Blaðamenn eru stöðugt að velja og hafna í miðla sína, kanna mál og leita eftir mismunandi sjónarmiðum til að lesendur, áhorfendur og áheyrendur geti svo myndað sér skoðun á einstökum málum. Blaðamenn DV segjast vera sannleiksleitandi og ekki hlífa neinum, en stundum þurfa menn að athuga sinn gang og fara vandlega yfir hvað skuli birt og hvað ekki. |
– Kári Jónasson ritstjóri Fréttablaðsins í leiðara blaðsins í dag. |
Sigurjón M. Egilsson er fréttaritstjóri á Fréttablaðinu. Í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi var Sigurjón inntur álits á títtnefndri forsíðufrétt DV. Hann var sérstaklega spurður hvort hann myndi birta slíka forsíðufrétt í sínu blaði. Svar Sigurjóns var þvert nei. En það var í raun óþarft að spyrja Sigurjón um þetta og gefa honum færi á að segja ósatt. Því Sigurjón birti einmitt umrædda forsíðu á síðu 16 í Fréttablaðinu sínu sama dag og DV birti hana. Birtingin var líklega ætluð sem auglýsing fyrir DV. Fréttablaðinu er dreift í um 100 þúsund eintökum inn á heimili landsmanna að þeim forspurðum. Það er margföld dreifing DV og því ekki síður skaðlegt æru manna að fá slíka kynningu í Fréttablaðinu. Í Fréttablaðinu birtist líka aðeins mynd af forsíðu DV en ekki frásögn DV af málsatvikum. Þótt frásögn DV væri með þeim hætti sem einkennir það blað gaf hún þó mun skýrari mynd af stöðu málsins en forsíðuuppslátturinn. Fréttablaðið lét sér hins vegar nægja að birta forsíðuna úr DV. Velkist menn í vafa um ábyrgð eigenda DV á umræddri forsíðufrétt blaðsins hlýtur það hafa eitthvað að segja að forsíðufréttin var einnig auglýst í hinu blaðinu sem sömu menn gefa út.
Hvernig getur Kári Jónasson ritstjóri Fréttablaðsins svo sett sig á háan hest gagnvart DV vegna þessarar forsíðufréttar þegar hann hefur sjálfur birt það versta úr fréttinni í blaðinu sem hann ritstýrir?