Sjá, hér er minn staður, mitt líf og mitt lán, og ég lýt þér, mín ætt og mín þjóð. Ó, þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán, mín skömm og mín tár og mitt blóð. |
– Steinn Steinarr, Landsýn. |
Íþægilegheitaþætti sínum í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi spilaði Guðmundur Andri Thorsson meðal annars hálfrar aldar gamla upptöku þar sem Steinn Steinarr las ljóð sitt, Landsýn. Taldi Guðmundur eftir á að þetta væri eitt magnaðasta ættjarðarljóð tuttugustu aldar. Sá dómur er auðvitað smekksatriði, en um þetta litla ljóð Steins mætti hafa fleiri orð ef vill. Það öðlaðist nefnilega ofurlítinn sess í sögu íslenskra bókmennta þegar Steinn kaus að birta það fyrst opinberlega í Stefni, tímariti Sambands ungra sjálfstæðismanna, og það líkaði ekki öllum. Þá sem nú vildu ýmsir eigna sér og sínum listir og menningu og hikuðu ekki við að slá eign sinni á listamenn, sem sumir dönsuðu með. Steinn Steinarr birti ljóð sitt í Stefni fyrir milligöngu eins ritstjórans, og hálfri öld síðar rifjaði Matthías Johannessen þetta litla atvik upp í bók sinni Málsvörn og minningum.
Matthías sagði að það hefði farið í taugar vinstri manna að verið væri að fjalla um menningarmál í slíku tímariti. Millistéttin hefði „helzt orð á sér fyrir að vera einhvers konar ómenningarlegur verzlunarlýður, sem ætti ekkert takmark annað en fyrirheit pyngjunnar. Og því ekkert tilkall til andlegrar virðingar.“ Matthías hefði hafnað þessari kenningu og vitað „sem var, að borgarastéttin átti rætur í gróinni menningu, ekki síður en alþýða Íslands á öllum öldum og höfðingjar fortíðar eins og sturlungaraldarmenn.“ Og Steinn Steinarr frumbirti nýtt ljóð í Stefni. „Það má rétt ímynda sér hvílíkt mál það var að fá kvæði hjá Steini til birtingar. Þá hafði hann ekki látið kvæði frá sér fara um nokkurt skeið. En þetta olli engri sérstakri gleði í röðum vinstri manna, þvert á móti. Ég held þessi ákvörðun Steins hafi verið frá hans hendi meiriháttar yfirlýsing um það að hann væri orðinn leiður á pólitísku vafstri og vildi sýna svart á hvítu, að enginn ætti hann öðrum fremur,“ sagði Matthías Johannessen í bók sinni.
Og í sama hefti Stefnis var fjölmargt efni tengt menningarmálum. Almenna bókafélagið var þá nýstofnað og um það skrifaði Magnús Jónsson meðal annars:
Almenna bókafélagið er ópólitískt félag, enda standa að því menn úr ýmsum flokkum. Félaginu hefur líka yfirleitt verið mjög vel tekið, en þó er ein eftirtektarverð undantekning. Aðalmálgagn kommúnista, þess flokksins, sem fjálglegast hefur talað um menningaráhuga sinn, hefur ráðizt með skætingi að þessu nýja menningarfélagi. Ástæðan er augljós. Menningaráhugi kommúnista er ætíð takmarkaður við það, að þjónað sé pólitískum hagsmunum kommúnista. Þess vegna er enginn svo aumur leirbullari, að hann sé ekki hafinn til skýjanna í málgögnum kommúnista, ef hann er þeirra flokksmaður, en snjallir höfundar rægðir, ef þeir hafa ekki viljað beygja sig undir hið andlega ok kommúnismans. Forgöngumenn Almenna bókafélagsins munu ekki skelfast, þótt kommúnistar sendi þeim kaldar kveðjur. |
Og ekki vantaði það að þeim sem leyfðu sér að standa fyrir Almenna bókafélaginu voru sendar kaldar kveðjur, sumar endurteknar af og til um áratugaskeið, til dæmis með orðalagi Sigurðar A. Magnússonar sem greindi frá því í blaðagrein fyrir fáum árum að „hægri menn ættu helst að fást við eitthvað annað en menningarstarfsemi“. Vinstri mönnum líkaði mörgum stórilla að fá ekki einir að ráðskast með íslenskt menningarlíf, og enn ber á því að þeim þyki sumum sem aðrir séu þar boðflennur. Þó nú sé baráttan ekki háð undir fána kommúnisma þá er tími klíknanna ekki liðinn í íslensku menningarlífi.
Almenna bókafélagið var nauðsynleg og vel heppnuð tilraun til þess að skapa fjölbreytni í íslensku menningarlífi á sínum tíma. Og það er enn þörf þeirrar hugsunar. Einn þáttur í slíkri baráttu er að sínu leyti útgáfa tímaritsins Þjóðmála en ritstjóri þess hefur talsvert beitt sér í menningarumræðunni. Í bók sinni, Frá mínum bæjardyrum séð segir hann á einum stað:
Önnur ástæða þess að ég tel nauðsyn fyrir útgáfu vandaðs ársfjórðungsrits um þjóðmál og menningu er einsleitni slíkrar umræðu hér á landi. Það er eins og það sé alltaf sama fólkið að tala saman. Maður hefur stundum á tilfinningunni að það hafi myndast óformlegur félagsskapur fólks sem hugsar á líkum nótum um þjóðfélagsmál og menningu og stýrir menningarumræðunni. Þetta er eins konar skjallbandalag þar sem eru fyrirferðarmestir póstmódernískir fræðimenn í hugvísindadeild Háskóla Íslands og í ReykjavíkurAkademíun[ni] ásamt stjórnendum Lesbókar Morgunblaðsins og Víðsjár Rásar 1. Þetta er hópur sem stendur þétt saman svo sem sjá má á ráðstefnum ýmsum og rabbfundum, umfjöllunarefnum í Lesbókinni og Víðsjá, hinni „frjóu umræðu“ sem svo er kölluð, en líka stundum þegar deilt er um keisarans skegg í fjölmiðlum. Ef einn úr skjallbandalaginu er til dæmis skammaður koma hinir skjótt til varnar og þarf hinn skömmótti maður þá að verjast á mörgum vígstöðvum í senn sem getur vitaskuld reynst honum ofviða. Póstmódernismanum má lýsa sem sjónhverfingum. Fundin eru upp ný sjónarhorn og nýtt tungutak sem við fyrstu sýn gefa til kynna að inntak hefðbundinna viðfangsefna hafi breyst. En þegar hin „frjóa umræða“ hefur staðið um hríð á fámennum ráðstefnum og klappfundum, í Víðsjá og í Lesbókinni, blasir við að fátt eða ekkert hefur breyst nema „orðræðan“ sjálf. |
Það er alveg óhætt að mæla með baráttunni við póstmódernismann. Og þá sem vilja nálgast Þjóðmál eða greinasafnið Frá mínum bæjardyrum séð má auðvitað minna á að hvort tveggja fæst á vægu verði í bóksölu Andríkis.