Það er ekki allt jafngott sem lendir á svona rúllu. |
Það er kúnst að skilgreina hvað er heimildarmynd og hvað ekki. Ein og sama myndin getur verið hvort tveggja samtímis, eins og hin alræmda Triumph des Willens eftir Leni Riefenstahl. Í valdatíð nasista í Þýskalandi var myndin tímamótaverk í áróðri þar sem allnokkrum sjónrænum brellum var brugðið upp í fyrsta sinn. Í dag er hún hins vegar merkileg heimild um hópsamkomur nasista, múgtryllandi ræðustíl Hitlers og áróðurstrikk þess tíma. En þær heimildarmyndir sem njóta ekki fjarlægðar tímans er erfiðara að segja til með.
Að undanförnu hafa notið vinsælda myndir, sem margir eiga fremur erfitt með að samþykkja sem heimildarmyndir, jafnvel í nokkuð víðum skilningi þess orðs, þó svo þeim sé komið á framfæri undir þeim formerkjum.
Ein þeirra, The Yes men, hefur verið kölluð heimildarmynd, en jafnvel þeir sem að henni stóðu myndu varla móðgast mikið henni væri neitað um þann stimpil. Myndin fjallar í stuttu máli um tvo vini sem villa á sér heimildir og troða upp hér og þar í nafni WTO, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Sú endaleysa sem þeir svo láta frá sér fara í því hlutverki er oftar en ekki bráðfyndin, beinlínis absúrd á köflum, þó að á móti komi að fyrir vikið er ljóst að myndin á miklu meira skylt við falda myndavél en heimildarmynd. Með öðrum orðum, ef þetta er heimildarmynd, þá er hún um prakkarastrik aðstandenda myndarinnar og fátt annað. Það geta allir klæðst sauðargæru og gert hvaða málstað sem er hlægilegan með þessum hætti. En það kemur vitaskuld ekki fram í myndinni; þeir félagar sjá ekkert athugavert við að vinna málstað sínum fylgi með því að sigla undir fölsku flaggi. Það kann nú einmitt að vera ein ástæða þess að myndinni er ekki mjög flaggað – það sjá allir að sú aðferð sem felst í því að forðast að mæta andstæðingi sínum með rökum er ekki sérlega trúverðug.
Supersize me var geysivinsæl mynd fyrir nokkru. Höfundur hennar, Morgan Spurlock, ákvað að fara á McDonalds. Í heilan mánuð. Og eta hvorki né drekka annars staðar á meðan. Svo fylgdust áhorfendur með því hvernig hann blés út og – ef maður hefur skilið myndina rétt – dó næstum því úr hamborgaraáti. En þessi mynd var líka nokkuð kerskin, sem auðvitað átti sinn þátt í vinsældum hennar. Maður bíður bara eftir að Spurlock geri framhaldsmyndina; hvernig rjómadrykkja í einn mánuð fer með hann, eða hvernig vodkadrykkja í einn mánuð fer með hann, eða hvernig líkami hans bregst við því að borða bara rauðan chili í einn mánuð – þess vegna hvernig eplaát í einn mánuð færi með hann. Það yrði reyndar þreytandi til lengdar, þar eð allir sjá í hendi sér að hvers kyns öfgar í mataræði gera manni ekki gott.
Það er raunar víst búið að gera aðra heimildarmynd um hamborgaraát. Kona ein, Soso Whaley, át líka á McDonalds í mánuð en öfugt við Spurlock léttist hún um fáein kíló á tímabilinu, ef marka má fréttir. Svo er einnig rætt við einhvern mann í mynd Spurlock, sem hefur unnið sér til frægðar að borða Big Mac daglega í áraraðir enda viðurkenndi hann fúslega að sér þætti fátt betra. Það vekur athygli manns að þessi maður er nokkuð langt frá því að vera í yfirvigt. En engu að síður er ljóst einhæft mataræði er tæpast af hinu góða, ef einhver vissi það ekki, og Supersize me er einfaldlega mynd um einhæft mataræði.
„Hann benti eðlilega á að fyrirtæki er ekkert annað en lagatilbúningur (artificial legal structure) og hefur sem slíkt ekkert siðferði eða gildi frekar en önnur steypa, gler og málmur. Eingöngu fólk er gætt siðferði og eingöngu fólk getur sætt ábyrgð gerða sinna – þar með talið fólk sem stjórnar fyrirtækjum. Líkt og var áréttað hér fyrir stuttu þá eru fyrirtæki, eins og fram kemur í orðanna hljóðan, tæki.“ |
Þá hafa vinstri menn í Bandaríkjunum og sumir hægri menn hér heima, fundið sér sameiginlegt áhugamál: Eignarhald á fjölmiðlum og misnotkun þeirra. Í myndinni Outfoxed er fjallað um fréttastöðina Fox News og eiga viðmælendur í myndinni ekki orð yfir því hversu viðurstyggileg áróðursstöð það er. Barasta verra en Fréttablaðið hér heima. Myndin er raunar ekkert sérstaklega fyndin, nema af því leytinu til að það er sem kvikmyndagerðarmennirnir haldi virkilega að samlandar sínir í Bandaríkjunum hafi nákvæmlega enga dómgreind. Það er gríðarlegt magn fréttaefnis framleitt þar í landi og margt af því er hreint ekki af sama sjónarhóli og Fox News. Sumt af því efni er sömuleiðis ekki yfir gagnrýni hafið. Fínt; Fox News er ekki hlutlaus stöð. Má ekki segja það sama um 60 Minutes, Washington Post, Le Monde, New York Times, Der Spiegel, El Pais, Wall Street Journal og Small Farm Today Magazine? Hvaða stórkostlega hræðsla er þetta við skoðanir? Eða vanmat á dómgreind fólks?
Vefþjóðviljinn trúir sem kunnugt er ekki á þvæluna um hlutleysi fjölmiðla; fréttir eru unnar af fólki sem aðhyllast ákveðin gildi og hafa sínar skoðanir á málefnum. Það er algerlega ómögulegt taka þessa hluti úr sambandi um leið og komið er í vinnuna. Má samt ekki vera augljóst, að hvaða fréttastöð, dagblað, fréttaskýringaþáttur eða annað fjölmiðlaefni, sem hallar máli á einhvern hátt, er vitaskuld að grafa sér sjálfum gröf? Þegar trúverðugleikinn hverfur, er ákaflega erfitt vinna hann aftur á sitt band. Og þetta er einnig sjálfsleysandi vandamál – margir horfa eflaust á Fox News með sínum gleraugum, með sama hætti og margir hérlendis taka ekki alla fjölmiðla jafnalvarlega. Fólkið á bakvið Outfoxed virðast hafa gert myndina í einhverju mögnuðu pirringskasti í þeirri trú að annars myndu hægrimenn í Bandaríkjunum ná gera alla, nema þá og nánustu vini sína, að repúblikönum.
Risinn í þessum heimildarmyndum – ef heimildarmyndir skyldi kalla – er Michael Moore. Myndir hans Bowling for Columbine og Fahrenheit 9/11 náðu gríðarlegum vinsældum, sér í lagi ef horft er til þeirra vinsælda sem þær heimildarmyndir sem á undan komu, nutu á sínum tíma. Hér er hins vegar ekki hægt að bera saman myndir Moores og hefðbundnar heimildarmyndir, því Moore býr einfaldlega ekki til heimildarmyndir og hefur aldrei gert. Moore er uppistandari með myndavél og pólitíska stefnuskrá.
Ágætt dæmi um þetta er The Big One. Þar fer Moore um Bandaríkin til að kynna bók sína, Downsize this! Varla heimildarmynd í nokkrum skilningi þess orðs. En í henni er ágætt dæmi um hvernig Moore vinnur sína vinnu. Á einum kynningarfundi vísar Moore til þess að hugtökin hlutabréf og hlutabréfaeigandi koma hvergi fram í bandarísku stjórnarskránni. Sem er kórrétt hjá honum. En þær ályktanir sem hann dregur af þessu er fráleitar. Myndin er uppfull af skotum á bandarísk fyrirtæki og hvernig þau voga sér að segja upp fólki ef og þegar það hentar þeim. Þetta er eitt af fjölmörgu sem Moore vill setja veruleg takmörk á, meðal annars vegna þess að stjórnarskráin minntist ekkert á hlutabréf. Það les hins vegar engin þessa tilteknu stjórnarskrá án þess að taka eftir því að hugtakið eignarréttur kemur þar fyrir oftar en einu sinni, ekki síst til að verja hann gegn ágangi ríkisvaldsins. Og hlutur í fyrirtæki er að sjálfsögu eign, sem aftur á móti er varin eignaréttarákvæðum stjórnarskráarinnar. Þetta veit Moore mætavel. En það þjónar engum tilgangi í myndinni að beina athyglinni að því. Það má víst þakka fyrir að Moore er ekki almennt í nöp við flugumferðarstjórn, þar eð ekki er minnst á svoleiðis nokk í stjórnarskránni heldur.
Moore sló fyrst í gegn með Bowling for Columbine og fékk Óskarinn fyrir verkið í flokki heimildarmynda – sem er næstum eins makalaust og þegar Gorbachev fékk friðarverðlaun Nóbels 1990. Eins og kannski flestir kannast við vísar myndin í fjöldamorð tveggja unglinga í Columbine skólanum. Í upphafi myndar spyr Moore einnar spurningar: Hvers vegna eru morð svona miklu algengari í Bandaríkjunum en í öðrum ríkjum? Þetta er raunar mjög góð spurning og þetta er ekki í fyrsta sinn sem menn reyna að kryfja málið. En svar Moores er brandari í sjálfu sér. Að hans mati er það sökum þess að bandarískir fjölmiðlar ala á landlægum ótta – þar er sífellt verið að fjalla um hluti sem vekja varanlegan ugg í brjóstum fólks og þess vegna er ástandið eins og það er. Hvílík vitleysa. Fréttaþættir alls staðar um allan heim snúast fyrst og síðast um slæmar fréttir. Hvaða fréttastjóra dytti í hug að benda á að hagvöxtur í Kína er 9,7% sem fyrstu frétt? Öðru máli gegnir um fréttir af nýjum tilvikum af flugnaflensunni í sama landi.
Vitaskuld koma aðrir þættir að í mynd Moores, sér í lagi Landssamband byssueiganda, NRA. Það er svo sem ekki í fyrsta sinn sem þau samtök eiga að bera sökina, þótt bæði hafi jafnoft verið bent á, að byssueign í öðrum löndum er sum staðar geysimikil, til að mynda í friðsældarríkinu Sviss, og hitt að það er meira en lítið umdeilt, hvort ströng byssulöggjöf hafi hjálpað til við að fækka morðum í þeim fylkjum Bandaríkjanna sem hafa reynt að nota slíka löggjöf til að leysa vandann. Undir lok myndarinnar segir Moore hins vegar alveg skilið við öll rök þegar hann fer á heimili Charltons Hestons, formanns NRA. Hér er sá eini tilgangur að nota tilfinningar til að afla fylgis áhorfenda, en rökin mega eiga sig.
Það hefur þegar verið fjallað um Fahrenheit 9/11 hér í Vefþjóðviljanum og vilji menn rifja það upp má smella hér.
Michael Moore er fyrst og fremst pólitískur uppistandari og nokkuð góður sem slíkur. Sem kvikmyndagerðarmaður sem telur sig vera að miðla réttum upplýsingum til áhorfenda fær hann hins vegar algera falleinkunn. Hvað svo sem Moore gerir, þá býr hann ekki til heimildarmyndir. En þetta hefur hann svo sem margoft heyrt áður og getur eins og svo margir á undan honum grátið alla leiðina í bankann. Hann ræddi nú einmitt þessa staðreynd, sem viðmælandi í myndinni The Corporation, að hann væri samningsbundinn þessum risastóru alþjóðafyrirtækjum sem eiga ekki svo lítinn þátt í því að gera hann að margmilljóner. Framleiðendum The Corporation fannst ræðan svo góð að þeir enda myndina á henni – en þeir sem eru ef til vill ekki alveg á sömu línu verða vitni að einni aumkunarverðustu réttlætingu fyrr og síðar.
Allar þær myndir sem fjallar er um hér á undan eiga flestar það sameiginlegt að kvikmyndagerðarmennirnir einblína allir á mátt kímnigáfunnar – og tekst oft vel á því sviðinu. Gildi þeirra sem þokkalega góð heimild um umfjöllunarefni sín er hins vegar frekar bágborið. Það er þó ein mynd, The Corporation, sem styðst ekki sérstaklega við húmorinn.
Aðstandendur The Corporation tilbiðja margir Noam Chomsky, höfund bókarinnar Manufacturing Consent, sem er ágæt lesning fyrir alla sem þykjast vissir um að meira og minna allt sem þeir lesa í fjölmiðlum sé stjórnað af samsærisklíku hægrimanna um allan heim. Sama fólkið gerði einmitt heimildarmynd um hann um árið. Það er óhætt að fullyrða að þetta ágæta fólk hefur horn í síðu markaðsskipulagsins.
Myndin byrjar á þeim ósköpum, og ekkert verið að skafa af því, að fyrirtæki eru einfaldlega lögð að jöfnu við siðblindingja. Í myndinni er spurt, hvers konar persóna kæmi út ef hún væri innrætt eins og fyrirtæki? En fyrst var það nú „sannað“ að yfirleitt einkenndust fyrirtæki af eftirfarandi: a) áhugaleysi um aðstæður annarra, b) vangetu til að viðhalda varanlegu sambandi við aðra, c) ófyrirleitnu áhugaleysi á því sem skapar hættu fyrir aðra, d) stöðugum lygum og blekkingum í þeim tilgangi að græða, e) vangetu til að játa sekt og f) vanhæfni til að fara eftir lögum. Ef þætt væri yfirfært á manneskju af holdi og blóði, þá þýddi þetta að viðkomandi væri skilgreind sem siðblindingi. Og hana nú.
Það er á engan hátt gert ráð fyrir þeim möguleika, að þessi upptalning á einkennum siðblindra, eigi einfaldlega ekki við nema brot af fyrirtækjum með sama hætti og þau eiga aðeins við lítinn minnihluta mannfólksins. Neineiogseisei. Þarna var einfaldlega búið að fullyrða að hér væri komið fram innsta eðli allra fyrirtækja. Aðstandendur myndarinnar mega þó eiga það, að það var ekki eingöngu rætt við þá sem eru þeim sammála þótt sá hópur hafi verið margfalt fjölmennari heldur komu einnig fram fáeinir sem sáu hlutina í öðru ljósi. Þannig kom Milton Friedman fram í myndinni og þótt hann hafi ekki sagt mikið, þá var hann gagnorður. Hann benti eðlilega á að fyrirtæki er ekkert annað en lagatilbúningur (artificial legal structure) og hefur sem slíkt ekkert siðferði eða gildi frekar en önnur steypa, gler og málmur. Eingöngu fólk er gætt siðferði og eingöngu fólk getur sætt ábyrgð gerða sinna – þar með talið fólk sem stjórnar fyrirtækjum. Líkt og var áréttað hér fyrir stuttu þá eru fyrirtæki, eins og fram kemur í orðanna hljóðan, tæki. Hamar og sög eru líka tæki, sem nota má til uppbyggingar en líka til hræðilegra voðaverka. Sá veldur sem á heldur. Og sá sem á heldur er ekki hamarinn heldur manneskjan
Það mætti eflaust búa til svipaða mynd um stjórnmálaflokka. Það væri a.m.k. auðvelt að sýna fram á að nasistaflokkurinn í Þýskalandi, Fasistaflokkurinn á Ítalíu og kommúnistaflokkarnir í Sovétríkjunum, Kína, Kúbu og Norður-Kóreu og þótt víðar væri leitað, væru helber sönnun þess að stjórnmálaflokkar væru af hinu illa. En flokkar eru yfirleitt líka bara lagatilbúnaður. Meinleysi þeirra eða skaðræði fer eftir því hvernig forystumenn þessara flokka beita þeim völdum sem þeim er treyst fyrir eða þeir hafa rænt. Hugmyndafræðin í þessum tilteknu flokkum hjálpar ekki til, en það er samt sem áður fráleitt að benda á siðblindu Hitlers, Stalíns, Leníns, Mussolinis, Maós, Kims Ils Sungs og svo mætti áfram telja, sem sönnun þess að stjórnmálaflokkar séu í eðli sínu siðblindir. Siðblinda er með öðrum orðum einstaklingsbundinn. Það að beita henni á önnur fyrirbæri, svo sem fyrirtæki, stjórnmálaflokka eða hamar og sög missir algerlega marks. Stjórnmálamenn geta vissulega átt við siðferðisbresti að stríða, hvort sem þeir eru að próteinskreyta bláa kjóla við væga vindlalykt eða annað, en það þýðir ekki nauðsynlega að flokkur þess sem um ræðir og allir samflokksmenn viðkomandi séu óargadýr, óalandi og óferjandi.
Það er kannski þess vegna sem myndin gengur meira minna út á dæmisögur af hinum og þessum illu fyrirtækjum og uppátækjum þeirra. Eftir að búið að er „sanna“ eðlislæga siðblindu allra fyrirtækja, þykir nauðsynlegt að hamra aðeins á þessari meintu siðblindu með dæmum, sem geta tæpast kallast handahófskennd. Þá verður hún líka býsna langdregin, nema fyrir skoðanasystkin Chomskys, sem geta horft á heilar átta klukkustundir af aukaefni á DVD útgáfunni. Öðrum þykir upprunalega þriggja tíma útgáfan ef til vill meira en nóg af hinu góða – ekki síst vegna þess að hvergi er minnst á að á Vesturlöndum – þeim heimshluta sem býður borgurum sínum upp langbestu lífskjörin – eru það einmitt fyrirtækin sem eru langstærsti atvinnuveitandinn.
Ætli allar þær milljónir manna sem vinna hjá öllum þessum fyrirtækjum kannist við þessa alla þessa brjáluðu siðblindu á sínum vinnustað? Eða væri nær að kalla þessa mynd frekar Manufacturing Discontent?