Mánudagur 31. október 2005

304. tbl. 9. árg.

I ngibjörg Sólrún Gísladóttir hefur nú reynt að friðmælast við forystumenn sjávarútvegsins, gegn því að þeir geri ekki væntanlega þögn Samfylkingarinnar um málaflokkinn vandræðalega með því að lýsa opinberlega þeirri skoðun sinni að þeir hafi öðlast eignarrétt að aflaheimildum. Nú er auðvitað fagnaðarefni ef að Samfylkingin hverfur frá öllum þeim slæmu skoðunum sem hún hefur sett fram á sjávarútvegsmálum á síðustu árum, og síst skal Vefþjóðviljinn draga úr henni með það. En væntanleg þögn Samfylkingarinnar um sjávarútvegsmál verður á margan hátt dæmigerð fyrir þennan stjórnmálaflokk. Og dæmigerð fyrir það hversu mikið er að marka Samfylkinguna á hverjum tíma. Hvernig hafa ekki stóryrðin verið um sjávarútveginn? Er þar ekki á ferð „mesta ranglæti Íslandssögunnar“? Er ekki búið að „stela frumburðarrétti hvers einasta Íslendings“? Er aflamarkskerfið ekki „mesti þjófnaður sögunnar“? Eins og Samfylkingin hefur lýst „gjafakvótakerfi sægreifanna“ þá hefðu menn helst ætlað að þar væri eitthvert almesta óréttlæti sögunnar á ferð.

En nú ætlar Samfylkingin að hætta þessu tali, bara rétt si svona. Auðvitað fagnar Vefþjóðviljinn því ef Samfylkingin hættir að hóta að eyðileggja sjávarútvegskerfið. Hvaða mark sem yrði nú á því takandi, fremur en öðru því sem frá henni kemur eða kemur ekki. En hvað um það, segjum nú sem svo að Samfylkingin skipti algerlega um málflutning í sjávarútvegsmálum, af hvaða ástæðu ætli hún geri það? Ætli hún segi að hún hafi skipt um stefnu vegna þess að aflamarkskerfið sé ekki ranglátt, að „gjafakvótinn“ hafi ekki verið gjafakvóti, að ekki hafi verið stolið frumburðarrétti nokkurs manns? Eða ætli hún skipti bara um stefnu vegna þess að nú benda skoðanakannanir og rýni hópar til þess að sjávarútvegsmál séu ekki lengur til þess fallin að æsa fólk upp? Ætli hún skipti um stefnu vegna þess að það hafi ekki einu sinni farið fram hjá Samfylkingunni að í síðustu kosningum gerði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir eintómar fýluferðir í flest sjávarútvegspláss landsins þegar hún ætlaði að heilla heimamenn upp úr skónum.

En hvað er að segja um stjórnmálaflokk sem svo gersamlega snýr við blaðinu í málaflokki sem hann hefur haldið á lofti með stórum orðum og hreinlega ofsa árum saman? Hvað er að marka þá stefnu sem hann kynnir í öðrum málum frá degi til dags? Sjáum til dæmis fjölmiðlamálið svokallaða í fyrra. Þá voru nú ekki spöruð stóru orðin – en svo nokkrum mánuðum seinna skrifað upp á skýrslu, sem fyrir tilviljun myndi að vísu henta núverandi stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins vel, en er auðvitað í mótsögn við þá baráttu sem stjórnarandstaðan háði síðasta vor. Var andstaðan í fyrra þá bara tæknilegs eðlis? Var hún kannski ekki andstaða við fjölmiðlareglur heldur eingöngu þá tilteknu útfærslu sem þá var lögð til? En ef sú var ástæðan, af hverju þá öll þessi læti sem efnt var til? Lætin geta vel verið skiljanleg frá sjónarhóli þeirra sem ekki geta hugsað sér nokkrar einustu samkeppnisreglur um fjölmiðla, en ekki hins vegar frá sjónarhóli þeirra sem skrifuðu upp á „fjölmiðlaskýrsluna“ fyrr á þessu ári.