Velferðarríkið svokallaða er nokkuð til umræðu þessa dagana og sýnist sitt hverjum. Sumir halda því fram að hér á landi sé ekki nægilega mikið gert af því að auka umfang velferðarríkisins. Þessu er haldið fram þótt á undanförnum árum hafi bætur og annar stuðningur við þá sem á slíku þurfa að halda aukist meira en áður hefur þekkst. Og þessu er haldið fram þrátt fyrir að kaupmáttur bóta hafi vaxið um tugi prósenta á skömmum tíma. Jafnvel þeir sem bera ábyrgð á kaupmáttarrýrnun bótaþega í tíð síðustu vinstri stjórnar, eins og Jóhanna Sigurðardóttir fyrrverandi félagsmálaráðherra, stíga nú fram og kvarta yfir því að aðrir hópar hafi á síðustu árum bætt kjör sín meira en þeir sem lifa af bótum. Þetta er auðvitað í besta falli sérkennilegur málflutningur, sérstaklega frá þeim sem bera ábyrgð á kaupmáttarrýrnun þeirra sem minnst höfðu á milli handanna fyrir um hálfum öðrum áratug.
Velferðarríkið er draumaríki sumra, þá helst þeirra sem seint á síðustu öld glötuðu draumnum um sósíalismann og alræði öreiganna. Og velferðarríkið er víðar en bara á Norðurlöndunum, eina útgáfu þess er að finna í ríkjum Evrópusambandsins, ekki síst í einu af kjarnaríkjunum, Frakklandi. Á vef Cato-stofnunarinnar birtist fyrir stuttu grein um vanda velferðarríkisins í Frakklandi og færð rök að því að óeirðirnar á dögunum eigi rætur sínar að rekja til atvinnuleysisins sem sé bein afleiðing þess að í Frakklandi verða allt of fá störf til og mun færri en til að mynda í Bandaríkjunum. Störfin verða ekki til í Frakklandi vegna þess að þar eru of miklar hömlur á atvinnulífinu, meðal annars þannig að þar er of erfitt að segja upp fólki. Afleiðingarnar verða ekki fleiri störf eða öruggari eins og yfirlýst markmið með slíkum lögum er, heldur færri störf og minni gróska í atvinnulífinu. Sama má segja um 35 stunda vinnuviku sem Frakkar tóku upp fyrir nokkrum árum, hún átti að dreifa vinnunni á fleiri og búa til fleiri störf, en hafði ekki tilætluð áhrif. Ráðið til að skapa atvinnu er ekki að banna mönnum að vinna heldur að leyfa þeim að starfa við sem einfaldastar og frjálsastar reglur.
Þá er í fyrrnefndri grein bent á að lítill hvati sé í franska kerfinu til að vinna sig upp, því að kerfið gerir tiltölulega vel við þá sem hafa lág laun eða engin, en refsar með háum sköttum þeim sem vilja bæta kjör sín. Það er nauðsynlegt að átta sig á því að ekki er endalaust hægt að efla velferðarríkið án þess að það taki sinn toll með veikara atvinnulífi, minni hagvexti og á endanum lægri lífskjörum. Það er ekki hægt að þrengja að fyrirtækjum með auknu regluverki án þess að draga úr vilja þeirra til að búa til ný störf og skapa meiri auð. Og það er ekki hægt að ganga langt í að jafna kjör fólks án þess að afleiðingarnar verði of háir skattar, of lítill hvati til að bæta kjör sín og of lítil verðmætasköpun. Með því að ganga sífellt lengra í að jafna í stað þess að leggja áherslu á að búa til meiri auð, verður niðurstaðan sú að færri krónur verða til skiptanna. Það eru ekki þeir ríkustu sem tapa mestu á slíkri jafnaðarstefnu, þeir geta alltaf flutt annað með peningana sína. Það eru hinir sem sitja eftir og tapa á því þegar stjórnmálamönnum tekst að gera ríkið að of miklu velferðarríki. En hugtakið velferðarríki felur raunar í sér algera mótsögn, því að ríkið hefur aldrei skapað velferð. Velferðin verður til hjá einstaklingum á markaði þó að ríkið reyni stundum að eigna sér hluta af velferðinni með því að útdeila henni.