Vestrænum fjölmiðlum hefur tekist að fjalla ýtarlega um það í tvo sólarhringa að bandarískur predikari, Pat Robertson að nafni, hafi í ræðu einni minnst á að því hefði verið haldið fram að Bandaríkjamenn ætluðu að ráða Hugo Chavez forseta Venesúela af dögum, og bætt því við frá eigin brjósti að slík aðgerð yrði vel til fundin. Robertson hefur raunar síðar sagt að þetta hafi hann sagt í stundarreiði og að hann vilji vitaskuld ekki að þessi maður verði veginn. Ekki veit Vefþjóðviljinn hvað Robertson vill eða vill ekki – og kann ekki við menn sem hvetja til morða – en hitt er annað mál að áhugi samviskubitinna vestrænna fjölmiðla á fyrri orðum hans er athyglisverður. Vestrænir fjölmiðlar eru sífullir af fréttum af vondum hvítum mönnum, sérstaklega þeim sem telja sig kristna, og hvað þeir segja eða gera ranga hluti, eða þá hvernig Vesturlönd hafa farið illa með þennan eða hinn. Robertson þessi, sem vel má vera hvort sem er afglapi eða stórmenni, hefur ekkert opinbert embætti og engan status þó hann styðji ríkisstjórn landsins eins og milljónir samlanda hans, en engu að síður var reynt að snúa ummælum hans upp á ríkisstjórn Bush og krefja hana svara. Það er sjálfsagt að taka á þeim sem hvetja til óhæfuverka, og þá sérstaklega þeim sem beina orðum sínum til þeirra sem eru líklegir til að taka þau trúanleg. Sérstaklega er nauðsynlegt að taka á þeim sem hvetja unga og óharðnaða menn til illverka, ekki síst þegar reynslan sýnir að slíkar hvatningar geta borið óhugnanlega mikinn árangur. En hvenær verða gerðar fréttir um hatursáróðurinn frá þeim öflum sem fréttamenn virðast halda að séu ekkert annað en friðelskandi fórnarlömb? Hvenær eru leiðtogar annarra ríkja en Vesturlanda beðnir um að svara og afneita robertsonunum sínum?
Í sinni athyglisverðu bók, Fjölmiðlum 2004 sem Vefþjóðviljinn hefur af og til vitnað til og bóksala Andríkis býður til sölu, víkur Ólafur Teitur Guðnason meðal annars að því hvernig alþjóðlegir fjölmiðlar fara misjöfnum höndum um þá sem hafa slíkan áróður í frammi. Í pistli sem Ólafur Teitur skrifaði vegna lotningarinnar sem Yasser Arafat var látnum sýnd í vestrænum fjölmiðlum, segir meðal annars að „fjölmiðlar á Vesturlöndum gera allt of lítið af því að kynna okkur menningu og hugarheim Palestínumanna og annarra múslímaþjóða eins og hún birtist í fjölmiðlum þeirra sjálfra. Á netinu má finna viðtöl við Yasser Arafat á arabísku þar sem hann hrósar ungum börnum fyrir að fórna sér í blóðugri baráttu. Þar má finna fréttatíma þar sem tekin eru heiðursviðtöl við börn sem hafa ráðist gegn Ísraelsher. Þar má finna palestínsk tónlistarmyndbönd sem ganga út á að börn öðlist sældarlíf í einhvers konar Paradís ef þau fórna sér fyrir föðurlandið. Eru þetta falsanir? Er enska þýðingin á þessum viðtölum skáldskapur? Fjölmiðlar hljóta að geta fengið úr því skorið. Okkur er sífellt legið á hálsi fyrir að kynna okkur ekki menningu og sjónarmið þessa fólks. Hvers vegna er þá ekki betur sagt frá þessari hlið málsins? Hvers vegna er ekki fjallað um orsakir þess að Mein Kampf var ein vinsælasta bókin meðal Palestínumanna ekki alls fyrir löngu?“
Kannast einhver við að fjölmiðlar, íslenskir eða alþjóðlegir, hafi áhuga á slíkum fréttaflutningi? Svona í samanburðinum við tveggja daga umfjöllum um gaspur í Pat Robertson. Kannast einhver við að lagt hafi verið til að tekið verði fyrir opinberan stuðning við til dæmis Palestínumenn þar til þeir hafi tekið fyrir hatursáróður sinn og innrætingu af því tagi sem þarna er lýst? Eða eru fréttir bara sagðar af því að ungur drengur hafi fallið í átökum en ekki minnst á það að því hafi verið haldið að honum alla hans tíð að það væri leiðin til paradísar?
Það er ákaflega mikilvægt að fjölmiðlum sé sýnt öflugt aðhald. Þeir eru sjálfir mjög uppteknir af því að þeim sé ætlað að veita öðrum, svo sem stjórnvöldum, stjórnmálaflokkum og stórfyrirtækjum, aðhald, en hver skoðar hvernig fjölmiðlar sinna sínum störfum? Hver skoðar hvernig hún er í raun, myndin sem fjölmiðlarnir draga upp af heiminum? Vikulegir fjölmiðlapistlar Ólafs Teits Guðnasonar í Viðskiptablaðinu og bók hans, sem geymir alla pistla hans frá síðasta ári, eru nauðsynleg undantekning frá þeim íslenska sið að vinnubrögð fjölmiðlamanna séu undanþegin gagnrýni.