Þriðjudagur 6. desember 2005

340. tbl. 9. árg.
Allar vísindarannsóknir, sem máli skipta sýna, að óbeinar reykingar valda heilsutjóni og jafnvel dauða. Í ljósi þeirra rannsókna er auðvitað óviðunandi með öllu, að þeir sem ekki reykja verði að þola afleiðingarnar af reykingum annarra. Tóbak er eitur. Um það verður ekki deilt. Þetta eitur leiðir til dauða fólks. Um það verður ekki deilt. Þess vegna er lagasetning sem þessi löngu tímabær. Þar að auki verður húsnæði, sem mikið er reykt í daunillt og ónothæft þegar til lengdar lætur. Það eru hagsmunir eigenda húsnæðis, að það verði ekki verðlaust vegna reykinga. Sama á við um bíla, sem reykt er í. Þeir verða verðminni en bílar, sem aldrei hefur verið reykt í.
– Leiðarahöfundur Morgunblaðsins 6. desember 2005 færir rök fyrir reykingabanni.

Já var að ekki? Morgunblaðið vill vernda húseigendur fyrir sjálfum sér með því að banna reykingar í húsum þeirra. Meðal annars af þeirri ástæðu styður blaðið frumvarp Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra um bann við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum frá 1. júlí 2007. Ef að menn fallast á rök af þessu tagi er vandséð að hægt verði að stöðva nokkra lagasetningu um hegðun manna í húsum sínum eða bílum. Ef það nægir að húsnæði lækki hugsanlega í verði við ákveðna hegðun íbúa má eiginlega eiga von á hverju sem er.  Hvenær kemur fram frumvarp sem bannar mönnum að vaða inn til sín á skítugum skónum? Hvenær leggur Jón Kristjánsson fram frumvarp með stuðningi Morgunblaðsins um hámarks rakastig á baðherbergjum manna? Hvenær verður djúpsteiking bönnuð í eldhúsum til að forða íbúðareigendum frá því að fituskán setjist á loft og veggi? Hvenær banna menn hestamönnum að nota bíla?

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins fullyrðir að um ýmislegt varðandi reykingar verði „ekki deilt“ og vitnar af hógværð í allar þær vísindarannsóknir „sem máli skipta“. Jafnvel þótt fallist væri á að það sé allt óumdeilt og sannað með öllum vísindarannsóknum „sem máli skipta“ að óbeinar reykingar valdi heilsutjóni þá verður ekki framhjá því litið að það er rangt sem leiðarahöfundurinn segir að þeir sem ekki reykja verði að þola afleiðingar af reykingum annarra. Þótt oft sé gengið langt í að skipa mönnum fyrir með lögum þá hefur ekki enn verið mælt fyrir um það í lögum að menn þurfi að þola reyk í annarra manna húsum. Það verður enginn að þola reykingar annarra. Gestum er heimilt að yfirgefa veitinga- og skemmtistaði hvenær sem þeir kjósa. Menn geta jafnvel sleppt því alveg að fara á þá staði sem reykt er á. Það á enginn maður sérstaka heimtingu á að aðrir menn reki veitinga- eða skemmtistað sem honum fellur að öllu leyti við. Hvorki til að hann geti sótt þar skemmtanir eða vinnu. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins og Jón Kristjánsson eru þar með taldir.

Menn geta svo velt því fyrir sér hvers vegna bannið á ekki að taka gildi fyrr 1. júlí 2007. Mál sem varðar líf og dauða að mati heilbrigðisráðherra og Morgunblaðsins er bara látið bíða árum saman. Ætli það hafi nokkuð með það að gera að þingkosningar fara fram vorið 2007? Þorir ráðherrann ekki að láta bannið taka gildi fyrr en sumarið eftir kosningar?