Þriðjudagur 10. janúar 2006

10. tbl. 10. árg.

Sáu menn hvað Samfylkingin var fljót að álykta gegn Norðlingaölduveitu þegar það spurðist út að heimsfrægir tónlistarmenn hefðu fyllt Laugardalshöllina á tónleikum þar sem þessari framkvæmd mun heldur hafa verið hallmælt? Þingflokkurinn hljóp til í dauðans ofboði þegar hann taldi sig hafa komið auga á mál sem trendí liðið væri að styðja. Fyrri stefnu Samfylkingarinnar í þessu máli var bara kastað út á ferð. Dettur einhverjum í hug að Samfylkingin hefði ályktað gegn Norðlingaöldu í gær ef þessir tónleikar hefðu ekki farið fram um helgina og tekist svona ágætlega eftir því sem aðstandendur þeirra segja? Hvernig væri eiginlega að hafa flokk sem þennan við stjórn landsins sem lætur nokkra tóna úr höllinni taka af sér ráðin?

E

Uppgötvuðu Íslendingar leyndardóm fjármagnsins með einkavæðingunni? Bókin Leyndardómur fjármagnsins fæst eins og fleiri góð rit í bóksölu Andríkis.

ngu er líkara en að svonefndir „markaðsaðilar “ ætli að blása hlutabréfaverð svo hressilega upp að hvellurinn verði ógleymanlegur. Ekki síst þeim sem koma hlaupandi með sparifé sitt síðustu dagana til að „taka þátt í hækkunum“ eins og einn verðbréfasalinn orðaði það skömmu áður en síðasta bóla sprakk um aldamótin. En hey Íslendingar eru jú orðnir 300 þúsund og þetta héldu svartsýnismenn líka þegar úrvalsvísitalan fór yfir 4.000 stig og einnig þegar hún fór yfir 5.000 stig í byrjun desember. Svo leið gamlárskvöld og þrettándinn en enginn varð hvellurinn. Og nú, aðeins nokkrum vikum eftir vísitalan tók á rás norður af 5.000, gælir hún við 6.000 stigin. Staðan er raunar þannig að jafnvel þótt hlutabréfaverð lækkaði snarlega um 50% gætu menn vel við unað sem ávaxtað hafa pund sitt í íslenskum hlutabréfum á síðustu þremur árum.

Þótt verð hlutabréfa sé jafn huglægt og annarra hluta, það fer bara eftir því hvað mönnum þykir þá og þá stundina, þá má velta því fyrir sér hvernig stendur á því að menn meta íslensk fyrirtæki svo margfalt meira nú en fyrir nokkrum árum.

Eins og Vefþjóðviljinn sagði frá á föstudaginn kom eitt af ritum perúska hagfræðingsins Hernando de Soto út á íslensku nýlega. Í bókinni Leyndardómur fjármagnsins fjallar do Soto um hvernig vekja má hið gríðarlega fjármagn sem liggur dautt í þriðja heiminum til lífsins. Ástæða þess að fjármagnið liggur dautt er að mati de Sotos óljós eignarréttur og alls kyns boð og bönn. Höft og miðstýring, hin dauða hönd ríkisins, koma í veg fyrir nýtingu fjármagnsins sem liggur í eignunum.

Gæti verið að ein skýring á því hvernig verðmæti hlutabréfa hefur hækkað að undanförnu verið sú að fram til síðustu aldamóta rak ríkið flestar fjármálastofnanir landsins og raunar ýmis önnur fyrirtæki sem voru einkavædd eins og bankarnir. Eign ríkisins á fyrirtækjum þýðir að eignarhaldið er óljóst því það breytist í raun á nokkurra ára fresti með nýjum valdhöfum sem enginn veit hverjir verða. Eða ef Samfylkingin væri í stjórn þá gætu Bubbi, Damon Albarn og einn árgangur af unglingum í Laugardalshöll líklega fengið flokkinn til að gera hvað sem er við ríkisfyrirtækin. Gæti hugsast að Ísland síðustu ára sé einmitt kennslubókardæmi um hvernig má vekja dautt fjármagn til lífsins með því skerpa á því eignarrétt með einkavæðingu?