102 Reykjavík? |
Breski rithöfundurinn Auberon Waugh ráðlagði mönnum eitt sinn að í hvert sinn sem þeir hittu arkitekt í veislu ætti að kýla hann á nefið. Þannig mætti ef til koma einhverjum arkitektum í skilning um að þeir ættu að hanna falleg hús.
Þessi uppgjöf Waughs gagnvart því að koma vitinu fyrir arkitekta með hefðbundnum aðferðum er rifjuð upp hér að því tilefni að um þessar mundir fer fram miðbæjarmeistaramót 68-kynslóðarinnar í Reykjavík í greininni hver kom fyrstur fram með þá hugmynd að færa Reykjavíkurflugvöll út á Löngusker svo byggja mætti í Vatnsmýrinni. Í gærkvöldi gaf maður sig fram í Kastljósi Ríkissjónvarpsins og gerði tilkall til titilsins með því að lýsa því yfir að hann hefði gert tillögu um flugvöll á Lönguskerjum fyrir 30 árum.
Ætli einhver mundi vilja sitja uppi með byggingar frá þeim tíma í Vatnsmýrinni? Það var ekki nóg með að húsin frá sjöunda og áttunda, já og níunda og tíunda, áratug síðustu aldar séu sum hver herfilega ljót heldur er ljótleikinn oft laðaður fram með sérlega ógeðfelldu skipulagi.
Í framhaldi er nauðsynlegt að fá svör við því hvort menn telji að íslenskir arkitektar hafi fengið nægilega oft á baukinn fyrir misgjörðir sínar á seinni helmingi síðustu aldar til að menn treysti þeim til setja eitthvað annað en hrylling niður í Vatnsmýrinni.
Það er kannski að renna upp fyrir þeim sem mest hafa ólmast gegn flugvellinum í Vatnsmýrinni að þótt völlurinn færi er ekki víst að það sem kæmi í staðinn yrði nokkru skárra.
Ef flugvöllurinn verður lagður af má fyrst búast við almennilegum hasar, þegar æstustu andstæðingar hans sundrast í margar fylkingar sem hafa ólíkar skoðanir á því hvernig draumamýrin á að líta út.
Piet Hein hét Dani, uppfinningamaður, skáld og margt fleira. Eftir hann liggja ótal sniðugheit, hvort sem er í orðum eða tiltektum. Lítið kvæði eftir hann nefnist Juniaften og hljómar svo á frummálinu:
Nu blomstrer de blide syrener igen,
og duftenes sødme har magt.
Ved aften går pigerne hver med en ven,
som prøver at sige de ting – igen –
som er lettere gjort end sagt.
Þetta er lipurlega sagt og ekki er íslensk þýðing Þorsteins Gylfasonar lakari:
Hljómskálagarðurinn grænkar á ný
eins og Guð hefur fyrir hann lagt.
Svo piltar og stúlkur fá sér frí,
og piltarnir hafa ekki hugann af því
sem er hægara gert en sagt.