Miðvikudagur 21. desember 2005

355. tbl. 9. árg.

Undanfarið hefur talsvert verið rætt um hvort og þá hvernig Árni Magnússon félagsmálaráðherra ætti að bregðast við dómi Hæstaréttar Íslands, sem dæmdi Valgerði Bjarnadóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra jafnréttisstofu, háar miskabætur fyrir að hafa látið af starfi sínu, eftir að félag, sem hún stýrði, var um tíma talið hafa brotið jafnréttislög. Margir hafa sett fram þá skoðun að Árna bæri að láta af embætti, einkum yngri og eldri deildir stjórnarandstöðunnar, en Árni sjálfur og ungir framsóknarmenn hafa verið því ósammála, hinir síðarnefndu ekki síst af þeim sökum að Árni sé „flottur“, og liggur við að af því megi ætla að ungir framsóknarmenn telji að önnur lögmál hljóti að gilda um flotta menn en aðra.

Vefþjóðviljinn hefur af og til minnst á málefni jafnréttisstjórans fyrrverandi. Á árinu 2002 gaf blaðið lítið fyrir það álit kærunefndar jafnréttismála að Leikfélag Akureyrar hefði undir hennar stjórn brotið jafnréttislög, og snemma á síðasta ári lét Vefþjóðviljinn í ljós þá skoðun að félagsmálaráðherra hefði farist heldur illa við þennan embættismann. Í apríl í fyrra skrifaði blaðið og stendur enn við hvert orð:

Og að lokum, fyrst minnst hefur verið á Valgerði Bjarnadóttur og starf hennar sem framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu. Eins og menn vita þá varð það fyrir nokkru „sameiginleg niðurstaða hennar og félagsmálaráðherra“ að hún léti af því starfi sínu. Það var hins vegar áður en Hæstiréttur Íslands kvað með skýrum hætti upp úr um það að hún hefði á engan hátt brotið jafnréttislög, öfugt við það sem Kærunefnd jafnréttismála hafði fullyrt. Augljóst var að Valgerður átti ekki frumkvæði af því að láta af starfinu þó hún féllist á það og tæki við biðlaunum að því gerðu. Þó félagsmálaráðherra hafi ekki brotið lögvarin réttindi hennar þá virðist það einnig blasa við að hlutur hennar er óviðkunnanlega smár. Að minnsta kosti er ekki vitað til þess að ráðherrann hafi nokkuð gert til að koma til móts við Valgerði eftir að Hæstiréttur hreinsaði hana af þeim lögbrotum sem Kærunefnd jafnréttismála hafði borið á hana. Virðist hún í litlu eiga að njóta þess að hafa að ósk félagsmálaráðherra gefið frá sér starf sitt, sem henni hafði engin skylda borið til að gera. Enn sem komið er virðist það vera helsta framlag Kærunefndar jafnréttismála til framgangs jafnréttismála að hafa starf af Valgerði Bjarnadóttur. Og félagsmálaráðherra virðist láta sér það vel líka.

Fyrir ári var hér fullyrt að Árni Magnússon hefði ekki brotið lögvarin réttindi Valgerðar þó ekki yrði sagt að hann hefði komið sérstaklega stórmannlega fram við hana að öðru leyti. En Árni braut ekki réttindi Valgerðar og niðurstaða dómaranna um það er einfaldlega röng. Valgerður féllst á að segja sig frá starfi sínu og tók við biðlaunum sínum. Henni bar engin skylda til að gera það og Árni þvingaði hana ekki til þess með neinum ólögmætum hætti. Það er mikill munur á því að hvetja starfsmann til að semja um tafarlaus starfslok og svo því að vísa honum úr starfi. Framkvæmdastjórinn átti þess einfaldlega kost að hafna óskum ráðherrans, sem þá hefði staðið frammi fyrir þeim kostum að segja henni upp, með öllum viðeigandi réttaráhrifum, eða hafa hana áfram í embættinu. Dómur Hæstaréttar, niðurstaða þeirra tilteknu lögfræðinga sem skipuðu hann í málinu, er engin ástæða fyrir félagsmálaráðherra til að láta af starfi. Menn verða nefnilega að gera sér grein fyrir því, að niðurstaða dómsmáls byggir á ákvörðun nokkurra einstaklinga, frá einum í héraðsdómi og allt upp í sjö fyrir Hæstarétti. Þær ákvarðanir, þó þær eigi að vera teknar eftir einum saman lögum og málavöxtum, eru auðvitað mannaverk en ekki óumdeilanleg niðurstaða óskeikulla. Og það hefur ekkert komið fram um það að Árni Magnússon hafi brotið rétt Valgerðar Bjarnadóttur, þó Vefþjóðviljinn segi nú eins og fyrir tæpum tveimur árum að hann var enginn höfðingi í þeirra skiptum.