Fyrir tveimur mánuðum sagði Vefþjóðviljinn frá því, að komið væri út nýtt tímarit, Þjóðmál, sem hefði þá sérstöðu á prentmiðlamarkaði að horfa ekki á mál frá þeim sama sjónarhóli og margir telja tíðkaða á öðrum miðlum. Þó ekki væri hægt að kvarta yfir því að ekki væri nægilegt magn prentmáls í boði og það á hverjum degi, þá væru þeir allmargir sem ekki teldu sig finna í því þau efnistök sem þeir kysu. Með útgáfu Þjóðmála var greinilega reynt að koma til móts við að minnsta kosti hluta þess hóps, en óhætt er að segja að hefðbundins pólitísks rétttrúnaðar gæti ekki að marki í ritinu.
Í gær kom út annað hefti Þjóðmála og kennir þar ýmissa grasa. Vafalítið mun mörgum þykja forvitnileg grein dr. Helga Tómassonar, dósents við Háskóla Íslands, þar sem fjallað er málefni sem oft verður tilefni stóryrða og loforða um úrbætur. Greinin nefnist „Tölfræðigildrur og launamunur kynja“ en Helgi er útlærður í tölfræði og starfaði um nokkurra ára skeið hjá kjararannsóknarnefnd, meðal annars við að reyna að finna gögn um þann launamun sem margir virðast líta á sem staðreynd. Í greininni færir Helgi rök að því að ekki liggi fyrir upplýsingar sem réttlæti staðhæfingar um kynbundinn launamun, og er ekki að efa að margir munu hafa áhuga á málflutningi hans. Þó kynbundinn launamunur hafi oft verið nefndur í opinberri umræðu, þá sýnir sú staðreynd auðvitað ekki fram á tilvist hans. Það er nefnilega ekki endilega neitt samhengi milli þess hve lengi eitthvert mál hefur verið rætt og svo þess hversu mikið vit er í umræðunni. Stundum getur löng umræða verið til vitnis um að mál sé í raun ekki eins aðkallandi og menn láta. Lengd umræðu getur í sumum tilfellum einmitt verið vísbending um að aldrei hafi, þrátt fyrir mikið tal, náðst nægilegur stuðningur við aðgerðir og fyrir því verið góðar og gildar ástæður.
Meðal annars efnis í Þjóðmálum má nefna að þrír skólameistarar og menntamálaráðherra takast á um styttingu framhaldsskólans, Ragnhildur Kolka skrifar um uppgang íslamstrúar í Evrópu og Þorsteinn Pálsson fyrrverandi forsætisráðherra skrifar um nýútkomna bók Guðna Th. Jóhannessonar, Völundarhús valdsins, sem byggð er á dagbókum Kristjáns Eldjárns fyrrverandi forseta Íslands. Grein Þorsteins Pálssonar er sérlega áhugaverð, enda hafði hann verulega innsýn í ýmis málefni sem koma til tals í bókinni þó hann hafi að vísu hvorki sest á þing né í ríkisstjórn fyrr en eftir að Kristján lét af forsetaembætti. Raunar er óhætt að segja að Þjóðmál séu hlaðin efni sem ætti að höfða til margra áhugamanna um stjórnmál og menningu og þeim má benda á, að áskrift að Þjóðmálum fæst í bóksölu Andríkis og kostar árgangurinn 3.500 krónur og er heimsending fjögurra hefta innifalin.
Fyrst minnst er á Bóksölu Andríkis, þá má láta þess getið að þar eru vitaskuld til sölu bækur sem ættu að geta vakið áhuga ýmissa. Þeir sem hafa hug á að afla sér þeirra, öðrum til gjafa um jól, ættu hins vegar að hafa hraðan á, þó allar pantanir séu afgreiddar eins hratt og kostur er. Bækur sem pantaðar eru í dag og á morgun munu berast kaupendum fyrir jól, en eftir það verður skynsamlegast að lofa ekki neinu. Menn svíkja líka að því marki minna.