Mánudagur 19. desember 2005

353. tbl. 9. árg.
Skýring forsetans á auknum kostnaði við embætti sitt stenst ekki.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur sent frá sér athugasemd, sem birtist í Morgunblaðinu í dag, um kostnað við embætti forseta Íslands. Athugasemdin er viðbrögð við Staksteinum Morgunblaðsins um helgina, en þar var vitnað til skrifa Vefþjóðviljans. Í athugasemdinni er nefnt að til grundvallar í samanburði milli ára á kostnaði við forsetaembættið sé lögð tala fyrir árið 1996. Þetta ár séu opinberar heimsóknir ekki taldar með, en þær hafi bæst við árið 1998. Þetta er rétt hjá Ólafi Ragnari, en þó er sérkennilegt af manni sem fer fram á nákvæman samanburð að hann skuli ekki láta þess getið um leið að í tölunni frá árinu 1996 er líka gert ráð fyrir biðlaunum fyrir fráfarandi forseta. Þetta vegur nokkuð á móti kostnaðinum við opinberu heimsóknirnar og sanngjarnt hefði verið af Ólafi Ragnari að láta þessa getið úr því hann taldi ástæðu til að gera athugasemd við samanburðinn. Sé tekið tillit til beggja þessara talna, en ekki aðeins þeirrar sem kemur Ólafi Ragnari vel, þá er hækkunin á tímabilinu frá 1996 til 2006 ekki um 230% eins og ef látið er vera að leiðrétta fyrir þessum liðum, heldur um 180%. Óleiðrétt er aukningin í tíð Ólafs Ragnars þess vegna rúmlega þreföld eins og sagði í Vefþjóðviljanum á föstudag, en með leiðréttingu er aukningin tæplega þreföld. Í stórum dráttum breytir þess vegna engu hvort leiðrétt er fyrir þessum liðum eða ekki.

Þá segir Ólafur Ragnar í athugasemd sinni að brýnt sé að gæta þess þegar bornar eru saman tölur milli ára að það sé gert á sama verðlagsgrundvelli. Hann lætur þess hins vegar ekki getið að í Staksteinum er einmitt haft eftir Vefþjóðviljanum að launavísitala hafi hækkað um meira en 80% á tímabilinu og vísitala neysluverðs um rúm 40%, og um leið bent á að hækkun kostnaðar við forsetaembættið sé langt umfram verðlagsþróun. Öllum má ljóst vera af þessum tölum að verðlagsþróun skýrir ekki aukinn kostnað forsetaembættisins.

Ólafur Ragnar tínir einnig til ákveðin atriði sem hann segir skýra aukinn kostnað við embættið. Hann gengur þó vitaskuld ekki svo langt að halda því fram að útskýringar sínar skýri alla kostnaðaraukninguna, enda væri það fráleitt, jafnvel fyrir mann sem vann sér vafasama talnameðferð til frægðar þegar hann var fjármálaráðherra fyrir rúmum hálfum öðrum áratug. En einmitt vegna þess að hann var fjármálaráðherra á árum áður mætti ætla að hann hefði ákveðinn skilning á einu atriði. Hann ætti að vita það að fjárlög eru ekki til lauslegrar viðmiðunar fyrir stofnanir ríkisins heldur lög til að fara eftir. Hann ætti að vita að það er ekki ásættanlegt að embætti ríkisins fari næstum árlega verulega fram úr fjárheimildum sínum. Og hann ætti að hafa skilning á því að eðlilegt væri að forsetaembættið gengi frekar á undan með góðu fordæmi en slæmu.

Forsetaembættið hefur farið fram úr fjárheimildum sínum nær öll árin sem Ólafur Ragnar hefur gegnt embætti, eins og sjá má í ríkisreikningum fyrir árin 1996 til 2004. Tvær undantekningar eru á þessu þegar embættið er lítillega innan heimilda, önnur árið 1998 og hin árið 2001. Seinna árið naut Ólafur Ragnar þess að hafa fengið verulega hækkun fjárheimilda sem greinilega taka mið af framúrkeyrslunni árið 2000, en embættið fór reyndar engu að síður strax árið 2002 langt fram úr útgjöldum ársins 2000. Samanlagt hefur embætti forseta Íslands farið 122 milljónum króna fram úr fjárlögum á þeim árum sem Ólafur Ragnar hefur gegnt því embætti. Þetta er ekki verðleiðrétt tala, en stærstur hluti framúrkeyrslunnar er á allra síðustu árum, og þar sem verðbólga hefur verið lág gefur þessi tala mjög góða mynd af framúrkeyrslunni. Enn betri mynd fæst þó þegar framúrkeyrslan er skoðuð í hlutfalli af fjárheimildum, því að þá má sjá að embættið hefur að meðaltali farið 12% fram úr fjárheimildum. Þegar Ólafur Ragnar fær milljón á fjárlögum eyðir hann henni og jafnan 120 þúsund krónum til viðbótar.

Vefþjóðviljinn er ekki einn um að hafa áhyggjur af rekstri forsetaembættisins í tíð Ólafs Ragnars Grímssonar. Ríkisendurskoðun tók embættið til sérstakrar skoðunar í fyrra þar sem gerðar voru tillögur um bætta fjármálastjórn og í ríkisreikningi fyrir árið 2004 segir orðrétt: „Útgjöld embættis forseta Íslands hafa á síðustu þremur árum verið talsvert umfram fjárheimildir og er svo komið að í árslok 2004 var ráðstöfun umfram fjárheimildir 84,6 m.kr.“ Áhyggjurnar eru ekki ástæðulausar, því að framúrkeyrsla embættisins hefur farið stöðugt vaxandi og var þessi þrjú ár sem Ríkisendurskoðun nefnir að meðaltali 22% af fjárheimildum. Það er þess vegna ljóst – og athugasemd Ólafs Ragnars Grímssonar breytir engu þar um – að forsetaembættið hefur á síðustu árum farið langt fram úr fjárheimildum og kostnaður við rekstur þess hefur stóraukist frá því að hann tók við embætti, rétt eins og Vefþjóðviljinn benti á í grein sinni á föstudag og Staksteinar vitnuðu í á sunnudag.