sjálfsagt að ítreka, svo hlutur hans sé ekki gerður verri en ástæða er til, að það eru aðeins stjórnvöld ríkisins sem fá að kenna á hnúum og hnefum prófessorsins. Stjórnendur Reykjavíkurborgar eru þar stikkfrí og eyðir Stefán talinu jafnskjótt og minnst er á að stjórnvöld þar hafa iðulega sætt færis og hækkað útsvar borgarbúa þegar stjórnvöld ríkisins hafa lækkað tekjuskatt sem lagður er á landsmenn. Þannig hafa borgaryfirvöld bæði náð að klófesta sjálf þær skattalækkanir sem borgurunum voru ætlaðar og, að hætti þeirra samræðustjórnmálamanna sem jafnan eru horfnir þegar samræður hefjast, náð að fela skattahækkanir sínar svo best þau kunnu. Þar sem Stefán leggur mikla áherslu á örlög tekjulægsta fólksins má einnig geta þess að Reykvíkingur með undir 125 þúsund krónum á mánuði í tekjur greiðir engan tekjuskatt til ríkisins en fullt útsvar til borgarinnar.

Það er algerlega ótengt þessu að Stefán Ólafsson er ekki aðeins prófessor heldur einnig „forstöðumaður borgarfræðaseturs“, sem er stofnun sem borgaryfirvöld í Reykjavík og Háskóli Íslands standa að. Stefán Ólafsson lætur slíkt nú ekki hafa áhrif á sig. Hann er fræðimaður sko.

Hvað er með þetta kastljós Ríkissjónvarpsins? Gott og vel, það er ekki enn búið að endurtaka guevara-afrekið enda skammt liðið, en það er þó komið annað furðuviðtal. Af hverju er verið að hampa Yoko Ono sem einhverjum sérstökum hugsuði og segja það sérstakan heiður að fá hana í viðtal? Hvað í ósköpunum hefur sú eflaust indæla kona gert til að verðskulda þetta, svona að því gefnu að menn telji ekki sérstaklega viðurkenningarvert að hafa komist upp á milli bítlanna á sínum tíma? Vissulega átti hún heimsfrægan eiginmann, einn áhrifamesta tónlistarmann síðustu aldar, og vel má hugsa sér að hún hafi frá ýmsu áhugaverðu að segja af honum og starfi hans og svo framvegis. En þegar kemur að pólitískum hugmyndum hennar og súlum sem hún vill koma upp, þá verður mun óskýrara af hverju hún er efni í viðtalsþætti þar sem hún er meðhöndluð eins og áttunda heimsundrið. Og undir spiluð tónlist Johns Winstons eins og til að gefa viðmælandanum meira vægi. Æ hvað sagði ekki Paul, get back to where you once belonged.