Alþingi feli ríkisstjórninni að undirrita nú þegar fyrir Íslands hönd Kyoto-bókunina, bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. |
– Tillaga þingflokks jafnaðarmanna, síðar Samfylkingar, til þingsályktunar haustið 1998. |
Hefðu Íslendingar farið að ráðum Samfylkingarmanna fyrir þingkosningar 1999 hefðu þeir skrifað undir Kyoto bókunina án þess að eiga þess kost að virkja frekar til stóriðju á borð við þá sem rís nú á Reyðarfirði. Eins og bókunin leit út um þær mundir var ekki gert ráð fyrir undanþágu fyrir Íslendinga til að nýta fallvötn og jarðvarma til orkuframleiðslu. Hefði ríkisstjórnin farið að ráðum Samfylkingarinnar og skrifað fortakslaust undir Kyoto bókunina árið 1999 hefði það einnig komið í veg fyrir að álverið í Straumsvík hefði verið stækkað og frekari stækkun þess ásamt stækkun á Grundartanga.
Sem kunnugt er fengu Íslendingar tveimur árum síðar sérstaka undanþágu í Kyoto samkomulaginu sem gerði nýtingu fallvatna og gufuafls til stóriðju mögulega. Vefþjóðviljinn rifjar þetta upp nú vegna þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar hefur nú gert þá uppgötvun að þrátt fyrir undanþágu Íslendinga rúmist nú ekki nema eitt álver til viðbótar innan hennar. Gagnrýnir hún ríkisstjórnarflokkana fyrir að lofa álveri í hvern hrepp nú þegar kosningar nálgast þótt ljóst megi vera að það stangast á við Kyoto. Ingibjörg vill auðvitað ekki að menn lofi álveri og standi ekki við það. Hún mundi aldrei lofa slíku. Hins vegar er ekkert að því að lofa því að vera á móti álveri en vera svo fylgjandi því þegar ráðherrastóll er í boði. Svona eins og Ingibjörg gerði þingkosningunum 1991.
Þá hafði Kvennalistinn það eina markmið að stöðva „stóriðjustefnuna“. Í sjónvarpi á kosninganótt þegar ljóst var að ný vinstri stjórn yrði vart mynduð án þátttöku Kvennalistans kastaði Ingibjörg stefnu Kvennalistans í álmálum fyrir borð og Kvennalistinn varð skyndilega Kvennálistinn.
Í atkvæðagreiðslu í borgarstjórn um ábyrgðir borgarinnar á lánum Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar greiddi Ingibjörg svo atkvæði með ábyrgðinni en sagðist gera það með „hnút í maganum“.
Fyrir þingkosningar 2003 gaf Samfylkingin í norðaustur kjördæmi svo út blað með frambjóðendum og forsætisráðherraefninu á forsíðunni. Þar má sjá Ingibjörgu brosa sínu blíðasta við skilti frá álframleiðandanum í Reyðarfirði.