Enn og aftur hefur Kína tekist að sýna fram á hvernig kommúnísk þjóðfélagsskipun greinir sig frá markaðssamfélaginu. Nú er kominn á markaðinn kínverskur jepplingur að nafni Jiangling Landwind en fáir geta keppt við verðið á þeirri gæðakerru. Að vísu fylgir sá böggull skammrifi að hönnunin á bílnum er gamaldags og margir þættir hennar 30 árum á eftir tímanum, bíllinn hefur lélega aksturseiginleika og auk þess fengið eina slökustu útkomu úr árekstrarprófum sem um getur. Þá hafa Félag danskra ökumanna og fleiri dæmt bílinn dauðagildru. Innflutningur bílsins til landa Evrópusambandsins er afleiðing óhóflegrar skattheimtu á bíla og sýnir afleiðingar þeirra áráttu hjá sambandinu að setja reglur á og staðla um allt milli himins og jarðar.
Mikið hefur verið fjallað um bílinn í fjölmiðlum víðs vegar um Evrópu. Jepplingurinn, sem flokkast í efri milliflokk, svipar til ýmissa bíla í stærðarflokknum, enda hafa ýmsir framleiðendur þekktra bílmerkja sakað verksmiðjur jeppans um að stela útlitshönnun frá sér. Kínverskir bílaframleiðendur eru vitanlega að hluta eða öllu í eigu kínverska ríkisins.
Bíllinn hefur verið öryggisprófaður. Meðal þeirra sem árekstraprófað hafa bílinn er hin kunna stofnun ADAC í Þýskalandi, sem er hagsmunasamtök bifreiðaeigenda og ökumanna. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að hönnun bílsins væri 30 árum á eftir flestum viðurkenndum bílamerkjum og að hann væri skelfilegur út frá öryggissjónarmiðum, hvort sem litið væri til öryggis við árekstur eða við akstur. Þegar bílnum var ekið á 64 km hraða á vegg, lagðist fremri hluti farangursrýmisins saman og tilraunadúkkan klemmdist föst milli stýris, mælaborðs og sætis.
„Það er umhugsunarefni fyrir stjórnvöld á Norðurlöndum að okurálagning ríkisins á innflutning bíla stofnar lífi og limum borgaranna í hættu, enda freistast þeir til að kaupa ódýra bíla, sem oft reynast handónýtar tíkur…“ |
En bíllinn er ótrúlega ódýr, sem skýrist ekki síst af því að launakostnaður í Kína er nokkuð lægri en víðast í þeim löndum þar sem heimsins þekktustu bílar eru framleiddir. Hver króna sem sparast við framleiðslu bílsins, skilar sér í að bíllinn verður mörgum krónum ódýrari þegar hann berst á markað víðast í Evrópu, enda leggjast há gjöld á bílana, meðal annars hlutfallslega á hverja krónu sem bíllinn kostar í innkaupum. Því hafa nokkrir bílasalar í Danmörku og víðar fagnað fréttum af þessum ódýra bíl. Engan skyldi undra það, enda hafa sósíaldemókratar þar unnið að því hörðum höndum í áratugi að berjast gegn bílaeign almennings og er álagningin á bíla orðin slík að þar skiptir orðið verulegu máli að kaupa sem ódýrasta bíla. Hver króna sem sparast í innkaupum til landsins skilar sér í mun ódýrari bíl á bílasölum landsins.
Þessi staðreynd hefur ekki farið fram hjá Kínverjum og hafa þeir beitt ýmsum aðferðum til að spara við framleiðslu bílsins. En ekki hefur að sama skapi verið skeytt um líf og limi tilvonandi eigenda og farþega bílsins, sem kannski þarf ekki að koma á óvart, enda hefur sagan margsinnis sýnt að í ríkjum sem hafa kommúnískt þjóðskipulag er líf einstaklinganna langt frá heilagt fyrir stjórnvöldum. Það sem skiptir framleiðanda bílsins máli er að selja vel og hafa betur í samkeppninni við kapítalísku bílaframleiðendurna sem framleiða bíla sem í fljótu bragði virðast sambærilegir.
En hvernig stendur á því að það fæst leyfi til að selja bílinn innan ESB. Jú, í ESB gildir sú regla að bílar verða að undirgangast og standast ýmis próf og uppfylla hina og þessa staðla. Það gildir þó ekki um bíla sem eru þyngri en 2.500 kg því að þá eru þeir nefnilega flokkaðir sem sendibílar. Og hvað skyldi nú glæsikerran Landwind vega? Hárrétt, 2.510 kg! Það skyldi þó ekki vera að kínversku framleiðendurnir hafi haft það að markmiði að koma honum inn í þennan flokk?
Það er óhugnanlegt til þess að hugsa, að þeir hafi gert það sem í þeirra valdi stendur, til að þyngja þennan stórhættulega bíl, sem fær falleinkunn í aksturseiginleikum, til að koma honum í gegnum götótt kerfi ESB. Það er ekki nóg að setja sem flestar reglur og staðla um alla mögulega og ómögulega hluti, þó af góðum búrókratískum vilja sé.
Nú er á leiðinni inn á Evrópumarkaðinn handónýtur bíll sem er stórhættulegur þeim sem inn í hann stíga og fyrir honum verða, og vafalaust sjáum við hann fljótlega auglýstan til sölu á Íslandi. Bíllinn flýgur í gegnum víðtækt reglugerðanet ESB sem sagt er lagt til verndar neytendum. Og þar sem álagning ríkisins á bíla víða í Evrópu er mikil, og þá sérstaklega á Norðurlöndum, er stórhætta á að bíllinn muni verða vinsæll í ljósi verðsins. Það er umhugsunarefni fyrir stjórnvöld á Norðurlöndum að okurálagning ríkisins á innflutning bíla stofnar lífi og limum borgaranna í hættu, enda freistast þeir til að kaupa ódýra bíla, sem oft reynast handónýtar tíkur sem valda þeim sem fyrir þeim verða hámarksskaða og leggjast saman við minnsta árekstur og veltur.
Að þessu sinni virðist kommúníska kerfið hafa séð við hinu sósíalíska kerfi ESB og Norðurlanda.