M
argt er sér til gamans gert ekki síst á þessum tímum endalausra skemmtiþátta í útvarpi og sjónvarpi, leikhúsum og listasmiðjum. Þá má ekki gleyma óteljandi kostum sem fólki bjóðast í útivist, námsskeiðum ýmis konar og félags- og flokkstörfum. Þeir sem eru lítið gefnir fyrir hvers kyns ærsl og bægslagang hafa lengi átt góðan vin í bókinni, enda er lestur bæði hollur og góður, að minnsta kosti ef trúa má sjálfskipaðri menningarelítu þessa lands og flestra annarra.
Nú má auðvitað skipta lesefni í ýmsa flokka, þar á meðal í skemmtibókmenntir, bækur sem ætlað eru til fræðslu og svo bóka um alvarlegri málefni. Þá eru ótaldir bæklingar og ritlingar af ýmsu tagi. En snúum okkur aftur að glensi og gríni. Það er nefnilega svo að stundum leynist ómengað skemmtiefni hvar maður síst skyldi ætla. Dyggir lesendur laga og reglugerða eru óvanir því að þar sé að finna efni sem gleður og kætir lesandann og fær hann jafnvel til að skella uppúr. En með tilkomu reglugerðafargans þess sem að stórum hluta er innflutt frá Evrópusambandinu hefur hér orðið breyting á. Er hann aukinheldur orðinn almenningi aðgengilegur á veraldarvefnum og veitir skemmtibókmenntum einkageirans þannig ósanngjarna samkeppni.
Sem dæmi um broslegar reglur má nefna reglugerð frá landbúnaðarráðuneytinu nr. 748/2002 um girðingar. Það verður að viðurkennast að skemmtilegri lesning er vandfundin, þótt hún er dálítið langdregin á köflum, enda textinn langur. Um gildissvið og markmið segir í 1.gr.: „Reglugerð þessi gildir um uppsetningu og frágang girðinga. Markmið reglugerðarinnar er að kveða á um ýmsa staðla og orðskýringar og hvaða lágmarksskilyrði girðing þarf að uppfylla til að teljast fullnægjandi varsla fyrir hverja búfjártegund. Jafnframt er mælt fyrir um hvernig háttað skuli undirbúningi, uppsetningu, gerð og tæknilegum frágangi girðinga.“ Þetta er svo sem allt hefðbundið, en síðar tekur við óborganlegur texti þar sem fjallað er í smáatriðum um efnið.
Því miður gefst ekki tækifæri á þessum vettvangi til að gera efninu við hlítandi skil, en þó verður ekki hjá því komist að nefna til dæmis 5. gr. en þar segir:
Á hornstaurum skulu vera stög. Á hornum sem eru á bilinu 45-135° skulu vera tvö stög en á öðrum getur eitt stag dugað. Grafa skal fyrir stögum minnst 3 m lárétt frá staur og skal dýptin vera a.m.k. 1,3 m eða niður á fast. Stagsteinar skulu vera a.m.k. 600 cm2 (eða 50-60 kg) og liggja þvert á togstefnu stagsins. Skera skal í holuvegginn fyrir stagið þannig að það liggi beint frá staur í stagfestingu. Stagvírinn (um 3,75 mm) er hafður a.m.k. fjórfaldur og festur á staurinn skammt ofan við efsta streng. Heimilt er að nota aðrar aðferðir til styrkingar á aflstólpum ef þær uppfylla sömu styrkleikakröfur og að ofan greinir. Þegar notuð eru tvö stög á stefna staganna að vera 20-30 cm út úr stefnu girðingarlínu, þannig að hornið á milli staganna sé þrengra en horn girðingarinnar. Stögin skulu strekkt þannig að staurarnir halli „út úr girðingunni“ (5-10°) til þess að þeir verði sem næst lóðréttir þegar girðingin hefur verið strekkt. Æskilegt er að ljúka strekkingu staga og girðingar samtímis. |
Svo mörg voru þau orð, en um girðingastaura segir í næstu grein:
Viðarstaurar úr lerki skulu vera minnst 6 cm að meðalgildleika. Staurar úr öðru efni skulu að lágmarki samsvara þeim að styrkleika. Æskilegt er að fúaverja viðarstaura aðra en lerkistaura. Málmstaurar aðrir en álstaurar skulu vera galvanhúðaðir (250 g/m2). Renglur skulu hið minnsta svara til þverskurðarflatar 3×3 cm úr góðum viði að styrkleika. |
Nú skal það ósagt látið hverjar skulu vera lágmarks menntunarkröfur sem hið opinbera gerist til bænda og búaliðs og annarra girðara, en af þessu má ráða að meistarapróf í verkfræði og aðgangur að rannsóknastofu til burðarþolsmælinga á hverjum bæ sé algjört lágmark. Að lokum skal á það bent, að fyrst að sett hefur verið nákvæm reglugerð um það hvernig mönnum beri að girða landið, sé orðið aðkallandi að reglur verði settar um hvernig mönnum beri að girða sig, enda um mun brýnna mál að ræða. Hversu djúpt á keyra skyrtuna ofan í buxurnar? Hversu þétt ber að strekkja beltið? Mega axlarböndin liggja undir skyrtunni eða verða þau að vera yfir henni? Og hvað ef menn nota hvorki belti eða axlarbönd, úr hvaða efni má hnappurinn þá vera? Hið opinbera hefur ekki svarað neinni af þessum spurningum og hlýtur þess vegna að teljast vera með allt niður um sig.