Íþví fjölmiðafári sem upphófst kringum hið svokallað fjölmiðlafrumvarp virtist sem allir vinstrimenn landsins væru skyndilega þeirrar skoðunar að stjórnvöld ættu ekkert með það að skipta sér af starfsemi fjölmiðla. Þetta var nokkuð sérstök afstaða, sérstaklega séð í því ljósi að sömu einstaklingar höfðu ítrekað áður haldið fram þeirri skoðun sinni að nauðsynlegt væri að ríkið ætti og ræki útvarps- og sjónvarpsstöð. Helst mátti á þeim skilja að í því fælist enginn ítök stjórnmálamanna í fjölmiðlum því að þær stofnanir hefðu nánast sjálfstætt líf og gætu flutt óháðar fréttir og boðið landanum uppá fræðandi og uppbyggilega skemmtun, -svona með. Nú hefur Vefþjóðviljinn aldrei haldið því fram að það sé auðvelt að vera algjörlega óvilhallur í fréttaflutningi eða umræðum. Það liggur nánast í hlutarins eðli að alltaf þarf að vega og meta hvað teljist fréttnæmt og hvernig sagt skuli frá því. Það er reyndar mjög athyglisvert að fylgjast með því þegar ríkisfjölmiðlarnir eru að reyna að gæta fyllsta hlutleysis. Oft lýsir það sér helst í því að forðast eins og framast er unnt að móðga nokkurn viðmælanda eða koma honum í óþægilega aðstöðu.
„Íslenskir vinstrimenn opna varla svo munninn í fjölmiðlum að þeir tali ekki um „lýðræðisleg vinnubrögð“. Það væri gaman að vita hvað þeim finnst um lýðræðið á Kúbu. Annað sem væri forvitnilegt að vita er hvort einhver hefði séð tækifæri til að stinga niður penna ef hingað hefði verið boðið syni eða dóttur Augusto Pinochet, hershöfðingja og fyrrum einræðisherra í Chile. Ætli sjálfskipaðir talsmenn mannréttinda og lýðræðis hefðu látið það óátalið ef í Kastljósi hefði birst viðtal við Luciu Pinochet þar sem hún hefði fengið að útmála dásemdarlífið í Chile á valdatíma herforingjastjórnarinnar?“ |
Þetta kom skýrt í ljós um miðjan mánuðinn þegar Aleida Guevara sótti landann heim. Kona sú hefur unnið sér það helst til frægðar að vera dóttir byltingarleiðtogans Ernesto Guevara, betur þekktur undir gælunafninu Che. Aleida er læknir að mennt eins og faðir hennar og starfar sem slíkur í heimalandi sínu. Það virðist þó vera að vinnutíminn sé sveigjanlegur því hún ferðast einnig um heiminn og heldur fyrirlestra um land sitt og þjóð. Slíkir fyrirlestrar virðast vekja athygli, að minnsta kosti var húsfyllir í Háskólanum í Reykjavík og var máli hennar vel tekið og hún leyst út með gjöfum. Auðvitað er öllum frjálst að flytja það mál sem þeir vilja og hljóta að launum „hrifningu, vonandi sanna“, og auðvitað var það alveg sjálfsagt að bjóða afkomanda annarrar eins stjörnu og Che Guevara er orðinn eftir dauða sinn í Kastljósviðtal í Ríkissjónvarpinu. Viðtalið við Aleidu var því miður sorglegt dæmi um hvað gerist þegar ríkissjónvarpið fylgir þessari stefnu sinni um óhlutdrægni og kurteisi út í æsar. Margrét Jónsdóttir, dósent við Háskólann í Reykjavík tók snyrtilegt viðtal á ómþýðri spænsku við dóttur byltingarmannsins. Viðtalið var þó síður en svo til þess fallið að svara þeim annars áhugaverðu spurningum sem gjarnan vakna þegar Kúba er til umræðu. Spurningarnar sem beint var til Aleidu voru hæfilega opnar til þess að hún gæti látið móðan mása um dásemdina sem byltingin hefði fært yfir hina kúbversku þjóð. Fidel Castro var lýst sem holdgervingi fyrirheita byltingarinnar og það eina neikvæða sem sagt var um kallinn var að hann væri ekki ódauðlegur. Örlítilli kurteislegri spurningu um hrikalegt efnahagsástand landsins var svarað á þá leið að allt væri þetta viðskiptabanni Bandaríkjamanna að kenna. Auk þess væri það alveg út úr kortinu að koma til Kúbu og leggja vestrænar mælistikur á líf og aðbúnað landsmanna. Af hverju skyldi það vera, hefði nú verið sjálfsögð spurning til Aleidu í framhaldi af þessu kostulega svari hennar. Það er sem sagt skárra að ekkert fæst í búðunum fyrir Kúbverja en til dæmis Íslendinga. Sú staðreynd að bandaríska strandgæslan tók rúmlega 2700 Kúbverja á hriplekum flekum og smádöllum á sundinu milli Kúbu og Bandaríkjanna á síðasta ári, virðist sýna að ekki séu allir landar Aleidu sammála henni um þetta efni.
Annað sem er athyglisvert í þessu sambandi eru viðbrögð vinstrimanna við þessu viðtali. Þau voru nefnilega engin. Það hefur oft þurft minna tilefni til að Ragnar Aðalsteinsson & Co. rjúki upp til handa og fóta og fari að vitna í skýrslur Amnesty International. Nú ætlar Vefþjóðviljinn ekki að fara að halda því fram að þau samtök, frekar en önnur, séu fullkomin. Engu að síður vitna skýrslur Amnesty, sem fáir myndu væna um undirlægjuhátt við vestrænu auðvaldsöflin, um hrikalegt ástand mannréttinda á Kúbu. Fólk er fangelsað án dóms og laga, því er hótað alls kyns hryllingi, fréttamenn hafa ekki frelsi frekar en aðrir til að gagnrýna neitt sem ríkisstjórnin gerir og þar fram eftir götunum. Það lýsir kannski vel ástandinu að í febrúar 2002 reyndi 21 Kúbverji að komast inn í sendiráð Mexíkó í Havana til að sækja um landvistarleyfi. Þeir fundu ekki annað ráð en að keyra á rútu, bókstaflega, inn í sendiráðið, -örvæntingin var slík. Lögreglan réðst að „óeirðarseggjunum“ til að handtaka þá og barði að sama skapi Andrew Cawthorne, fréttamann Reuters, og myndatökumanninn Alfredo Tedeschi, til að koma í veg fyrir að þeir flyttu fréttir af atburðinum. Stjórnin á Kúbu er ógnarstjórn, um það er ekki deilt. Fidel Castro hefur verið við völd frá árinu 1959. Það styttist í að valdatími hans nái hálfri öld. Íslenskir vinstrimenn opna varla svo munninn í fjölmiðlum að þeir tali ekki um „lýðræðisleg vinnubrögð“. Það væri gaman að vita hvað þeim finnst um lýðræðið á Kúbu. Annað sem væri forvitnilegt að vita er hvort einhver hefði séð tækifæri til að stinga niður penna ef hingað hefði verið boðið syni eða dóttur Augusto Pinochet, hershöfðingja og fyrrum einræðisherra í Chile. Ætli sjálfskipaðir talsmenn mannréttinda og lýðræðis hefðu látið það óátalið ef í Kastljósi hefði birst viðtal við Luciu Pinochet þar sem hún hefði fengið að útmála dásemdarlífið í Chile á valdatíma herforingjastjórnarinnar? Í lok viðtalsins við Aleidu Guevara var hún spurð hvað bæri nú í milli þeirra hugsjóna sem byltingin hefði staðið fyrir og því hvernig til hefði tekist í reynd. Svarið var stutt: „Byltingin hefur tekist“. Þetta er áhugavert svar fyrir margra hluta sakir. Ef harðstjórn og efnahagsöngþveitið á Kúbu er það sem að var stefnt, þá hefur markmiðum byltingarinnar að sjálfsögðu verið náð. Spyrillinn sá hins vegar ekki tilefni til að spyrja nánar heldur þakkaði Aleidu Guevara hjartanlega fyrir komuna.