Mánudagur 22. ágúst 2005

234. tbl. 9. árg.

Um helgina minntist Vefþjóðviljinn á Hannes Hafstein, fyrsta ráðherra Íslands og hina stórgóðu ævisögu hans eftir Kristján Albertsson, í samhengi við nýlegt ákall Morgunblaðsins um tafarlausa virðingu til handa Valtý Guðmundssyni, keppinaut Hannesar og fyrirliða Valtýinga. En þó sigurinn í heimastjórnarmálinu sé það sem flestir muni sennilega fyrst tengja við stjórnmálaferil Hannesar, þá er af honum margs annars að minnast, og ýmislegs sem má verða til umhugsunar enn í dag. Þannig varð Hannes ásamt Jóni í Múla sá sem harðast barðist gegn því árið 1909 að Alþingi samþykkti bannlögin. Í þingræðu spáði hann því að á lögunum yrði

traðkað ljóst og leynt, yfirhylming, yfirdrepsskapur og alls konar undanbrögð þrífast, vitni muna ekki, lögreglumenn sjá ekki, dómarar skilja ekki og gróðavonir uppljóstrunarmanna og mútuþega togast á. Þau mundu framkalla lagabrot á lagabrot ofan, og stjórnarvöldin vera alveg máttlaus til þess að halda lögunum í heiðri og fylgja þeim fram. En að hafa lög í landi, sem gefa tilefni til sífelldra daglegra lagabrota, sem ekki er hægt að hafa hemil á, er og verður siðspillandi og eitur fyrir hugsunarhátt þjóðarinnar.

Hér hafði Hannes Hafstein rétt fyrir sér. Bannlögin urðu eins og hann hafði spáð. Eða eins og einn af skemmtilegustu blaðamönnum Íslands, Magnús Magnússon spurði fimmtán árum eftir samþykkt bannlaganna og tveimur árum eftir andlát Hannesar:

Er nú nokkur maður til, sem vill ganga svo á móti sannleikanum, að hann ekki vilji viðurkenna, að hvert einasta orð, hver einasti spádómur þessa mikla stjórnmálamanns vors um þessi hörmulegu lög hafi ekki ræst bókstaflega. Ég held tæpast, að nokkur maður sé svo andlega blindur sökum bannofsa eða svo mikill hræsnari, að hann sjái þetta ekki og verði að viðurkenna það.

En hvernig standa mál nú? Jú, áfengisbannlögin hafa auðvitað löngu verið felld úr gildi og sennilega er lítil hætta á að reynt verði að endursetja þau bannlög á næstu árum. En hvað með önnur bannlög? Er ákafafólk ekki sífellt að berjast fyrir nýjum og nýjum bannlögum og reglum? Er ekki sífellt verið að færa ýmsar girðingar nær og nær borgaranum og allt víst í þeim tilgangi að vernda hann fyrir eigin röngu ákvörðunum? Það er meira að segja reynt að banna mönnum að taka í nefið! Og enginn segir neitt. Fjölmiðlar eiga talsverðan þátt í þessari þróun, því sífelldur áhugi þeirra á nýjum reglum og ákafi þeirra við að finna dæmi um að reglur hefðu getað komið í veg fyrir tjón, plægja jarðveginn fyrir það oft velmeinandi fólk sem gengur fram í því sem Magnús Stormur nefndi bannofsa. Og hver þorir að andmæla bannofsamönnum? Hver þorir að tala máli þeirra sem vilja eiga sína lesti við sjálfa sig en ekki aðra? Hefur svo mikið breyst á þeim áttatíu árum sem liðin eru frá því Magnús Magnússon minntist baráttu Hannesar Hafstein gegn bannlögunum?

Alla þessa siðspillingu sá Hannes Hafstein fyrir, að af bannlögunum myndi leiða, og hann hafði djörfung til að segja frá þeirri sannfæringu sinni. – Og þá höfðu nokkrir menn á þinginu djörfung til að fylgja honum. En nú hefir enginn þingmannanna djörfung til þess að segja sannfæringu sína í bannmálinu opinberlega, enda flestir þeirra fallnir frá, sem kjark höfðu til að segja nei með Hannesi Hafstein á Alþingi 1909.