Miðvikudagur 11. janúar 2006

11. tbl. 10. árg.

Því er stundum haldið fram að starfsmenn og ritstjórnir fjölmiðla geti starfað alveg óháð eigendum sínum og jafnvel óháð framkvæmdastjóra og stjórn útgáfufélagsins. Það er eins og með einhverjum dularfullum hætti séu fjölmiðlar öðru vísi að þessu leyti en öll önnur fyrirtæki. Það er auðvitað ekki. Líklega er það hluti af sjálfupphafningu fjölmiðlamanna hve þessi skoðun er útbreidd.

Fjölmiðar eru eins og önnur fyrirtæki á ábyrgð eigenda sinna. Eigendurnir taka ákvörðun um að halda fjölmiðlum úti og ráða mannskap. Auðvitað geta starfsmönnum orðið á mistök sem eigendur geta ekki séð við; voru ófyrirséð og óvænt. Oft leiða slík mistök til þess að viðkomandi starfsmaður hverfur af vettvangi. En það er sjaldgæft að eigendur skýli sér hvað eftir annað á bak við starfsmenn sína þegar starfsmennirnir nýta fyrirtækið til að meiða samborgara sína vísvitandi. Það er hreint furðulegt á að líta.

Þegar það er beinlínis orðin stefna dagblaðs að særa menn á hverjum einasta degi með óvarlegum skrifum og myndbirtingum bera eigendurnir auðvitað alla ábyrgð. Þá er það vilji eigendanna að starfsmenn blaðsins hagi sér með þessum hætti.

Árni Hauksson Gunnar Smári Egilsson Jóhannes Jónsson Jón Ásgeir Jóhannesson Pálmi Haraldsson Þórdís Sigurðardóttir

Á myndunum hér að ofan eru sex helstu eigendur og stjórnendur útgáfufélags DV. Það er þetta fólk sem ber alla ábyrgð á því að á dag eftir dag, mánuð eftir mánuð, kemur DV út með sama hætti.

Strætisvagnar Reykjavíkur – afsakið, Strætó bs. – búa við stöðuga fækkun farþega og á vegum fyrirtækisins eru „tómir strætisvagnar keyrandi um alla borg“, svo vitnað sé í grein sem einn af frambjóðendum í prófkjöri Framsóknarflokksins í Reykjavík, Björn Ingi Hrafnsson, ritaði í Morgunblaðið í gær. Björn Ingi bendir enn fremur á að „stærsti hlutinn af rekstri Strætó kemur úr borgarsjóði“ og hann segir að „við eigum heldur ekki að halda úti dýru strætisvagnakerfi sem enginn vill nota og hentar ekki þörfum borgarbúa“. Þá vill hann ekki að fólk sé skikkað til að taka strætó ef það vill það ekki og vill frekar nota einkabílinn. Allt er þetta ágætt hjá frambjóðandanum, en lausnin sem hann leggur til er í sérkennilegra lagi. Björn Ingi telur að þar sem fáir vilja nota strætó sé réttast að bjóða frí fargjöld í vagnana og með því verði staðið fyrir „alvöru vitundarvakningu um kosti almenningssamgangna“. Framtíðarmarkmiðið segir hann skýrt og verður ekki skilinn á annan hátt en að það sé að þvinga sem flesta úr einkabílunum inn í strætó með því að niðurgreiða strætó enn frekar en orðið er.

Flestir kjósa að nota einkabílinn sinn og það er ekki vegna þess að það sé svo ódýrt miðað við að nota strætó, enda er einkabíllinn skattlagður af miklum þunga en strætóinn niðurgreiddur. Nei, fólk kýs að nota einkabílinn vegna þess að hann er þægilegur ferðamáti sem veitir því frelsi til að fara þangað sem það vill þegar það vill. Fyrir þetta er fólk reiðubúið til að greiða töluverða fjárhæð. Hvaða sanngirni ætli sé nú í því að skekkja myndina enn frekar og reyna þannig að fá fólk til að hætta að nota þægilega ferðamátann en taka þess í stað upp annan óþægilegri? Hvers vegna vill Björn Ingi endilega hafa vit fyrir fólki enn frekar en orðið er? Hvers vegna er það framtíðarsýn þessa stjórnmálamanns að fjölga þeim sem ferðast á annan máta en þeir helst kjósa? Væri ekki nær að viðurkenna að fólk vill helst ferðast með einkabílnum – eins og Björn Ingi gerir raunar – og hætta niðurgreiðslunum, lækka skatta sem þeim nemur og auðvelda fólki þannig að ferðast eins og því hentar best? Er eitthvað að því að fólk taki hjálparlaust ákvörðun um hvernig það fer á milli staða?