N
ú hefur Ágúst Ólafur Ágústsson lagt fram nýtt frumvarp. Nú vill hann að skipaðar verði „óháðar rannsóknarnefndir“ sem geti rannsakað „mikilvæg mál“ sem „varða almannahag“. Ágúst vill að Alþingi geti hvenær sem er skipað slíka nefnd sem geti farið og rannsakað hin mikilvægu mál og kallað menn fyrir til yfirheyrslu. Öllum verði skylt að mæta til nefndarinnar að vitna.
Nú veit Vefþjóðviljinn auðvitað ekki hvaða mál Ágúst Ólafur hefur í huga, annað en það að málið þarf að vera „mikilvægt“ og „varða almannahag“. Eitt hugsanlegt rannsóknarefni gæti auðvitað verið varaformannskjör Samfylkingarinnar á síðasta landsfundi, en eins og komið hefur fram var þar fjölmargt málum blandið. Ef marka má myndir frá fundinum þá eru talsverðar líkur á því að í kjörinu hafi kosið talsvert fleiri en voru á fundarstað og tölur um þátttöku í öðrum atburðum sama dags, til dæmis klukkustund fyrir og eftir varaformannskjörið, benda sterklega til hins sama. Í fréttum hefur verið haft eftir fundarmönnum að brögð hafi verið að því að menn hafi verið með fundargögn annarra manna og hafi reynt að greiða atkvæði fyrir þeirra hönd, en kosningin var rafræn og örugg og traustvekjandi eftir því.
Samfylkingin hefur að vísu ekki enn látið óháða menn rannsaka þetta mál en lætur nægja að kjörstjórnin, sem bar ábyrgð á framkvæmdinni, hafi lýst því yfir að ekkert hafi verið athugavert við eigin störf. En hér þykir Samfylkingunni engin þörf á „óháðum rannsóknarnefndum“ sem geti „eytt tortryggni“. Nú má auðvitað segja, að slík mál stjórnmálaflokks séu einkamál hans og félagsmanna. En varla ráða slík sjónarmið afstöðu Samfylkingarinnar. Að minnsta kosti lætur hún jafnan eins og fjármál flokkanna séu opinber málefni og því skyldi það þá ekki skipta almannahag máli hvernig staðið er að kjöri helstu leiðtoga stærstu flokka landsins?
Auðvitað telur Vefþjóðviljinn ekki að það eigi að skylda Samfylkinguna til þess að rannsaka varaformannskjör flokksins, þrátt fyrir allt það sem komið hefur fram um það. Og ekki telur blaðið að veiti eigi meirihluta Alþingis hverju sinni vald til þess að kalla fram slíkar rannsóknir. En ef Samfylkingin er að leggja fram frumvörp um að allir aðrir í landinu skuli hvenær sem er geta fengið yfir sig pólitískt kjörna rannsóknarnefnd, þá ætti hún nú kannski að sýna gott fordæmi og óska óháðrar rannsóknar, næst þegar menn verða kosnir í trúnaðarstöður með 800 atkvæðum á 500 manna fundi.