Miðvikudagur 24. ágúst 2005

236. tbl. 9. árg.

Höfuðborg Tékklands, Prag, er ótrúlega skemmtileg borg og áhugaverður áfangastaður fyrir ferðamenn. Þar er margt að sjá og upplifa og óhætt er að segja að engum þarf að leiðast að eyða nokkrum dögum í að rölta um götur Prag. En þó að borgin sé öll áhugaverð er það áhugaverðasta í henni líklega lítið safn í miðborginni; Kommúnismasafnið. Kommúnismasafnið er fremur einfalt að allri gerð, uppistaðan eru myndir og texti, en þar er einnig talsvert af munum frá tíma kommúnismans í Tékkaslóvakíu. Þeir sem eiga leið um Prag – eða geta gert sér ferð þangað – ættu að gefa sér góðan tíma í Kommúnismasafninu, því að róleg ferð í gegnum það og lestur myndatextanna á veggjunum lætur engan ósnortinn. Hryllingur þessa öfgafyllsta forms jafnaðarstefnunnar, kúgun og eymd borgaranna, eyðilegging náttúrunnar, spilling valdhafanna – auðvitað að ógleymdum ömurlegum arkítektúrnum – eru engu lík.

En hvers vegna er Vefþjóðviljinn að minnast á þetta nú? Jú, ástæðan er vitaskuld sú að Václav Klaus forseti Tékklands hefur verið í heimsókn hér á landi síðustu daga. Klaus hefur verið ötull talsmaður frelsis einstaklingsins og takmarkaðra ríkisafskipta, sem þarf ekki að koma á óvart í ljósi sögu Tékklands. Hann hefur meðal annars verið mjög gagnrýninn á Evrópusambandið og telur að embættismenn og aðrir sem þar vilja ráða för gangi allt of langt, til dæmis með mislukkuðum drögum að stjórnarskrá sambandsins og tilraunum til að gera Evrópu að sambandsríki. Þá sé afskiptasemi Evrópusambandsins af borgurum Evrópusambandsríkjanna allt of mikil.

Václav Klaus vék einmitt að þessu á mánudag í ræðu sem hann hélt á fundi Mont Pèlerin samtakanna sem haldinn er í Reykjavík. Þar varaði hann við því að þó að nú um stundir stafaði ekki ógn af augljósustu mynd sósíalismans, kommúnismanum, þá væru aðrar birtingarmyndir hans enn hættulegar. Hann nefndi ýmis dæmi um pólitískar stefnur sem ógnuðu frelsi manna, svo sem það sem hann kallaði Evrópusambandshyggju, sósíaldemókratisma, femínisma, trúna á velferðarríkið og margt fleira.

Friedrich A. Hayek, sem kom Mont Pélerin samtökunum á fót fyrir rúmri hálfri öld, benti á sambærilega hluti í bók sinni Leiðinni til ánauðar, og oft í ræðu og riti eftir það. Hann útskýrði að frelsið tapaðist ekki endilega allt í einu vegna þess að til valda komist illmenni sem ákveði að kúga almenning og komist upp með það. Frelsi manna getur eins tapast smám saman með aragrúa af íþyngjandi lögum og reglum frá velviljuðum og lýðræðislega kjörnum stjórnmálamönnum. Þess vegna þarf almenningur stöðugt að vera á verði gagnvart öllum þeim smáu skrefum sem sífellt er verið að taka til að skerða frelsið. Og þess vegna er mikilvægt að kynna sér hvaða afleiðingar alræðisstjórnir hafa, til dæmis með því að skoða Kommúnismasafnið. Þá er ekki síður mikilvægt að kynna sér viðhorf þeirra sem hafa þurft að búa við kommúnisma og vara við öðrum birtingarmyndum sósíalismans.